Öllum stórlaxi sleppt við Iðu í sumar

Trausti Arngrímsson með 104 sentímetra hæng sem hann veiddi í …
Trausti Arngrímsson með 104 sentímetra hæng sem hann veiddi í Hvítá við Iðu í ágúst í fyrra. Þessum fiski var sleppt. Nú hafa veiðireglur verið endurskoðaðar við Iðu. Ljósmynd/MV

Veiðireglur í Hvítá við Iðu, í Árnessýslu taka miklum breytingum í sumar. Öllum laxi, sjötíu sentímetrar og yfir skal sleppa og maðkveiði verður að mestu bönnuð ásamt því að öllum laxi verður sleppt fram til 1. júlí.

Veiðisvæðið í Hvítá við Iðu í Árnessýslu hefur verið hjúpað ákveðnum huliðshjúp. Svæðið er í einkaeigu og hefur verið alla tíð. Svæðið er þekkt fyrir stórlaxa í gegnum tíðina og gengur þar í gegn allur lax í Stóru – Laxá og nú síðari ár, Tungufljót. Veiðisvæðinu er skipt milli tveggja landeigenda sem heita einfaldlega Iða I og Iða II.

Nokkur styr hefur ríkt hin síðari ár milli leigutaka í Stóru – Laxá og Iðu þar sem hinir fyrrnefndu hafa talið þá síðarnefndu drepa mikið af fiski en ekki sleppa stórlaxinum eins og tilmæli eru um frá Veiðifélagi Árnesinga. Nú hefur félagsskapurinn um Iðu I tekið þá ákvörðun að taka upp ákveðnar veiðireglur fyrir þá veiðimenn sem stunda svæðið og Iða II mun taka upp sambærilegar reglur.

Hart hefur verið tekist á í kringum þetta mál og oftar en einu sinni var kölluð til lögregla vegna deilna í fyrrasumar. Ekki er útséð með hvort eitthvað af þeim málum leiði til dómsmála en kærur voru settar fram á hendur fulltrúa leigutaka Stóru – Laxár. Það voru veiðimenn sem kærðu en ekki veiðifélögin Iða I og II. Líklegt er að öldur lægi vegna þeirra breytinga sem taka munu gildi á Iðu í sumar.

Við Iðu í Hvítá. Svæðið hefur verið í einkaeigu alla …
Við Iðu í Hvítá. Svæðið hefur verið í einkaeigu alla tíð. krafla.is

Fram til þessa hefur mátt veiða á allt hefðbundið agn á Iðu en nú verður breyting þar á. Iða I mun í sumar banna maðkveiði og skylt verður að sleppa öllum laxi 70 sentímetrar og stærri. Að sama skapi er skylda að sleppa öllum laxi sem veiðist fram til 1. júlí. Helgi S. Haraldsson er einn úr hópi Iðu I og staðfesti hann í samtali við Sporðaköst að þessar reglur verði teknar upp hjá þeim. Iða II tekur upp sömu reglur, að sögn Helga en þó munu þeir leyfa maðkveiði einhvern hluta veiðitímans. „Það má segja að þetta sé enn eitt skrefið sem við höfum verið að fara í þessa átt. Við höfum síðustu ár beint þeim tilmælum til veiðimanna að sleppa öllum stórlaxi. Þær sleppingar hafa aukist til muna og við erum svo sem að upplifa sömu kynslóðaskipti og hugarfarsbreytingu hjá veiðimönnum eins og önnur ársvæði,“ sagði Helgi. Kvóti verður settur á í sumar og mega menn taka tvo smálaxa á stöng á vakt.

Einn af þeim sem fagnar þessum breytingum er fulltrúi leigutaka Stóru – Laxár. Þar er í forsvari Finnur B. Harðarson sem jafnframt er einn af landeigendum við Stóru. „Þetta þýðir vonandi að við fáum fleiri laxa upp í Stóru – Laxá. Tölur hafa verið á reyki um heildarveiðina á Iðu en það er ljóst að það voru nokkur hundruð laxar sem veiddust þar árlega. Við tókum þá ákvörðun í Stóru – Laxá að sleppa öllum laxi, til að byggja hana upp. Þannig að við fögnum þessari breytingu.“

Finnur segir að miðað við þær upplýsingar sem hann hefur fengið frá fiskifræðingum þá gengur laxinn sem er á leið upp í Stóru þeim megin sem veiðin er mest stunduð á Iðu. „Þetta ætti að þýða að við fáum einhver hundruð fleiri laxa upp eftir til okkar. Þetta verður allavega spennandi sumar og áhugavert að sjá hverju þetta breytir. Auðvitað er þetta líka jákvætt skref fyrir Iðuna og væntanlega mun þetta styrkja þann stofn og þar með nýtast ársvæðinu í heild sinni,” bætti Finnur við. 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jorgensen 17. september 17.9.
100 cm Stóra - Laxá Jóhann Gunnar Jóhannsson 13. september 13.9.
100 cm Miðfjarðará Daði Þorsteinsson 12. september 12.9.
102 cm Stóra - Laxá Reto Suremann 10. september 10.9.
103 cm Stóra - Laxá Magnús Stephensen 10. september 10.9.

Skoða meira