Fyrsti veiðidagur í Norðurá gefur góð fyrirheit. Auðvitað er of snemmt að segja meira en það. Hins vegar blasa nokkrar áhugaverðar staðreyndir við. Fjórtán laxar veiddust á fyrsta degi. Samtals gaf opnunarhollið í fyrra tíu laxa. Fyrsti smálaxinn veiddist í kvöld og er það snemmt og þykir vita á gott. Fiskur var á öllum svæðum og greinilegt að stór straumur var að skila fiski. Mikið af þessum fiski var lúsugur. Níu laxar komu á land á seinni vaktinni.
Alvöru nagli veiddist á Hornbreiðu og mældist hann 94 sentímetrar. Stórlax tapaðist langt fyrir neðan Hræsvelg eftir þriggja kortéra viðureign.
Veiðimenn fóru ekki á alla staði og var það einfaldlega vegna þess að menn höfðu í nógu að snúast á þessum hefðbundnu stöðum.
Þetta er betri opnunardagur en hefur verið síðastliðin fjögur ár. Það er þó engin trygging fyrir góðu veiðisumri en menn skyldu ekki hika við að gæla í bjartsýnina innra með sér.
„Það er eitthvað að gerast og það voru allir í fiski og þá sérstaklega seinni vaktina. Við höfðum á tilfinningu að það væri fiskur á ferðinni og menn voru að sjá þá og setja í þá og reisa og missa. Þetta er allavega góður dagur og ánægjulegt að sjá að menn eru að verða varir við fisk á öllum svæðum. Þetta gefur góð fyrirheit en ekkert meira en það. Við höfum þó ekki séð þetta í nokkur ár,“ sagði Rafn Valur Alfreðsson rekstraraðili Norðurár.
Hann þurfti alveg að halda í sér til að vera ekki of jákvæður. Menn eru nokkuð barðir eftir fjögur frekar dræm og niður í léleg ár. Það er hins vegar alveg ljóst að menn eru að vakna snemma á morgun og fara út verulega spenntir.
Fiskurinn sem Jóhann Jónsson hampar á myndinni hér að ofan mældist 85 sentímetrar og var grálúsugur. Jóhann og Tryggvi Ársælsson veiddu Stokkhylsbrotið eftir hádegi og fengu tvo þar. 85 og 75 sentímetra. Fiskurinn hans Jóhanns er nánast fullkominn vorfiskur. Spegilbjartur og þykkur. Þetta er það sem Bretinn kallar „Silver bullet.“
Þessir fjórttán laxar sem komu á land í dag í Norðurá eru fleiri en áin Dee í Skotlandi gaf síðustu vikuna í maí á 150 stangir.
En svo allir fyrirvarar séu settir. Þetta er byrjun veiðitímans og dagurinn frábær. Menn þurfa allavega ekki að standa í að upphugsa afsaknir af hverju opnunin væri svo léleg. Nú verður spennandi að sjá framhaldið í Norðurá og ekki síður hvernig Blanda opnar á morgun en þar veiddist ekki fiskur fyrstu dagana í fyrra. Í framhaldinu opna svo fleiri ár í Borgarfirði.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
107 cm | Grímsá | Jón Jónsson | 22. september 22.9. |
101 cm | Víðidalsá | Jón Eðvald Halldórsson | 22. september 22.9. |
101 cm | Víðidalsá | Nils Folmer Jorgensen | 17. september 17.9. |
100 cm | Stóra - Laxá | Jóhann Gunnar Jóhannsson | 13. september 13.9. |
100 cm | Miðfjarðará | Daði Þorsteinsson | 12. september 12.9. |
102 cm | Stóra - Laxá | Reto Suremann | 10. september 10.9. |
103 cm | Stóra - Laxá | Magnús Stephensen | 10. september 10.9. |