Laxinn er mættur í Kjósina

Jóhann Freyr leiðsögumaður rýnir í vatnsmikla Laxá í Kjós. Hann …
Jóhann Freyr leiðsögumaður rýnir í vatnsmikla Laxá í Kjós. Hann náði ljósmynd sem staðfestir að laxinn er kominn. Allt í allt sáu þeir þrjár laxa neðan við Kvíslafoss. Ljósmynd/Haraldur Eiríksson

„Já. Það er alltaf jafn notalegt að sjá fyrstu laxana. Ég var að horfa á tvo fallega stórlaxa í harðalandi neðan við Kvíslafoss,“ upplýsti Haraldur Eiríksson, leigutaki að Kjósinni í samtali við Sporðaköst fyrr í dag. Jóhann Freyr Guðmundsson, leiðsögumaður í Kjósinni var á bakkanum með Halla og staðfesti hann einnig að um lax væri að ræða.

Mikið hefur birst af fréttum síðustu daga að laxinn ætti að vera kominn og að líkast til væri hann mættur. En nú er það staðfest. Hann er kominn.

Hefðbundna dagsetningin síðari ár hefur verið að sjá fyrstu laxana í kringum 23. maí í Kjósinni. Nú hefur hins vegar háttað þannig til að úrkoma og rok hafa gert skyggni í ánni mjög erfitt. Vatn í Kjósinni hefur verið litað og því erfitt að staðfesta að sá silfraði sé mættur. „Þegar sólin mætti þá sá ég þá greinilega,“ sagði Haraldur.

Mynd tekin í gegnum polaroid gleraugu. Laxinn er neðan við …
Mynd tekin í gegnum polaroid gleraugu. Laxinn er neðan við klöpp, nokkurn veginn fyrir miðri mynd. Ljósmynd/Jóhann Freyr Guðmundsson

Nokkuð er í að Laxá í Kjós opni en það er notalegt fyrir alla að vita að hann er kominn. 

Fyrsta laxveiðiáin til að opna er hins vegar Þjórsá og þar munu margir einblína á Urriðafoss. 1. júní, eða á fimmtudagsmorgun hefst veiðin þar. Hefð er fyrir því hin síðari ár að opnunin hefur verið góð. Fyrstu laxarnir eru að koma á land snemma morguns og ef að líkum lætur verður það sama uppi á teningnum núna. Stefán Sigurðsson, leigutaki segist ekki hafa miklar áhyggjur af því að laxinn sé ekki mættur. „Þetta hefur verið nokkuð stöðugt og öruggt síðan að við byrjuðum þarna. Auðvitað er mann farið að klæja í lófana að byrja og vonandi verður þetta bara góð opnun,“ sagði Stebbi í samtali við Sporðaköst.

Hann tekur undir með þeim veiðimönnum sem hafa lýst væntingum um góðra snemmsumars veiði. „Við sáum það í Ytri – Rangá í fyrra að það var ágætt ár í smálaxinum og því erum við að vonast eftir að tveggja ára fiskurinn skili sér að sama skapi vel. En auðvitað verður það bara að koma í ljós.“

Þau hjónin Harpa og Stefán annast sölu á veiðileyfum í Ytri og eru með Urriðafoss á leigu. Þau ætla sjálf að opna og með í för verður Matthías sonur þeirra en þau hafa síðustu ár opnað svæðið.

Mývatnsveit á mánudag

Fleiri spennandi dagsetningar eru framundan og fyrstu veiðimenn vitja urriðans í Mývatnssveit á mánudag. Veiðihúsið Hof hefur fengið yfirhalningu og þar hafa staðið yfir framkvæmdir í vor við að koma upp langþráðri vöðlugeymslu og ditta að og endurnýja fjölmarga hluti. Hólmfríður verður á sínum stað og mun hugsa um mannskapinn í af sinni alkunnu snilld.

Laxárdalurinn, sem tekur við af Mývatnssveitinni á leið Laxár til sjávar opnar svo á þriðjudag.

Laxveiðiárnar opna svo hver á fætur annarri þegar líður fram í júní. Norðurá opnar 4. júní, Blanda þann 5. Þverá 8. og Kjarrá þann 9. Miðfjarðará 15. og Víðidalsá 18. Langá þann 19. og svo koll af kolli. Allar verða laxveiðiárnar komnar í gang í byrjun júlí.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jorgensen 17. september 17.9.

Skoða meira