Veiddi lax sem hann sleppti sem seiði

Jóhannes Sturlaugsson með stórlaxinn úr Lagarfljóti sem hann veiddi í …
Jóhannes Sturlaugsson með stórlaxinn úr Lagarfljóti sem hann veiddi í net í byrjun mánaðar. Hann örmerkti þennan lax og annaðist sleppingu á honum sem seiði fyrir tveimur árum. Ljósmynd/Laxfiskar

Jóhannes Sturlaugsson, fiskifræðingur og oft titlaður urriðahvíslari, átti skemmtilega endurfundi við stórlax í Lagarfljóti í byrjun mánaðarins. Þá veiddi Jóhannes 101 sentímetra lax í net sem hann hafði lagt, til að ná í klakfisk fyrir fiskræktarverkefni sem hann er að vinna að þar eystra. Jóhannes birti frásögn af þessum merkilega feng á Facebook-síðu Laxfiska, sem er rannsóknarfyrirtækið sem hann stýrir. 

Hann segir að líklegast sé þessi lax sá stærsti sem veiðst hefur hérlendis úr fiskræktarsleppingu. Jóhannes hefur heldur betur komið við sögu þessa hundraðkalls. Hann veiddi foreldra hans á sínum tíma og kom að því er hrogn voru frjóvguð frá þeim fiskum. Hann sá svo síðar um að örmerkja þau seiði sem komust á legg. Hann kom svo að sleppingu þeirra seiða í hliðará Lagarfljóts. Það má því segja að þessi hundraðkall hafi hitt skapara sinn á dögunum þegar Jóhannes fangaði hann. Að hans sögn nýtur stórlaxinn nú ævikvölds í seiðaeldisstöðinni að Laxamýri í Aðaldal. Þar hefur hængurinn nú tekið nokkrum breytingum eins og gerist með þá þegar líður að hrygningu og síðasta mæling mældi hann 102 sentímetra. Síðar verður frekari upplýsingar að fá um laxinn stóra, þegar hreistursýni og örmerki hafa verið tekin til athugunar. Hér að neðan má finna frásögn Jóhannesar af þessu öllu saman og er það merkileg og áhugaverð lesning.

„Lagarfljótsormurinn lenti í neti hjá mér um daginn. Ég var við klakveiðar í Lagarfljóti í byrjun októbermánaðar þegar ofurskepna gekk í eitt netið sem ég var að vakta. Netin lagði ég til að afla lifandi laxa í því skyni að ala undan þeim seiði vegna fiskræktarrannsóknar sem ég er að vinna að í hliðarám Lagarfljóts fyrir hönd Veiðifélags Lagarfljóts. Ofurskepnan gekk í netið með þeim látum að margir metrar af blýþungu netinu tókust ítrekað á loft. Þegar nær dró sá ég að ofurskepnan reyndist vera leginn lax í yfirstærð; lax sem er líklega stærsti lax sem veiðst hefur hérlendis úr fiskræktarsleppingu. Laxinn er runninn frá seiðasleppingum fiskræktarrannsóknar í hliðarár Lagarfljóts sem ég er að vinna að fyrir Veiðifélag Lagarfljóts, en Landsvirkjun er fjárhagslegur bakhjarl verkefnisins. Laxatröllið er hundraðkall þ.e.a.s. einn þeirra fáu laxa sem ná því að vera 100 cm langur eða lengri. Við mælingu á bökkum Lagarfljóts var hængurinn sléttur 101 cm að lengd, en frá þeim tíma hefur sú ummyndun hauss laxins eða öllu heldur skoltanna og tilheyrandi króks sem fylgir hrygningartímanum, leitt til þess að hann mælist nú 102 cm langur. Ekki þarf að fjölyrða um það að laxinn góði er yfir 20 pund að þyngd en hversu mikið þyngri hann er liggur enn ekki fyrir vegna þess að vog var ekki við hendina í klakveiðinni. Sama dag og ég veiddi laxatröllið þá keyrði ég hann með viðhöfn í tanki á þriðja hundrað kílómetra í seiðaeldisstöðina að Laxamýri í Aðaldal þar sem svil hans eru þegar farin að frjóvga hrogn hrygna úr Lagarfljóti. Til stendur af minni hálfu að heimsækja þennan merkislax að Laxamýri innan tíðar og við þá endurfundi verður þyngd hans mæld.

Hér er svo önnur mynd af þeim Jóhannesi og hundraðkallinum. …
Hér er svo önnur mynd af þeim Jóhannesi og hundraðkallinum. Hér sést staðsetningin betur. Í baksýn eru Lagarfossflúðirnar. Ljósmynd/Laxfiskar
Saga þessa Lagarfljótströlls er þó ekki öll sögð. Saga sem er á fleiri en eina vegu einstök. Í því sambandi má nefna að ég hafði ítrekuð persónuleg kynni af laxinum góða á mismunandi lífsstigum hans – reyndar kynntist ég einnig „foreldrum“ hans, því ég veiddi laxana í klak sem Lagarfljótströllið er undan og flutti þá frá Lagarfljóti að Laxamýri. Strax í bernsku Lagarfljótströlla kynntist ég honum, því ríflega einu og hálfu ári eftir að ég flutti „foreldra“ hans að Laxamýri, kom ég ásamt Dalrúnu dóttur minni og sérlegum aðstoðarmanni að Laxamýri að nýju, en nú til þess að örmerkja seiðin undan löxunum. Að aflokinni merkingu seiðanna var farið í að flytja seiðin austur á Hérað þar sem heimamenn tóku á móti okkur til að vinna með mér að sleppingum seiðanna í hliðarár Lagarfljóts. Eitt þeirra þúsunda laxaseiða sem þaðan gekk í sjó, góðvinur vor Lagarfljótströlli, óx öðrum seiðum meira í sjó og skilaði sér íturvaxinn heim í Lagarfljót. Þar tryggðu fyrrnefndar netaveiðar mínar ánægjulega endurfundi okkar. Meðfylgjandi mynd af mér og Lagarfljótströlla var tekin við það tækifæri á bökkum Lagarfljóts.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Lagarfljót Jóhannes Sturlaugsson 2. október 2.10.
100 cm Stóra - Laxá Vigfús Björnsson 30. september 30.9.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.

Skoða meira