Vilja fólk í „eldislaxaveiði“ í Stóru

Landeigendur í Stóru-Laxá vilja setja upp eldislaxavakt með vönum veiðimönnum …
Landeigendur í Stóru-Laxá vilja setja upp eldislaxavakt með vönum veiðimönnum fram til 24. október. Ljósmynd/Aðsend

Fyrirhuguð áform landeigenda að Stóru–Laxá hafa vakið mikil viðbrögð meðal veiðimanna. Í fréttatilkynningu sem landeigendur sendu frá sér í dag, segir að óskað sé eftir „vönum veiðimönnum til að veiða Stóru-Laxá frá 2.-24. október í hefðbundinni veiði til að „targeta eldislax“.“

Í framhaldi er bent á að laxagöngur séu seinar í ár og að Stóra–Laxá sé þekkt fyrir laxagöngur og stórlaxa fram í miðjan október.

Tveir leiðsögumenn verða til eftirlits við veiðarnar og stýra þeim. Þá óskar stjórn Stóru–Laxárdeildar veiðifélagsins eftir fiskifræðingi til ráðgjafar.

Greiða fyrir nóttina í veiðihúsinu

Finnur Björn Harðarson landeigandi og leigutaki að Stóru–Laxá auglýsti nýverið á Facebook-síðu sinni að veiðimönnum stæði ofangreint til boða.

Hins vegar er í sömu auglýsingu sagt að menn þurfi að gista í nýja veiðihúsinu og greiða fyrir það sextíu þúsund krónur á sólarhring. Veiðimenn sem Sporðaköst hafa rætt við benda á að þarna sé einfaldlega verið að gera sér mat úr ástandinu og selja veiðileyfi langt fram í október.

Finnur B. Harðarson, landeigandi og leigutaki að Stóru-Laxá segist hafa …
Finnur B. Harðarson, landeigandi og leigutaki að Stóru-Laxá segist hafa kallað eftir tillögum en fátt sé um svör. Hann segir jafnframt að þekkt sé að laxagöngur komi í Stóru-Laxá í október. Hér hampar Finnur stórlaxi úr Kálfhagahyl sem hann veiddi á lokadegi í fyrra. Ljósmynd/FBH

Hafnar túlkuninni

Finnur hafnar þessari túlkun í samtali við Sporðaköst. Hann segir húsið í útleigu á netinu og þar kostar nóttin fyrir manninn fjörutíu þúsund krónur. „Tuttugu þúsund krónur leggjast svo ofan á það sem er kostnaðurinn við leiðsögumennina sem jafnframt hafa eftirlit með höndum og stjórn á veiðinni.“

Finnur leggur mikla áherslu á að Stóra–Laxá sé mjög erfið í þessu samhengi. Hann óttast að eldislax sláist í för með villta laxinum þegar að haustgöngurnar koma. „Við viljum gera allt til að vernda náttúrulega laxastofninn okkar. Ég hef ítrekað óskað eftir tillögum en það er fátt um svör. Við búum ekki við þær aðstæður að geta lokað ánni og eitthvað verðum við að gera. Neyðarúrræði er að draga á hylji þar sem við sjáum torkennilega fiska. Vonandi kemur ekki til þess því það hefur mjög slæm áhrif á fiska sem þegar eru að undirbúa hrygningu.“

Bíða viðbragða Fiskistofu

Stjórn veiðifélagsdeildarinnar hefur sent Fiskistofu erindi þar sem óskað er eftir samþykkt á þessu fyrirkomulagi. En sem kunnugt er brást Fiskistofa við stórfelldu stroki eldislaxa úr sjókvíum Arctic Fish í nágrenni Patreksfjarðar með því að heimila veiðifélögum að framlengja veiðitíma til 15. nóvember. Þá var einnig heimilað að loka laxastigum til að hefta för eldislaxa. 

Næsta skref er að bíða viðbragða Fiskistofu. En hvaða viðbrögð hefur Finnur fengið við þessi áform frá veiðimönnum?

„Við finnum að það er áhugi á að taka þátt í þessu og þá sérstaklega frá mönnum sem þekkja Stóru–Laxá og bera hag hennar fyrir brjósti. Við vitum af veiðireynslu til margra ára að það koma göngur í hana í október og menn sem stunduðu ádráttarveiði í henni hér áður fyrr segja að þá hafi uppistaðan verið nýlegur fiskur og þessi veiði var stunduð í október. Suðurlandið lýtur allt öðrum lögmálum hvað þetta varðar en til dæmis Borgarfjörðurinn og Vesturland.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira