Góður gangur í Veiðivötnum í sumar

Einstaklega fallegt eintak af Veiðivatnaurriða sem Örn Hjálmarsson veiddi í …
Einstaklega fallegt eintak af Veiðivatnaurriða sem Örn Hjálmarsson veiddi í vikunni. Hann segir stöðuna góða þar efra. Ljósmynd/Örn Hjálmarsson

Það sem af er sumri hefur veiðin í Veiðivötnum á Landmannaafrétti verið mjög góð. Fyrsta vikan byrjaði einstaklega vel og skilaði mun meiri veiði en undanfarin ár. Mjög vel er haldið utan um allar skráningar á fiski á svæðinu og því auðvelt að sjá stöðuna á veidivotn.is sem er heimasíða svæðisins.

Yfir fimm þúsund silungar veiddust í Veiðivötnum fyrstu dagana. Til samanburðar gaf fyrsta vikan í fyrra ríflega þrjú þúsund fiska. 

Mikið hefur veiðst af stórum fiski í sumar og mældist stærsti urriðinn til þessa 16,4 pund. Hann veiddist í Skálavatni og veiðimaður að nafni Jafet fékk hann.

Eins og staðan er núna stefnir í eitt besta sumar í langan tíma í Veiðivötnunum.

Einn af þeim sem er duglegur að sækja heim svæðið er Örn Hjálmarsson sem oft hefur verið Sporðaköstum innan handar við fréttir af silungsveiði. „Ég er búinn að fara þrisvar upp eftir og veiða vel í öll skiptin. Litlisjór hefur gefið mér best, en Grænavatn er að kikka inn. Sérstaklega fyrir beitukónga. Ónýtavatn hefur verið frábært og þá sérstaklega fyrri hluta sumars. Heilt yfir er mjög fallegur fiskur að veiðast í vötnunum þetta sumar og er allt upp á við,“ sagði Örn í samtali við Sporðaköst.

Flestar vikur það sem af er sumri hefur veiðin í Veiðivötnum verið betri í sumar en mörg undanfarin ár, ef undanskilin er þriðja vikan. Stefnir jafnvel í met sumar ef horft er á fjölda fiska.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Loka