Skýrsla Hafrannsóknastofnunar um erfðablöndun villta íslenska laxins og norskra eldislaxa í sjókvíum við landið, hefur loksins litið dagsins ljós. Skýrslan staðfestir það sem margir óttuðust að erfðablöndun hefur átt sér stað í fjölmörgum laxveiðiám.
Niðurstöðurnar eru hrollvekjandi fyrir margra hluta sakir. Erfðablöndu getur breytt miklu þegar villtir stofnar eiga í hlut og jafnvel valdið hnignun þeirra, segir meðal annars í skýrslunni.
Frá því að sýnataka fór fram og þar til niðurstöðurnar eru nú kynntar í skýrsluformi hefur orðið mikil breyting. Sjókvíaeldi hefur margfaldast og mun meira magn af laxi hefur sloppið úr kvíum eftir að sýnatöku lauk. Sambærileg rannsókn sem væri gerð núna myndi án efa sýna enn svartari mynd.
Fjölmargar ár eru nefndar til sögunnar þar sem staðfestir eru blendingar í formi seiða. Að sama skapi greinir skýrslan frá því að fundist hafi eldis seiði í íslenskum ám.
Sama hvernig á málið er litið er um að ræða kolsvarta skýrslu sem boðar miklar náttúruvá fyrir villta íslenska laxinn. Ísland er að verða eitt helsta og síðasta vígi þessa merka fisks en nú er staðfest að það vígi er að hruni komið.
Í frétt á vef Hafrannsóknarstofnunar um skýrsluna segir. „Rannsóknin greindi sýni sem rekja má til hrygningar á árunum 2014 til 2019. Á þeim árum var framleiðslumagn í laxeldi í sjókvíum að meðaltali 6900 tonn.“ Þessi orð sýna að skýrslan er ekki bara byggð á gömlum gögnum heldur hafa aðstæður við Íslandsstrendur gjörbreyst frá þeim tíma. Sjókvíaeldi hefur margfaldast.
Um niðurstöðurnar segir í sömu frétt. „Alls greindust 133 fyrstu kynslóðar blendingar (afkvæmi eldislaxa og villtra laxa) í 17 ám (2,1% sýna, innan 18% áa). Eldri blöndun (önnur kynslóð eða eldri) greindist í 141 seiðum í 26 ám (2,2% sýna, innan 29% áa).
Svo segir: „Fyrstu kynslóðar blendingar voru algengari á Vestfjörðum en Austfjörðum sem er í samræmi við að eldið á Austfjörðum hófst síðar og hefur verið umfangsminna.
Eldri erfðablöndun var tíðari á Austfjörðum en Vestfjörðum og tengist líklegast eldinu sem þar var starfrækt í byrjun þessarar aldar. Eldri erfðablöndun var mest áberandi í Breiðdalsá og greindist í 32% (72 af 228) seiðanna.
Erfðablöndun greindist yfirleitt í minna en 50 km fjarlægð frá eldissvæðum en nokkrir blendingar fundust í allt að 250 km fjarlægð.“
Þessar niðurstöður þarf ekki að túlka. Tugir áa fóstra nú erfðablandaða laxa samkvæmt því stöðumati sem Hafró tók fyrir bráðum fjórum árum. Eldinu hefur svo sannarlega vaxið fiskur um hrygg og það er nokkuð ljóst að með miklu umfangsmeira sjókvíaeldi hefur sleppilöxum fjölgað.
„Þörf er á frekari rannsóknum á kynslóðaskiptingu blendinga, umfangi og orsökum dreifingar eldri blöndunar. Niðurstöðurnar sýna að erfðablöndun hefur orðið við hlutfallslega lítið eldismagn,“segir ennfremur.
Íslenski laxinn býr miðað við þessa nýju/gömlu skýrslu við stórkostlegar hættur. Þrátt fyrir þetta er útlit fyrir enn frekari uppbyggingu á sjókvíaeldi á næstu árum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |