Lokahollið í Norðurá átti hreint út sagt frábæra daga. Hollið landaði 58 löxum og er þar með besta holl sumarsins í ánni. Stærsti laxinn sem veiddist í Norðurá í sumar mældist 98 sentímetrar og kom einmitt í umræddu lokaholli.
Róbert Reynisson, einn af árnefndarmönnum Norðurár sagði mikið líf hafa verið í ánni. Gott vatn og laxinn vel dreifður. Lokahollið var skipað árnefndarfólki og þegar þau luku störfum lokaði Norðurá eftir sveiflukennt en heilt yfir frekar dapurt sumar veiðilega. Veiðin byrjaði ágætlega í vor eins og flestum ám en þornaði upp í orðsins fyllstu merkingu þegar leið á sumar. Miklir og langvarandi þurrkar tóku fyrir alla töku í laxi þar eins og svo víða.
Lokatalan í Norðurá sumarið 2023 er 1.087 laxar. Þetta er fimmta lélegasta árið í Norðurá á þessari öld. Aðeins árir 2012, 2014, 2019 og 2020 hafa gefið minni veiði. Besta árið á þessari öld var 2013 þegar 3.351 lax veiddist í Norðurá.
Stærsti lax sumarsins veiddist næst síðasta daginn og var það 98 sentímetra hængur sem Dagur Fannar Ólafsson fékk ámicro kón númer sextán í Kálfhylsbroti. En fleiri fallegir fiskar veiddust í lokahollinu og tók Bergþóra Sigurðardóttir hnausþykka og fallega hrygnu í Beinhóli áSunray.
Norðurá er ein af fyrstu laxveiðiánum til að loka enda ein af þeim allra fyrstu til að opna. Veiðitíma lýkur í flestum á næstu dögum og um næstu mánaðamót er veiði víðast lokið. Þó getur sú breyting orðið á í einhverjum ám að veitt verði lengur enda hefur Fiskistofa gefið út tilmæli til veiðifélaga að framlengja veiðitíma til 15. nóvember til að ná sem flestum eldisfiskum úr ánum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
107 cm | Grímsá | Jón Jónsson | 22. september 22.9. |
101 cm | Víðidalsá | Nils Folmer Jorgensen | 17. september 17.9. |
100 cm | Stóra - Laxá | Jóhann Gunnar Jóhannsson | 13. september 13.9. |
100 cm | Miðfjarðará | Daði Þorsteinsson | 12. september 12.9. |
103 cm | Stóra - Laxá | Magnús Stephensen | 10. september 10.9. |
102 cm | Stóra - Laxá | Reto Suremann | 10. september 10.9. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Sindri Rósenkranz | 9. september 9.9. |