„Ísland að verða bara fyrir þá ofurríku“

Tarquin Millington-Drake framkvæmdastjóri Frontiers í Bretlandi veiðir mikið á Íslandi …
Tarquin Millington-Drake framkvæmdastjóri Frontiers í Bretlandi veiðir mikið á Íslandi og kemur hingað með viðskiptavini á hverju ári. Hér sleppir hann laxi í Selá í fyrra. Hann leggur mikla áherslu á að lyfta laxinum eins lítið úr vatninu og kostur er. Ljósmynd/Frontiers

„Stóra vandamálið er að nánast alls staðar í heiminum er laxveiðin að minnka. Þar sem enn er fiskur hækka menn verðin vegna eftirspurnar, og nú stefnir í að laxinn sé bara fyrir þá ofurríku,“ sagði Tarquin Millington–Drake framkvæmdastjóri Frontiers ferðaskrifstofunnar í Bretlandi þegar Sporðaköst leituðu til hans vegna stöðunnar á íslenska laxveiðimarkaðnum séð með augum útlendinga. Tarquin er reynslubolti á þessu sviði. Hann hefur veitt á Íslandi í rúma þrjá áratugi og jafn lengi selt vel stæðum veiðimönnum veiðileyfi á besta tíma hér á landi í fjölmargar ár. Raunar er hans fyrirtæki að selja veiðiferðir um allan heim. Laxveiði til Íslands, Noregs, Rússlands og Skotlands. En á sama tíma býður Frontiers upp á veiðiferðir um allan heim til ólíkra áfangastaða og í sjávarveiði jafnt sem veiði í frumskógum Suður – Ameríku. Hann gjörþekkir því alþjóðlega markaðinn sem snýr að veiðimönnum.

Þegar kemur að endurnýjun í röðum laxveiðimanna er Tarquin ekki bjartsýnn. „Yngri kynslóðir horfa á okkur eyða óteljandi pundum í að kaupa veiðileyfi og svo var vatnsleysi eða það rigndi of mikið. Við segjum, „Jæja við gerðum okkar besta. Þetta verður betra næsta ár." Yngra fólkið sem horfir upp á þetta heldur að við séum hreinlega eitthvað skrítin. Þau geta farið í tveggja vikna veiði á suðlægar slóðir og veitt fullt af fiski fyrir sömu upphæð og við eyðum í nokkra daga til að veiða nánast ekki neitt.“

Tarquin segir að viðskiptamannahópur Frontiers sem vildi veiða í Rússlandi sé ekki tilbúinn til að fara til Skotlands og eyða þar þrjú til fjögur þúsund pundum í afar dræmri veiði. Miðað við gengi krónunnar er það nærri fimm til sjö hundruð þúsund krónum. Rússland er nú lokað og verður líkast til næstu árin. „Margir úr þessum hópi munu neyðast til að hætta að eltast við laxinn. Ísland er uppbókað og því miður verður að segjast að Ísland er bara alls ekki eins og það var. Gæðin í veiðinni hafa rýrnað mikið og Ísland kemst vart í hálfkviksti það sem var, eins leiðinlegt og það nú er. Ég hef verið í þessum bransa í þrjátíu ár og ef urriðinn í Þingvallavatni er undanskilinn þá man ég ekki eftir neinu veiðisvæði á Íslandi sem hefur batnað á þeim tíma. Á sama tíma hefur verðið hækkað og Ísland stefnir í að verða bara fyrir þá ofurríku. Vandamálið við þetta er að þá eru færri og færri sem hafa efni á að kaupa veiðileyfi. Um leið vandast málið fyrir hagsmunasamtök eins og IWF sem einbeitir sér að því að vernda íslensku laxastofnana. Þegar sífellt færri hafa efni á að kaupa veiðileyfi á Íslandi þá fækkar um leið þeim sem hafa hagsmuni af því að stuðla að verndun laxins.“

Yngri veiðimenn hafa augun opin fyrir öðrum möguleikum en laxi og geta fyrir mun lægri upphæð farið á frábæra veiðistaði í Suður – Ameríku eða í sjávarveiði og lent í hörku veiði og notið frábærar upplifunar. „Þegar við förum með veiðimenn í viku veiði inn í frumskóginn í Brasilíu eða Kólumbíu, sem eru miklar ævintýraferðir, fá þeir alls konar upplifun og sjá stórkostlega hluti. Slík ferð kostar minna en þriggja daga veiði á besta tíma í íslenskri laxveiðiá,“ segir Tarquin og ítrekar að hann dýrki Ísland og allt sem viðkemur veiðinni þar. „Það er samt þannig að þeir dagar eru liðnir þegar þú komst til Íslands á besta tíma og gast verið viss um að veiða fimmtán til tuttugu og fimm laxa á þremur dögum í bestu ánum.“

Nú er orðið erfiðara að selja Ísland til erlendra veiðimanna. …
Nú er orðið erfiðara að selja Ísland til erlendra veiðimanna. Minni veiði og hærra verð eru helstu ástæðurnar. Það stefnir í að besti tíminn í laxveiðinni á Íslandi verði bara fyrir þá ofurríku. mbl.is/Einar Falur

Breyttar aðstæður vegna hlýnunar spila líka stórt hlutverk. Breytt veðurfar á norðurslóðum, hvort sem er í Rússlandi, Noregi eða á Íslandi veldur vandræðum. Þurrkar og vatnsskortur eins og varð á Íslandi sumarið 2019. Eitt árið voraði svo seint í Rússlandi að árnar voru frosnar langt fram á veiðitímabil. Norskar ár hafa þurft að loka vegna vatnsskorts. Samfara þessu er minnkandi laxastofnar og hækkandi verð á veiðileyfum.

Við upplýsum Tarquin um könnun sem Sporðaköst gerðu meðal íslenskra veiðimanna sem veiða ástríðunnar vegna og flokkast í millistétt. Frétt um að þeir ætli margir að draga saman seglin vegna verðhækkana kemur honum ekki á óvart. „Margir þeirra ætla sér án efa að fara meira í silung eða kanna hvað hægt er að veiða við ströndina. Þetta verður eins konar vítahringur. Þegar til þeirra er leitað um að stuðla að verndun laxins munu fleiri einfaldlega segja nei. Þeir gætu spurt á móti; Af hverju ættum við að gera það? Við erum ekki lengur að veiða lax. Þeir sem eru að veiða lax ættu að styrkja það málefni, ekki við sem erum hættir að veiða lax. Þetta er stóra vandamálið og alls ekki eingöngu bundið við Ísland.“

Sem dæmi um hversu mjög hefur dregið úr laxveiðinni í Skotlandi segir Tarquin að með því að deila fjölda stangardaga í veidda laxa sé niðurstaðan að þú þurfir að veiða í 28 daga frá morgni til kvölds til að fá örugglega einn lax. Þetta er tölfræðin en segir þó sitt. Og hann heldur áfram. „Hversu margir krakkar munu heillast af þessu?“ Hann býr til ímyndað samtal þar sem fullorðinn breskur veiðimaður ræðir við ungan son sinn. „Jæja Fred. Nú ætlum við að fara í skemmtilegt sumarleyfi. Þú ætlar að koma með mér til Skotlands og þú ætlar að veiða lax. Það mun reyndar taka þig 28 daga að ná honum en þetta verður skemmtilegt. Fred svarar. Pabbi má ég ekki bara vera heima í iPadnum?“ Við hlæjum báðir en auðvitað er þetta staða sem heillar fáa af yngri kynslóðinni í dag.

Tarquin ítrekar að þetta sé ekki bara staðan á Íslandi heldur eigi þetta við í öllum löndum þar sem laxveiði er í boði. En hann viðurkennir að það sé orðið erfiðara að selja Ísland. „Ég get ekki lengur sagt. Já ég veit að þetta er dýrt. En þú ert að fara í frábæra veiði. Þeir dagar eru liðnir, allavega í bili.“

Ef horft er til þess hvað íslenskir veiðimenn sögðu í síðustu viku um að margir ætli að draga saman seglin vegna verðhækkana á laxveiðileyfum og svo bætist við að erfiðara er orðið að selja Ísland til erlendra veiðimanna spyrja margir sig, hvernig horfir þetta til framtíðar? Síðustu laxveiðiár á Íslandi hafa verið slök þegar kemur að veiðitölum. Verðhækkanir hafa verið miklar og ekki er útlit fyrir annað en að þær muni halda áfram. Veiðileyfasalar segja að á meðan að leyfin seljast sé verðið rétt. En vissulega eru blikur á lofti á þessum markaði.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Lagarfljót Jóhannes Sturlaugsson 2. október 2.10.
100 cm Stóra - Laxá Vigfús Björnsson 30. september 30.9.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.

Skoða meira