Fullt af fiski á silungasvæði Vatnsdalsár

Síðasta kastið gaf stærsta fiskinn. Eðvarð Atli Birgisson landaði þessum …
Síðasta kastið gaf stærsta fiskinn. Eðvarð Atli Birgisson landaði þessum áttatíu sentímetra birtingi í Akurhorni. Hann tók í síðasta kasti hjá honum í túrnum. Ljósmynd/PÁÓ

Fyrstu dagarnir á silungasvæði Vatnsdalsár hafa gefið góða veiði. Fyrsta hollið sem veiddi þar bókaði 75 fiska. Það segir þó ekki alla söguna því smærri staðbundnir urriðar voru ekki bókaðir og sennilega missti hollið annað eins af fiski og það landaði.

„Þetta voru mest vænir sjóbirtingar, alveg upp í áttatíu sentímetra. Töluvert var einnig af staðbundnum urriða í aflanum og við fengum eina bleikju en líklega var hún staðbundin. Þetta er full snemmt fyrir þá sjógengnu,“ sagði Páll Ágúst Ólafsson í samtali við Sporðaköst. Páll var einmitt einn þeirra sem opnaði silungasvæðið.

Við Steinnes. Veðrið lék á köflum við þá félaga. Þessi …
Við Steinnes. Veðrið lék á köflum við þá félaga. Þessi mynd geymir svo sannarlega vorstemmingu. Ljósmynd/PÁÓ

Veðrið lék við hópinn og þeir voru ekki í neinni kraftveiði þó svo að tölurnar gefi annað til kynna. Menn leyfðu morgninum að mæta með sínar dýrmætu gráður og voru yfirleitt að byrja um tíu leitið á fyrri vaktinni. Tóku gott hlé og voru hættir um átta á kvöldin.

Fiskurinn var mjög dreifður og þeir félagar voru duglegir að leita. Stoppuðu stutt á hverjum stað og eins og Páll orðaði það, þeir þurftu svolítið að hafa fyrir hverjum fiski.

Jóhann Fannar Ólafsson með flottan birting. Flestir fiskarnir tóku straumflugur …
Jóhann Fannar Ólafsson með flottan birting. Flestir fiskarnir tóku straumflugur sem Reiða öndin hnýtti fyrir hópinn. Ljósmynd/PÁÓ

„Meirihluti aflans var sjóbirtingur en við fengum líka mikið af staðbundnum urriða. Helmingur hópsins var að stíga sín fyrstu skref með flugu og fengu allir sinn fyrsta fisk á flugu. Stærstu fiskarnir komu undir lok ferðarinnar og sá stærsti sem mældist áttatíu sentímetrar kom í síðasta kastinu hjá Eðvarði Atla Birgissyni og hann fékk hann í Akurhorni.“

Í gegnum árin hefur orðið mikil breyting á samsetningu á fiski á silungasvæðinu í Vatnsdalsá eins og reyndar í mörgum öðrum ám. Bleikja er búin að vera á undanhaldi í nokkuð langan tíma en á móti kemur mikil aukning á sjóbirtingi og er silungasvæðið í Vatnsdal gott dæmi um þessa breytingu.

Hann er á. Það er mikið af fiski á svæðinu …
Hann er á. Það er mikið af fiski á svæðinu en það þurfti að leita. Hér er einn fundinn. Ljósmynd/PÁÓ

Þessi breyting á íbúasamsetningu á veiðisvæðinu hefur leitt til þess að opnunartími var færður fram til mánaðamóta, en áður fyrr hófst veiði á silungasvæðinu 15. maí eða um það leiti sem von var orðið á sjóbleikjunni. Birtingurinn er hins vegar á niðurleið og er því veiðanlegur strax í byrjun mánaðarins.

Þeir félagar fóru víða um svæðið og dreifðu sér vel til að leita. Þeir reyndu líka efri hluta svæðisins. „Megnið af veiðinni kom frá Akurhorni og upp fyrir Flóð. Það var líka það svæði sem við lögðum mesta áherslu á. Við vorum að fá mest af þessu á straumflugur. Rektor,BlackGhost og fleiri. Um leið og fyrsti fiskurinn kom og það var á Rektorinn þá fóru allir að nota hann og það virkaði vel. Annars vorum við með gott úrval frá Helga sem hnýtir flugur undir merkjum Reiðu andarinnar. Hann útbjó box fyrir alla. Það eru fáir sem þekkja þetta jafn vel og hann og það skilaði sér.“

Pétur Sigurðsson með einn af mörgum sem hann landaði í …
Pétur Sigurðsson með einn af mörgum sem hann landaði í opnun. Ljósmynd/PÁÓ

Mest af fiskinum var neðarlega í Flóðinu og þar gerði hópurinn bestu veiðina.

Páll er svo sem enginn nýgræðingur þegar kemur að Vatnsdalsá. Hann hefur verið þar í leiðsögn um árabil og nutu félagar hans góðs af því. Páll afrekaði það á sínum tíma að landa 107 sentímetra laxi í þeim mikla stórfiskastað Hnausastreng.

Hollið sem tók við af opnunarhollinu hefur verið í hörkuveiði, eins og þeir orðuðu það, þannig að silungasvæðið fer vel af stað í Vatnsdal í ár.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert