Einn af glæstari sonum Laxár í Aðaldal

Þeir eru svo fallegir hausthængarnir. Þessi er eins glæsilegur og …
Þeir eru svo fallegir hausthængarnir. Þessi er eins glæsilegur og þeir verða. Sindri Rósenkranz er þarna með stærsta lax sem hann hefur veitt til þessa. Ljósmynd/Arnar Rósenkranz

September er krókódílatími í laxveiðinni. Stóru hængarnir eru farnir að verja svæðið sitt og taka þá gjarnan frekar flugur veiðimanna. Einn af glæstari sonum Laxár í Aðaldal fékk mælingu nú seinni partinn. Hann tók flottúpuna Valbein hjá Sindra Rósenkranz í Brúarhyl.

„Við vorum bara að byrja fjórir félagar og drógum svæði tvö. Við ákváðum að geyma Mjósundið og fórum aðeins á flakk og köstuðum á Þokuflúð og vorum svo tvístígandi hvort við ættum að kasta á Brúarhylinn áður en við færum í Mjósundið. Það varð úr að ég fór með léttan Valbein og ætli það hafi ekki verið í sjötta kasti eða þar um bil að þá tekur hann fluguna bara þegar línan var að rétta úr sér,“ sagði Sindri í samtali við Sporðaköst.

Laxá í Aðaldal hefur gefið fjóra svona fiska í sumar. …
Laxá í Aðaldal hefur gefið fjóra svona fiska í sumar. Nú er tíminn þar sem þeir taka og þeim getur fjölgað næstu daga. Ljósmynd/Arnar Rósenkranz

Hann náði að halda fiskinum í drjúga stund í sjálfum Brúarhylnum en svo kom að því að þessum höfðingja leiddist þófið og sneri og þá sáu Sindri og veiðifélagi hans Arnar Rósenkranz hversu stór fiskurinn var. Þeir horfðu á hann skrönglast niður flúðirnar fyrir neðan Brúarhyl og niður Hólmakvíslina.

„Þá fengum við aftur hjartaáfall,“ hlær Sindri. Hann kallar til félaga síns. „Já. Nákvæmlega þarna.“ Arnar er að kasta á Brúarhylinn þegar samtalið á sér stað. „Hann ætlar að ná í hrygnuna,“ útskýrir Sindri og upplýsir að félagi hans er að kasta Black Ghost á hrygnuna en sú straumfluga hefur gefið þá nokkra stóra í sumar.

„Ætli þetta hafi ekki tekið allt í allt um hálftíma. Við náðum að háfa hann í hylnum fyrir neðan og þetta er svakalegur fiskur.“

Veiðiugginn á þessum stærstu löxum er mjög stórvaxinn. Hér sést …
Veiðiugginn á þessum stærstu löxum er mjög stórvaxinn. Hér sést líka vel þykktin á styrtlunni. Ljósmynd/Sindri Rósenkranz

Það er hægt að taka undir það með Sindra. Því það eru til hundraðkallar og svo eru svona höfðingjar. Laxá er fræg fyrir þá og þessi fiskur er samkvæmt kvörðum sem þeir heimamenn styðjast við 25 lbs eða um 22 pund. 101 sentímetri á lengdina og 57 sentímetrar í ummál.

Þetta er stærsti fiskur sem Sindri hefur landað. Hann viðurkennir að hann er búinn að bíða eftir þessum túr í allt sumar. „Já maður telur alveg niður. Ég er sjálfur í leiðsögn í Laxá í Leirársveit og við sjáum ekki marga svona þar. Leiðsögumaðurinn okkar er Guðmundur Helgi Bjarnason og hann staðfesti mælinguna."

Þetta er fjórði hundraðkallinn í Laxá í sumar en hún hefur oft gefið þá fleiri í þessum stærðarflokki á sumri. Nú eru þeir hins vegar vaknaðir og þá gerast ævintýrin.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jorgensen 17. september 17.9.
100 cm Stóra - Laxá Jóhann Gunnar Jóhannsson 13. september 13.9.
100 cm Miðfjarðará Daði Þorsteinsson 12. september 12.9.
102 cm Stóra - Laxá Reto Suremann 10. september 10.9.
103 cm Stóra - Laxá Magnús Stephensen 10. september 10.9.

Skoða meira