Héldu til Alaska í leit að þeim stærsta

Mette Pedersen með 25 punda kónglax. Hennar stærsti til þessa. …
Mette Pedersen með 25 punda kónglax. Hennar stærsti til þessa. Kónglaxinn getur orðið meira en hundrað pund. Þetta er stærsti laxfiskurinn og mjög eftirsóttur af stangveiðimönnum. Ljósmynd/Steinþór Jónsson

Veiðihjónin Steinþór Jónsson og Mette Pedersen héldu á vit ævintýranna í óbyggðum Alaska síðasta sumar. Markmiðið var að veiða hinn eftirsótta King Salmon, eða kónglax. Í för með þeim voru Halldór Gunnarsson og Björn Heimir Moritz Viðarsson.

Síðasti spölur á löngu ferðalagi var floginn með sex manna sjóflugvél sem lenti með hópinn á ánni Alagnak og heimili hópsins voru veiðibúðir Anglers alibi. Þau Steinþór og Mette voru raunar alls ekki að fara út í óvissuna því þau Steinþór hafi veitt þessar slóðir sumarið 2019. Mette var hins vegar að fara í fyrsta skipti en kafveiddi karlana þegar upp var staðið.

Fimm tegundir laxa ganga í ána og það á misjöfnum tíma sumars. Fyrstur mætir kónglaxinn og er hann jafnframt stærstur. Þessi tegund er afar eftirsótt af stangveiðimönnum enda sá stærsti af tegundunum fimm sem oft flokkast sem Kyrrahafslax. Þannig mældist stærsti kónglax sem vitað er um, veiddur á stöng, 97 pund. Sá mikli fiskur veiddist í Kenai ánni í Alaska árið 1985. Annars er algeng stærð á bilinu tíu til fjörutíu pund. Þó að 97 pundarinn frá 1985 sé stærsti fiskur veiddur á stöng þá hafa þeir veiðst allt upp í 126 pund.

Steinþór með vígalegan kónglax sem hann fékk í Alagnak ánni …
Steinþór með vígalegan kónglax sem hann fékk í Alagnak ánni í Alaska í sumar. Þetta er Kyrrahafslax og sterkir og kröftugir. Ljósmynd/Mette Pedersen

Göngur kónglaxins hefjast í maí og standa fram í ágúst. Júní er hins vegar sá tími þegar göngurnar ná hámarki.

Íslenski hópurinn flaug út þann 10 júlí og kom heim aftur tveimur vikum síðar. Veiðin sjálf hófst þann 13. og stóð til 20. júlí. Hópurinn tók sér nokkra daga frí í Seattle og Anchorage á ferðlaginu.

Þegar Steinþór er spurður hvernig þetta ferðalag hafi komið til svarar hann að það sé í raun tvíþætt. „Við urðum nokkrir fimmtugir fyrir nokkrum árum og langaði til að gera eitthvað sérstakt og öðruvísi. Við lögðum þá land undir fót og fórum til Mexíkó og veiddum þar bæði á djúpslóð og einnig á grunnsævi,“ upplýsir hann. Hópurinn var þar að veiða alls konar framandi fiska.

Hin ástæðan sem Steinþór tilgreinir er einfaldlega verðlagið á veiði hér heima. „Við erum svolítið farin að hugsa út fyrir Ísland. Það er orðið svo dýrt að veiða heima. Það er klárlega ein ástæðan. Þetta er ódýrara en á Íslandi. Síðasta sumar þá borguðum við 5.800 dollara sem var þá um 750 þúsund. Það er allt inni í þeirri upphæð. Það er veiðin, gisting og fullt fæði, leiðsögumaður sem tveir veiðimenn deila með sér og flugið síðasta legginn með sjóflugvélinni. Svo eru drykkir inni í þessu, gos, bjór og léttvín.“

Birna með hún. Eins og Steinþór segir þá er öruggast …
Birna með hún. Eins og Steinþór segir þá er öruggast að koma sér í burtu. Bjarndýrin hafa engan áhuga á veiðimönnum en birna með hún getur verið árásargjörn. Ljósmynd/Steinþór Jónsson

Dagurinn var sem sagt að leggja sig á 125 þúsund krónur. Þá er veiðimaður ekki að deila stöng. Algengt verð á fæði í veiðihúsum á Íslandi er 35 þúsund krónur og deili veiðimenn með sér leiðsögumanni þá er það að lágmarki fjörutíu þúsund krónur á dag á hvorn þeirra. Bara sá kostnaður er þá kominn í 75 þúsund krónur. Eftir stendur þá veiðileyfið sem mætti kosta fimmtíu þúsund krónur dagurinn svo að verðið sé á pari. Líklegra er að dagurinn væri í kringum 150 þúsund krónur hér heima á þokkalegum tíma. 250 þúsund á góðum tíma og jafnvel 350 þúsund á besta tíma í „stærstu“ ánum.

Þegar lent er í búðunum byrja veiðimenn á að koma sér fyrir í tjöldum sem gist er í. Tjöldin eru fínasta gisting, segir Steinþór. Harðir gaflar og með hitablásurum inni, vilji menn fíra aðeins upp. Svo er farið í að setja saman og mest er veitt þarna á tvíhendur. Misjafnt er hvort menn koma með sinn búnað eða fá lánað á staðnum, en það er inni í verðinu. Allar flugur sem þarf eru líka innifaldar þannig að allir sitja við sama borð þegar komið er á staðinn.

Búðirnar eru hannaðar fyrir tólf veiðimenn og eru alltaf tveir saman á bát með leiðsögumanni. Ýmist er veitt úr bátnum eða frá landi, eftir aðstæðum á hverjum veiðistað. „Það er ræs klukkan sex og morgunmatur klukkutíma síðar. Við vorum að fara út um hálf átta og þá er veitt allan daginn og við vorum að koma aftur í búðirnar milli fjögur og fimm síðdegis. Leiðsögumaðurinn er með nesti fyrir veiðimennina sem útbúið er af kokkinum í búðunum og svo er þriggja rétta flott máltíð á hverju kvöldi.“

Tveir veiðimenn kasta fyrir stóra torfu af Chum en þeir …
Tveir veiðimenn kasta fyrir stóra torfu af Chum en þeir liggja gjarnan á sandbotni. Kónglaxinn aftur á móti leitar meira í dýpri ála. Ljósmynd/Steinþór Jónsson

Hópurinn var fyrst og fremst að eltast við kónglaxinn, þessa allra stærstu. „Í þessari viku sem við vorum þá veiddi Skoti tvo þá stærstu. Hann landaði einum fjörutíu punda og öðrum sem var 35 pund. Mette, konan mín var með þann stærsta í okkar hóp. Hann var 25 pund. Svo vorum við nokkra ágæta. Hún fékk annan sem var um tuttugu pund. Ég sjálfur landaði nítján og sextán punda,“sagði Steinþór.

En hvernig var þetta. Er þetta mokveiði eða er verið að leita mikið?

„Þetta er svolítil leit til að hitta á þá. Þeir ganga mjög hratt þegar þeir eru á ferðinni. Þegar við vorum þarna þá voru þrjár af fimm tegundum að ganga. Það var náttúrulega kóngurinn og svo var það hundlaxinn eða Chum eins og þeir kalla hann. Það var ekki mikið af honum þegar við vorum en hann var bara rétt að byrja að ganga. Svo var það rauðlaxinn eða Sockeye Salmon og það var mjög mikið af honum.“

Hundlaxinn er næst stærstur af Kyrrahafslöxunum en hann gengur að jafnaði síðastur í ferskvatn. Þeir verða nokkuð stórir og er algeng stærð sex til þrettán pund. Hundlaxinn hefur verið að dreifa sér til nýrra svæða og þá helst í átt að heimskautinu.

Hér sjást aðstæður prýðilega. Alagnak áin er ein af þeim …
Hér sjást aðstæður prýðilega. Alagnak áin er ein af þeim bestu til að eltast við kónglax. Hér eru báðir veiðimenn komnir úr bátnum og vaða og veiða. Ljósmynd/Steinþór Jónsson

Göngur rauðlaxins geta verið fyrna stórar og segir Steinþór að leiðsögumenn á svæðinu hafi áætlað að um fjórar milljónir einstaklinga, bara af þeirri tegund hafi gengið upp ána. „Ég hef lent í því að mæta rauðlaxatorfu í göngu og það er bara ekki hægt að lýsa þeirri sjón. Það er alveg magnað. Maður verður eiginlega að sjá þetta til að skilja.“

Þessu til viðbótar koma göngur af silfur laxi og svo hnúðlaxi sem við Íslendingar þekkjum af eigin raun og hefur numið hér land.

Rauðlaxinn sem var í miklu magni eins og sést á einnig meðfylgjandi mynd verður sex til tíu pund að stærð. „Það er besti matfiskurinn af þeim. Við tókum töluvert af slíkum flökum heim til Íslands. Leiðsögumennirnir flaka fyrir okkur og ganga vel frá þessu og frysta. Við förum svo með þetta í kælitösku.“

Mette þreytir vænan hundlax, eða Chum. Þeir geta orðið allt …
Mette þreytir vænan hundlax, eða Chum. Þeir geta orðið allt að þrettán pund, Þá var mikið af rauðlaxi að ganga á þeim tíma sem þau hjónin veiddu. Ljósmynd/Steinþór Jónsson

Og hvernig smakkast?

„Hann er töluvert þurrari en laxinn okkar. en mjög góður. Hann er nær stórri bleikju eða urriða í áferð. Maður þarf að nota töluvert af olíum eða smjöri þegar maður eldar hann til að þetta verði virkilega djúsí. Þetta er mjög góður matfiskur.“

Voru þið í svipaðri og veiði þegar þið fóruð í fyrsta skipti?

„Nei. Þegar við vorum 2019 þá var lítið um kónglax og við sáum ekki þessa stóru en veiddum mikið af Chum en svo var lítið af þeim núna. En það eru stórir fiskar, tíu til fimmtán pund. Þetta snerist eiginlega alveg við núna og það var fínt. Allir eru að eltast við þessa stóru,“ brosir Steinþór.

Á þessum slóðum er mikið um bjarndýr og voru þau í sömu erindagjörðum og Íslendingarnir. Að veiða. „Þau eru þarna víða. Maður sér yfirleitt eitt til tvö dýr á hverjum degi. Við höfðum í sjálfu sér ekki miklar áhyggjur af þeim. Birnirnir hafa forgang. Ef þeir ætla að fara að veiða á veiðistað þar sem þú ert þá bara færir þú þig. Maður reynir ekki að rífast við þá. Fyrst þegar við vorum að sjá þá var þetta aðeins til að valda óöryggi og sérstakt að sjá þá. En leiðsögumennirnir eru mjög reyndir  og þekkja vel hegðun þeirra. Þeir hafa í raun engan áhuga á okkur. Eru bara þarna til að éta. Það eina sem maður þarf að hafa auga með, er ef maður mætir birnu með húna. Þá er best að drífa sig í burtu. Þær geta verið hættulegar við þær aðstæður og passa ungviðið vel.“

Séð yfir búðir veiðimanna við Alagnak ána. Þessar eru reknar …
Séð yfir búðir veiðimanna við Alagnak ána. Þessar eru reknar af Anglers Alibi. Aðstaðan mjög góð að öllu leiti segir Steinþór. Ljósmynd/Steinþór Jónsson

Steinþór segir að þetta hafi verið miklar ævintýraferðir og ekki síst er það náttúran sem heillar. Birnir á bakkanum, ameríski þjóðarfuglinn, skallaörninn svífur yfir og fleiri framandi dýr. „Þetta er svo allt öðruvísi og það er svo stór hluti af upplifuninni.“ 

Aftur berst talið að verðinu samanborið við verðlagningu á Íslandi. Steinþór segist hafa veitt töluvert mikið með útlendingum og hann heyrir á þeim að þeir setja orðið spurningamerki við íslenska verðlagið. „Þeir geta farið í jafn flotta veiði og jafnvel betri en fyrir þau verð sem þeir eru farnir að borga heima. Menn nefnda þá gjarnan þessa veiði og sjóbirting í Argentínu og fleiri staði sem bjóða flotta veiði en á lægra verði.“

Að sjá skallaörninn eða ameríska þjóðarfuglinn í návígi er upplifun. …
Að sjá skallaörninn eða ameríska þjóðarfuglinn í návígi er upplifun. Náttúran er mögnuð á þessum slóðum og ólík því sem Íslendingurinn á að venjast. Ljósmynd/Steinþór Jónsson

Einhver áform um frekari ævintýri?

„Það getur vel verið að við förum aftur til Alaska svo blundar líka í okkur að fara í eitthvað nýtt. Giant Trevally er á listanum og fleiri sjávarfiskar. Ég væri líka til í að fara aftur til Mexíkó. Það var alveg mögnuð upplifun. Við veiddum þar sverðfiska og fengum þrjá í túrnum og sá stærsti var fjögur hundruð pund. Svo fórum við í grunnsjávarveiði á austurströndinni. Þar vorum við að veiða bonefish og permit. Við vorum líka hrifnir af því að veiða barracuda, en leiðsögumennirnir voru ekki hrifnir af þeim. Þetta er skemmtilegasti fiskurinn að eiga við. Algerlega trítil óður. En er hins vegar stórhættulegur þegar verið er að losa úr honum þar sem hann er með svo svakalegar tennur. Þeir vildu helst ekki að við værum að kasta á þá.“ Hér glottir Steinþór.

Við höfum fjallað nokkuð um veiðiferðir Íslendinga út fyrir eyjuna okkar og munum gera það áfram. Sífellt fleiri hugsa á svipaðri línu og Steinþór og félagar. Um leið og menn draga saman veiðina hér er fínt að leita á vit ævintýra og prófa eitthvað nýtt og spennandi sem fer í reynslubankann.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Lagarfljót Jóhannes Sturlaugsson 2. október 2.10.
100 cm Stóra - Laxá Vigfús Björnsson 30. september 30.9.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.

Skoða meira