Nýgift en muna ekki eftir bónorðinu

Hjónabandið innsiglað með kossi. Valdimar Örn og Sigríður Vala gengu …
Hjónabandið innsiglað með kossi. Valdimar Örn og Sigríður Vala gengu í það heilaga síðastliðinn fimmtudag. Ljósmynd/VÖF

Nýir staðarhaldarar munu taka við keflinu í Langá í sumar. Þetta eru hin nýgiftu hjón Valdimar Örn Flygenring og Sigríður Vala Þórarinsdóttir. Það eru fimm dagar síðan að þau gengu í hjónaband. Raunar eftir átján ára samband.

Sporðaköst náðu tali af brúðgumanum, staðarhaldaranum, leikaranum og leiðsögumanninum Valdimar Erni og óskuðu honum og þeim hjónum til hamingju með þetta allt. „Já. Takk kærlega fyrir það.“

Hvort ykkar bar upp bónorðið?

Valdimar hlær. „Ég er bara ekki viss og minnist þess ekki að hafa beðið hennar og hún man heldur ekki eftir bónorði. Þetta leiddi bara hvað af öðru eins og gerist þegar allt leikur í lyndi. Þetta var bara flæði eins og áin og hún líður að ósi." Þau giftu sig hjá sýslumanni í Kópavogi og það var Sólrún Sverrisdóttir sem gaf þau saman á fallegri stund. „Hún er ægilega flott í þessu hlutverki. Vá. Hún talaði svo fallega til okkar og var svo beinskeytt og einhvern veginn gerði þessa stund svo áhrifaríka.“

Valdimar segir að auðvitað verði haldin brúðkaupsveisla þegar vel stendur á og þar séu margar hugmyndir á lofti. En telur ekki rétt að ræða þær á þessari stundu.

Hvort er þetta draumur að rætast eða spennandi tækifæri að gerast staðarhaldari við Langá?

„Sigríður kona mín var þarna í fyrra megnið af sumrinu og sjálfur er ég búinn að vera í leiðsögn í einhver sautján átján ár frá því að ég fór út úr leikhúsinu. Þetta hafa verið jeppaferðir, snjósleðar og gönguferðir. Sigga Vala hefur verið gestgjafi á veitingahúsum og víða og er afskaplega yndisleg og góð í þessu hlutverki. Svo er hún svo vinnusöm.

Hún byrjaði í veiðihúsinu í Langá í fyrravor, eftir að þurfti að redda starfsfólki. Það lukkaðist svona líka vel og þeir kölluðu hana bjargvættinn og eitt leiddi af öðru og svo kom það upp að starf staðarhaldara losnaði og Stangó fannst tilvalið að bjóða mér það starf og við kæmum bara þarna saman. Mér fannst það rosalega skemmtileg þróun og ekki síst á því sem ég hef verið að gera. Yfir vetrartímann hef ég verið skíðagæd á Ítalíu og er alveg til í að breyta aðeins um. Eftir ákveðinn árafjölda þá fer nýjabrumið af þessum ferðalögum með jeppaköllum og fólki á hálendinu. Ég er alveg búinn að spá í hvort ég ætti að gerast landvörður af því að mér finnst það eitthvað svo göfugt starf að gæta sköpunarverksins,“ segir Valdimar glaður í bragði og það heyrist á honum að hann hlakkar til sumarsins í nýju hlutverki við Langá á Mýrum, sem Stangaveiðifélag Reykjavíkur er með á leigu. Hann sér fyrir sér að halda áfram skíðamennskunni á Ítalíu yfir vetrartimann og vinna svo við hina eftirlætisiðjuna á sumrin.

Valdimar Örn með lax sem hann landaði í Laxá í …
Valdimar Örn með lax sem hann landaði í Laxá í Kjós. Áin var vatnslítil en hann og Þorleifur Guðjohnsen náðu sitt hvorum laxinum. Báðir voru þeir í bandinu Hráefni á sínum tíma. Ljósmynd/VÖF

Valdimar er alinn upp í veiði strax á unga aldri og hefur viðhaldið þeim áhuga. Fyrst með foreldrum sínum og síðar sjálfur. Fluguveiði á hans hug og hjarta og hefur hann stundað þann veiðiskap í tæp fjörutíu ár. Hann hefur aðeins komið að veiðileiðsögn í gegnum árin en viðurkennir að hann þekkir Langá lítið. „Ég hlakka til að læra á hana og þarna eru margir og öflugir leiðsögumenn og góðir veiðimenn sem þekkja Langá eins og puttana á sér. Ég verð í góðum höndum hjá þeim.“

Ballið byrjar 20. júní og þá mæta þau hjónin á svæðið og ætla að hafa gaman í sumar. „Auðvitað snýst þetta um að hafa gaman í sumar og tryggja gestum Langár góða og skemmtilega upplifun.“

Það er nokkuð ljóst að Langá er í góðum höndum þeirra Valdimars og Siggu Völu og verður gaman að fylgjast með þeim í sumar. En ekki er hægt að skilja við stórleikarann Valdimar Örn Flygenring án þess að spyrja hvað hafi orðið af leikaranum?

„Það er flókið að útskýra það eftir 23 ár þar sem maður var vakinn of sofinn í þessu starfi. Kannski fjarlægðist ég leikhúsið eða leikhúsið fjarlægðist mig. Ég var búinn að eyða öllum stundum í þetta og hef alltaf þurft á áskorunum að halda í mínum lífi og hafa það á tilfinningunni að ég sé að þróast eða fara áfram. Mér fannst ég kominn á einhvern ákveðinn punkt þarna og hefði alveg getað verið áfram sem einhver mubla en ég var bara spenntur fyrir nýjum áskorunum og hef svo sannarlega fundið þær. Og svo blasir ein ný við.“

Bankar hann aldrei í öxlina á þér og spyr, hvað með mig?

„Jú. Blessaður vertu hann bankar alltaf af og til. Þetta er frábært starf en ákaflega krefjandi og maður gerir ekkert annað á meðan. Ég held að það besta sem ég geri í lífinu er að leika ég er einlægur þegar ég segi það en svo koma kannski tækifæri síðar og maður veit aldrei.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert