Tók þann stærsta á agnhaldslausa flugu

Báðir búnir á því. Dagur Árni tók þessa mynd sjálfur. …
Báðir búnir á því. Dagur Árni tók þessa mynd sjálfur. Að beiðni Sporðakasta sendi hann mynd sem staðfestir mælinguna. Ljósmynd/Dagur Árni

Stærsti lax sem veiðst hefur í Ytri–Rangá í sumar veiddist á ómerktum veiðistað í gær. Þetta var tröllslegur hængur en stór hrygna veiddist á sama stað nokkrum klukkutímum áður. Dagur Árni Guðmundsson, sem starfað hefur við leiðsögn í Ytri í sumar var sjálfur að veiða og hans markmið var að leita uppi nokkra af stóru urriðunum sem halda til í Ytri.

„Djöfull er ég þreyttur og lífið geggjað.“
„Djöfull er ég þreyttur og lífið geggjað.“ Ljósmynd/Dagur Árni

Dagur Árni var enda græjaður í urriða. Hann var með glertrefjastöng fyrir línu sex og kastaði átta tommu straumflugu sem ber það magnaða nafn Drunk and disorderly. Höfundur hennar er Tommy Lynch og gengur flugan einnig undir nafninu D&D. Straumfluga þessi er afskaplega lifandi í vatninu og sveiflast líka til hliðar þegar hún er dregin hratt.

Dagur Árni var með agnhaldslausan öngul á þessari útgáfu af D&D. „Ég tók mjög fast á þessum fiski enda vissi ég að það var eina leiðin ef ég ætlaði að ná honum. Viðureignin stóð ekki nema í fimmtán til tuttugu mínútur,“ upplýsti hann í samtali við Sporðaköst í gærkvöldi.

Með átta tommu langa straumflugu í kjaftinum. Krókurinn var agnhaldslaus. …
Með átta tommu langa straumflugu í kjaftinum. Krókurinn var agnhaldslaus. Það eykur ekki líkurnar á að halda honum. Ljósmynd/Dagur Árni

„Ég er eiginlega enn í sjokki,“ bætti hann við. Þetta er hans fyrsti hundraðkall. Hann komst mjög nálægt því í fyrrasumar þegar hann landaði 99,4 sentímetra laxi úr Sandá í Þjórsárdal. Sá fiskur var mældur þrjátíu sinnum og náði ekki hundrað sentímetrum. Það gerði aftur á móti þessi hængur úr Ytri í gær. Nákvæm mæling upp á 102 sentímetra og er hann stærsti laxinn úr Ytri það sem af er sumri. Hann var einn að veiða en sendi Sporðaköstum mynd sem sannar lengdina á fiskinum. Hann fer því inn á Hundraðkallalistann.

Kveðjustund. 102 sentímetra hængurinn fær frelsi á ný eftir snarpa …
Kveðjustund. 102 sentímetra hængurinn fær frelsi á ný eftir snarpa viðureign. Ljósmynd/Dagur Árni

Í lok júlí veiddist 101 sentímetra fiskur í Kerinu í Ytri–Rangá og var Dagur Árni þá í leiðsögn með veiðimanninn sem landaði þeim fiski. Nú var hann sjálfur að veiða og landaði þessum líka magnaða hæng.

„Djöfull er ég þreyttur og lífið geggjað,“ var hugsunin sem kom upp í huga Dags þegar viðureigninni var lokið og stórlaxinn hélt á ný á vit kerlu sinnar í þögninni í dýpinu.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jorgensen 17. september 17.9.
100 cm Stóra - Laxá Jóhann Gunnar Jóhannsson 13. september 13.9.
100 cm Miðfjarðará Daði Þorsteinsson 12. september 12.9.
102 cm Stóra - Laxá Reto Suremann 10. september 10.9.
103 cm Stóra - Laxá Magnús Stephensen 10. september 10.9.

Skoða meira