Margir veiðimenn hlupu 1. apríl

Ólafur Vigfússon með skráningarblaðið sem skotveiðimenn þurftu að skrá sig …
Ólafur Vigfússon með skráningarblaðið sem skotveiðimenn þurftu að skrá sig á, áður en haldið var til veiða. Þeir sem hlupu apríl fengu skotapakka í sárábætur og allir skyldu sáttir. Ljósmynd/Sporðaköst

Það var mikið að gera í versluninni Veiðihorninu í Síðumúla í gær, 1. apríl. Verslunin stóð fyrir tvíþættu aprílgabbi sem verður að segjast að lukkaðist býsna vel. Ástæðan fyrir tvíþættu gabbi var að sögn Ólafs Vigfússonar að ekki væri hægt að gera upp á milli skotveiði– og stangveiðimanna. 

Í samstarfi við Sporðaköst var birt frétt hér á mbl og í Morgunblaðinu þess efnis að vísindaveiðar yrðu leyfðar á rjúpu á Mosfellsheiði í gær. Var veiðimönnum gert að mæta í Veiðihornið og skrá sig þar áður en haldið var til veiða. Enginn veiðimaður mætti í búðina en margir hringdu og vildu upplýsingar og jafnvel báðu um að taka frá fyrir sig pláss. „Það hringdi einn úr Mosfellsbæ og vildi endilega að við tækjum frá fyrir sig og félaga sinn tvö leyfi. Hann sagði það svo mikið mál að fara að keyra í bæinn og aftur til baka. Vildi bara fara beint upp á heiði og láta svo vita. Eftir nokkurt spjall rann upp fyrir þessum ágæta veiðimanni að hvaða dagur var. Hlátrarsköllin í bílnum, frá öðrum fjölskyldumeðlimum voru innileg," sagði Ólafur Vigfússon glettinn. 

Hann tekur fram að allir hafi haft gaman af þessu og þeir sem hringdu fengu að gjöf skotapakka frá Bioammo og þurfa bara að nálgast þau í versluninni. „Það voru allir kátir að endingu og til að bæta mönnum upp hrekkinn fengu allir skotapakka. Þau munu vonandi koma sér vel á komandi rjúpnavertíð í haust.“

En þetta var ekki allt. Veiðihornið auglýsti sex byltingarkenndar nýjar veiðivörur. Rio Elite Heat Line, sem er flugulína með örfínum rafþræðir í kjarnanum sem hitnar og auðveldar mönnum lífið í vor– og haustveiði.

Simms G5 BackZip vöðlur. Með rennilás að aftan líka. Veiðifólk kannast án efa við að slíkur rennilás gæti komið að góðum notum.

Sage R8 TrippleHand. Þríhenda frá Sage.

Bluetooth málbönd og smáforrit frá Precision inc. Málband sem hægt er að tengja við smáforrit og leiðréttir sjálfkrafa mælingar á fiski og skráir jafnharðan lengd í gagnagrunn Hafrannsóknastofnunar.

Flugur með lyktarefni. Tælandi flugur enda framleiddar af Shadow flies fyrir Veiðihornið í Tælandi.

Smith SpaceX sem var kynnt sem merkasta nýjung í mörg ár í gleraugnalinsum og upplýst að væru úr smiðju Elon Musk.

Eins og fyrr segir voru þessar vörur kynntar með auglýsingum í gærmorgun og margir létu glepjast og mættu í verslunina og vildu skoða og prófa. Þessar vörur sem hér er lýst eru þó ekki til, allavega ekki enn sem komið er.

Viðskiptavinir sem hlupu 1. apríl og aðrir sem áttuðu sig á sprellinu voru allir sammála um að þessar vörur þyrftu að vera til. En það er önnur saga. Mjög margir voru spenntir fyrir því að skoða þríhenduna með útdraganlega skaftinu.

„Já. Þetta tókst bara vel til að það var virkilega gaman í búðinni í gær. Þegar upp var staðið höfðu allir gaman af þessu og eftir kaffi og kleinur voru allir sáttir og gátu hlegið að öllu saman,“ sagði Ólafur í samtali við Sporðaköst.

Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert