Mögnuð sería stórfiska hjá Hrafni

Einn af mörgum 90 plús fiskum sem Hrafn hefur landað …
Einn af mörgum 90 plús fiskum sem Hrafn hefur landað í vor og haust. Þessi tiltekni sjóbirtingur veiddist í Hlíðarvaði í Tungufljóti. Mældist 95 sentímetrar og ummálið var 59. Ljósmynd/HHH

Hrafn H. Hauksson er einn af þeim sem staðfest hefur að sjóbirtingsárnar í Vestur – Skaftafellssýslu eru allar að geyma sjóbirtinga í yfirstærð sem þekktist ekki fyrir nokkrum árum. Við höfum fjallað mikið um sjóbirtingsævintýrið á Suðurlandi upp á síðkastið. Raunar má ekki gera lítið úr öðrum svæðum, eins og Eyjafjarðaránni og Húseyjarkvísl en uppgangur sjóbirtingsins er hreinum ólíkindum víðast hvar á landinu. Ölfusá er gott dæmi um þetta en þar hefur sjóbirtingsgengd vaxið til mikilla muna á allra síðustu árum.

Virðast fara saman hagfelld skilyrði fyrir birtinginn og um leið hefur veiða og sleppa fyrirkomulagið haft einkar jákvæð áhrif.

Sporðaköst settu sig í samband við Hrafn en hann landaði nýlega afar þykkum og miklum sjóbirtingi úr Ytri – Rangá. En það er bara einn af mörgum í níutíu plús flokknum sem Hrafn hefur veitt í vor og síðastliðið haust.

Fiskurinn úr Ytri - Rangá. 94 sentímetrar á lengdina og …
Fiskurinn úr Ytri - Rangá. 94 sentímetrar á lengdina og 56 í ummál. Fiskur hátt í ellefu kíló. Hrafn kallaði þennan sjóbirting seiðaætu. Ljósmynd/HHH

94 sentímetrar úr Ytri - Rangá.

Síðasti stórfiskurinn sem Hrafn landaði var í Ytri – Rangá. Hann setti í hann á Fossbreiðu og mældist hann 94 sentímetrar og eins og myndin af honum ber með sér er hann virkilega vel haldinn og líkist frekar haustfiski en vorfiski. „Þetta er einhver mögnuð seiðæta,“ sagði Hrafn aðspurður um fiskinn. Hann tók Collie Dog áltúpu í yfirstærð og það á „mígandi strippi“ eins og hann orðaði það. Hann tekur fast á sínum fiskum en var engu að síður rúmar tuttugu mínútur með þennan mikla og þykka fisk. „Hann hefur verið tíu til ellefu kíló, miðað við lengd og ummál.“

Eldvatn í vor. 91 sentímetri úr Hundavaði. Fimm fiskar hafa …
Eldvatn í vor. 91 sentímetri úr Hundavaði. Fimm fiskar hafa veiðst þar í apríl sem ná 90 sentímetrum. Ljósmynd/HHH

91 sentímetra út Eldvatni.

Fyrr í mánuðinum var Hrafn við veiðar í Eldvatni og fékk þar sjóbirting sem mældist 91 sentímetri. Þann fisk veiddi hann í veiðistaðnum Hundavaði á Pheasant Tail púpu.

95 x 59 úr Tungufljóti

Í haust sem leið fékk Hrafn svakalegan nagla í Tungufljóti. Birtingur sem fékkst í Hlíðarvaði og mældist 95 sentímetrar á lengdina og 59 í ummál. „Það var allt önnur skepna en þessi sem ég fékk í Ytri. Tungufljótsfiskurinn var snar brjálaður á meðan að sá í Ytri – Rangá var meira bara svona þyngsli. Hrafn bætti svo einum 91 sentímetra við úr Tungufljótinu síðasta haust.

Annar haustfiskur úr Tungufljóti. Þessi fékkst í Búrhyl og mældist …
Annar haustfiskur úr Tungufljóti. Þessi fékkst í Búrhyl og mældist 91 sentímetri. Hrafn spyr, Af hverju að kaupa laxveiðileyfi fyrir 300 þúsund á dag þegar þetta er í boði? Ljósmynd/HHH

90 sentímetra úr Geirlandsá

Hrafn veiddi Geirlandsá fyrr í apríl og landaði þar 90 sentímetra hrygnu. Sú viðureign var stutt og snörp.

Þetta er hálf galin sería Hrafn?

„Það er alger óþarfi að kaupa sér laxveiðileyfi fyrir þrjú hundruð þúsund krónur á dag þegar hægt er að komast í svona fiska. Þetta er náttúrulega hálf súrrealísk staða. Ef við tökum Tungufljótið sem dæmi, þá komu 25 sjóbirtingar á land þar síðustu þrjár vikur veiðitímans í haust sem voru yfir 90 sentímetrar. Ef við segjum að 90 sentímetra sjóbirtingur sé af sama kaliberi og hundrað sentímetra lax þá hefðu þurft að veiðast þrír hundraðkallar á dag í Laxá í Aðaldal sem er nú helsta stórlaxaáin okkar, til að jafna stórfiska veiðina í Tungufljóti í haust,“ upplýsir Hrafn.

Hann segir þessa miklu stórfiska veiði nánast vera spillandi. Hann nefnir sem dæmi að félagi hans hafi komið að honum í Eldvatninu nú vor þar sem Hrafn var að spila fisk. „Er þessi stór?“ spurði félaginn. „Nei. Þetta er smælki,“ svaraði Hrafn. Þessir fiskur mældist svo 73 sentímetrar sem er mjög flottur sjóbirtingur.

Hrafn og félagar hafa verið iðnir við kolann í púpunum í sjóbirtingnum en Hrafn hefur þurft að leggja þeim í bili. Hann er með tennisolnboga á hægri hendi og notast því þessa dagana meira við tvíhendu þar sem þá er álagið meira á vinstri höndina og þá eru það straumflugur.

Hreint út sagt mögnuð veiði?

„Já. Ég hef verið heppinn, að vera á réttum stað á réttum tíma.“

Einmitt.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert