Laxveiðiárnar eru nu flestar að loka eða þegar búnar að loka. Fer það aðeins eftir landsvæðum en Borgarfjarðarárnar eru flestar búnar að birta lokatölu. Þverá/Kjarrá nálgast tölu síðasta árs með góðum lokaspretti. Hins vegar eru Norðurá verulega undir tölum síðasta árs en einna verst er útkoman í Langá. Hún stendur nú í 663 löxum en skilaði í fyrra 1.077. Síðustu dagarnir fara nú í hönd í Langá og vissulega getur hún híft þessa tölu upp en gapið er stórt.
Á jákvæðari nótum má sjá að Laxá í Aðaldal er að eiga betra sumar en síðustu ár. Nálgast hún sjö hundruð laxa og er það mikil bæting. Sorgleg staðreynd að menn fagni tæplega sjö hundruð löxum í þeirri mögnuðu á. Hins vegar kann þessi bæting að vita á gott.
Vopnafjörðurinn átti ágætt sumar þó svo að engin men væru slegin en þar mega menn una sáttir við sitt.
Seiðasleppingaárnar, þær systur Rangár eru enn opnar og verður langt fram í október. Þar kom loks kippur í þá Eystri og skilaði hún bestu vikuveiðinni sem angling.is mældi í síðustu viku. Þetta laxveiðisumar er sumsé að nálgast endamarkið og við taka norskir kafarar og starfsmenn veiðifélaga við að háfa upp eldislaxa sem nú eru komnir í flestar ár á Vestan- og norðanverðu landinu. Þeir fiskar rata ekki í veiðibækur heldur munu enda hjá Hafrannsóknastofnun og jafnvel fyrir dómstólum. En tíminn leiðir það í ljós.
Þessar eru aflahæstar samkvæmt tölum frá angling.is, sem er síða Landssambands veiðifélaga. Listann má sjá hér að neðan. Í fyrsta dálki er fjöldi laxa veiddur og miðast sú tala við 20. september, eða eru lokatölur þar sem ár hafa lokað. Í dálki tvö er svo vikuveiðin. Þriðji dálkurinn, innan sviga, er fjöldi laxa á sama tíma í fyrra, eða 21. september. Tölur í þessum lista yfir tíu aflahæstu árnar eru fengnar af vef Landssambands veiðifélaga, angling.is og einnig af angling iq appinu þar sem rafræn skráning á veiðinni fer fram. Upplýsingar um stöðuna í fleiri ám má nálgast á báðum þessum síðum.
Ytri-Rangá og 3.130 163 (4.442)
vesturb. Hólsár
Eystri-Rangá 2.204 238 (3.412)
Þverá/Kjarrá 1.303 -- (1.414) Lokatala
Miðfjarðará 1.199 74 (1.522)
Selá í Vopnafirði 1.234 -- (1.164) Lokatala
Hofsá 1.088 -- (1.211) Lokatala
Norðurá 1.087 -- (1.349) Lokatala
Haffjarðará 905 -- (870) Lokatala
Laxá í Aðaldal 685 53 (402)
Langá 663 -- (1.077)
Angling.is birtir vikulega tölur úr öllum laxveiðiánum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
101 cm | Vatnsdalsá | Erlendur veiðimaður | 29. september 29.9. |
101 cm | Eystri-Rangá | Grzegorz Loszewski | 27. september 27.9. |
105 cm | Hvítá við Iðu | Katrín Tanja Davíðsdóttir | 24. september 24.9. |
101 cm | Víðidalsá | Jón Eðvald Halldórsson | 22. september 22.9. |
107 cm | Grímsá | Jón Jónsson | 22. september 22.9. |
101 cm | Miðfjarðará | Agnar Sigurjónsson | 22. september 22.9. |
101 cm | Hvítá við Iðu | Gunnar Pétursson | 20. september 20.9. |