Veiðitúrinn hápunktur brúðkaupsferðar

Brúðhjónin frá Hawai áttu frábæran dag við Villingavatn, þar sem …
Brúðhjónin frá Hawai áttu frábæran dag við Villingavatn, þar sem rómantík í bland við hörku veiði bjó til frábæran hápunkt í brúðkaupsferðinni. Ljósmynd/Unnur Guðný

Nýgift hjón, Þau Jeremy og Amelia Inman frá Havaí, völdu Ísland sem áfangastað fyrir brúðkaupsferð sína. Í þeirri ferð átti veiði alltaf að vera hápunkturinn. Unnur Guðný María Gunnarsdóttir sem er leiðsögumaður hjá Fish Partner fékk það ánægjulega og um leið vandasama verk að vera leiðsögumaður brúðhjónanna. „Já. Það var alveg pressa á gædinum. Upplifunin þarf að vera góð frá a til ö. Þau áttu dag í Villingavatni og það getur alveg verið snúið. En þau voru svo yndisleg og þekkja veiði svo vel. Brúðguminn, Jeremy, er til dæmis alvanur leiðsögumaður í Alaska og búinn að vinna við það í mörg ár. Brúðurin Amelia er líka mjög öflugur veiðimaður og þau kynntust einmitt í Alaska þegar hún rak veiðihús þar sem hann var í leiðsögn með veiðimenn,“ upplýsti Unnur í samtali við Sporðaköst. Hún sagðist enn vera í adrenalíngleðivímu eftir þennan magnaða veiðidag og þetta flotta og hamingjusama veiðifólk.

Unnur Guðný og Amelia með einn af mörgum glæsilegum urriðum …
Unnur Guðný og Amelia með einn af mörgum glæsilegum urriðum úr Villingavatni í gær. Ljósmynd/Unnur Guðný

Þegar þau komu að Villingavatninu í gærmorgun var það eins og spegill og urriðinn var að rísa letilega í flugur í yfirborðinu. „Þetta voru frábærar þurrfluguaðstæður og maður fær þær nú ekki oft í Villingavatni."

Ekki vildi hann þurrfluguna þannig að Unnur lagði til léttar straumflugur og fljótlega tók mjög stór urriði hjá þeim. Sá sleit sig lausan en hafði gefið tóninn. „Þau voru svo jákvæð og sögðu að ef þau sæju fiska þá yrðu þau alsæl og skildu vel að það væri ekki sjálfgefið að koma svona einn dag og ætla að ná í fisk. Það var svo jákvæð orka í kringum þau og ég var strax viss um að þetta yrði góður dagur.“

Jeremy Inman var heldur betur sáttur. Væntingar voru hóflegar en …
Jeremy Inman var heldur betur sáttur. Væntingar voru hóflegar en niðurstaðan frábær. Ljósmynd/Unnur Guðný

Unnur breytti enn um aðferð. Að þessu sinni fóru þau í púpur og tökuvara. Það var sem við manninn mælt að fyrsti urriðinn kom á land. Jeremy landaði honum og fljótlega á eftir náði hún Amelia líka fallegum fiski. Þarna var þetta nú bara eiginlega fullkomnað,“ brosir Unnur.

Veitingarnar voru í takti við tilefnið. Hjónabandssæla, jarðaber og kampavín.
Veitingarnar voru í takti við tilefnið. Hjónabandssæla, jarðaber og kampavín. Ljósmynd/Unnur Guðný

Í dagsferðum með Fish Partner er boðið upp á hádegismat og að þessu sinni var lagt meira í hlutina enda tilefnið ærið. Þau fengu meðal annars hjónabandssælu og kampavín og jarðarber. Það var skálað og hlegið og kossar ekki sparaðir.

„Eftir hádegismatinn héldum við áfram að veiða og þau enduðu með átta ísaldarurriða á bilinu 65 til 70 sentímetrar. Þetta var allt fiskur í mjög góðum holdum. Það er ekkert gefið í þessum baráttum við svo stóra fiska í Villingavatni. Þeir taka miklar rokur og eiga það til að vefja línuna um sef og þá getur farið illa.“

Amelia með enn einn stórurriða á þessum draumadegi.
Amelia með enn einn stórurriða á þessum draumadegi. Ljósmynd/Unnur Guðný

Ef þetta er forsmekkurinn að hjónabandi þeirra Jeremys og Ameliu þá eru fram undan góðir tímar hjá þessum nýgiftu veiðimönnum. Sporðaköst senda hamingjuóskir á hjónin og hrós á Unni. Magnaður dagur.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira