„Fyrir mig er þetta mikill skellur“

Flugur hnýttar á ferðalaginu. Þetta var tólf flugna ferð hjá …
Flugur hnýttar á ferðalaginu. Þetta var tólf flugna ferð hjá Hilmari á leið í Suðursveit. Hann er svekktur yfir lokun Varmár og segir það mikinn skell. Ljósmynd/Hilmar Sigurjónsson

Það er orðið deginum ljósara að Varmá í Hveragerði verður ekki veidd í ár og jafnvel ekki næstu árin. Þetta kemur til af mengun sem berst frá hreinsistöð fyrir skólp fyrir Hveragerðisbæ. Sú stöð er einfaldlega orðin allt of lítil. Fyrir ofan stöðina er Varmá í góðu lagi.

Einn þeirra sem stunda Varmá af miklum krafti er ungi og áhugasami Hilmar Sigurjónsson sem býr í Hveragerði. „Fyrir mig er þetta mikill skellur. Ég ætlaði sjálfur að veiða þarna marga daga í sumar og var búinn að lofa mér í leiðsögn fyrir þó nokkra veiðimenn,“ sagði Hilmar í samtali við Sporðaköst. Það er mikill kostur þegar veiðimenn hafa ekki náð bílprófsaldri, að geta hjólað í veiðina, en það er einmitt það sem Hilmar hefur gert á efri hlutanum í Varmá.

Þessi forláta hnýtingataska hentar vel í verkefnið. Hilmar er með …
Þessi forláta hnýtingataska hentar vel í verkefnið. Hilmar er með mikinn áhuga á veiði og er orðinn liðtækur hnýtari. Ljósmynd/Hilmar Sigurjónsson

Hann er þó ekki búinn að gefast upp og hefur sent fjölmarga tölvupósta á Hveragerðisbæ og er að biðja um svör hvenær eitthvað muni gerast í málinu. „Ég veit að þeir vilja opna efri hlutann og stefna að því í ágúst. En ég veit ekki hvort það mun gerast,“ upplýsti Hilmar.

Hann er með mikinn áhuga á fluguveiði og er orðinn mjög góður hnýtari. Hann notar líka allan tíma sem hann mögulega getur til að hnýta. Hann er nú kominn með sérstaka tösku sem er hönnuð til að vera líka hnýtingaborð. Þegar Hilmar fer í lengri bílferðir þá tekur hann töskuna góðu með og hnýtir flugur. Nýlega fór hann til að aðstoða við sauðburð í Suðursveit og þá var taskan með í för.

„Já. Ég hnýtti tólf flugur á leiðinni. Það var Moppan og útgáfa af rubber legs og fleiri. Ég hefði hnýtt fleiri en var bara búinn með krókana.“

Loftfimleikar í Varmá við Hveragerði. 66 sentímetra sjóbirtingur í loftköstum. …
Loftfimleikar í Varmá við Hveragerði. 66 sentímetra sjóbirtingur í loftköstum. Nú er Varmá lokuð og algerlega óljóst hvenær hún opnar á nýjan leik fyrir veiðimenn. Ljósmynd/KMB

Hilmar segir það eina sem trufli hnýtingar í bílferðum vera hristingurinn. Hann segist venjast því og það trufli ekki svo mikið.

En verður þú ekki bílveikur að vera að hnýta í bílnum?

„Nei. Ekkert svoleiðis. Ég finn ekki fyrir því.“

Sauðburðurinn gekk vel á Hestgerði í Suðursveit, þar sem Hilmar var að aðstoða um helgina. Af rúmlega tvö hundruð kindum áttu bara ríflega tuttugu eftir að bera.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert