Breiðdalsá verði í hópi bestu laxveiðiáa

Frá fossinum Beljanda í Breiðdalsá. Vissulega er víða fallegt í …
Frá fossinum Beljanda í Breiðdalsá. Vissulega er víða fallegt í Breiðdalsá og ekki síður í hliðaránum. Forvitnilegt verður að sjá hvernig til tekst með endurreisn í Breiðdal. strengir.is

Metnaðarfull áform eru uppi um að koma Breiðdalsá aftur á kortið í laxveiðinni. Stefnt er að því að hún komist í hóp þeirra áa sem skila þúsund laxa veiði á sumri. Formleg opnun verður þann 20. júní í sumar en sextíu þúsund tilbúnum gönguseiðum var sleppt síðasta vor. Munu þau seiði skila sér sem smálax næsta sumar. Markmiðið er að auka seiðasleppingar enn frekar á næstu árum.

Breiðdalsá var að gefa góða veiði á árunum 2004 til 2011 þegar sumarveiði af laxi var á bilinu 400 til 1.430 laxar. Eftir það dalaði veiðin og hefur verið lítil síðustu ár. Ekki var selt í ána síðasta sumar og voru einungis tilraunaveiðar í henni sem gáfu eitthvað af laxi, að sögn Jóhanns Davíðs Snorrason sem er framkvæmdastjóri fyrirtækisins Kolskeggs, sem annast sölu veiðileyfa í Breiðdalsá. Kolskeggur annast einnig Eystri–Rangá, Affallið og Þverá í Fljótshlíð sem allar byggja á seiðasleppingum.

Sextíu þúsund gönguseiðum var sleppt í Breiðdalsá í vor. Þau …
Sextíu þúsund gönguseiðum var sleppt í Breiðdalsá í vor. Þau eiga að skila sér næsta sumar. Stefnt er að því að auka seiðasleppingar í framtíðinni. mbl.is/Golli

„Það er meiningin að vera með grand opening í sumar. Við erum að horfa á endurheimtur í kringum eitt prósent, sem er reyndar í lægri kantinum en það gæti þýtt að sex hundruð laxar gangi næsta sumar í Breiðdalsá. Þetta voru góð seiði og vonandi skilar það jafnvel enn betri árangri, en það þarf bara að koma í ljós,“ upplýsti Jóhann í samtali við Sporðaköst.

Hann segir að þröskuldurinn hafi verið að fá lax í klak. Það hafi verið erfitt að fá nógu mikið af laxi til seiðaframleiðslu en hann vonar að þeim takist að fá nægilegt magn til að auka sleppingu jafnt og þétt.

Verðið í sumar verður hófstillt eða á bilinu tuttugu til fimmtíu þúsund krónur dagurinn fyrir stöngina. Ekki er gistiskylda en veiðimenn sem vilja kaupa gistingu geta pantað hana með morgunverði í gamla veiðihúsinu við Eyjar en ekki er boðið upp á fullt fæði. Verðið fyrir tveggja manna herbergi er fjörutíu þúsund krónur fyrir nóttina eða tuttugu þúsund krónur á mann.

Ánægður veiðimaður hampar stórlaxi úr Breiðdalsá sumarið 2015. Veiði síðustu …
Ánægður veiðimaður hampar stórlaxi úr Breiðdalsá sumarið 2015. Veiði síðustu ára hefur verið lítil í Breiðdalnum enda sleppingar verið litlar sem engar. Ekki var selt í ána í sumar. strengir.is

„Við byrjum með sex stangir þann 20. júní og fjölgum þeim svo í átta, þann 15. júlí. Svo fækkum við þeim aftur í sex 10. september og síðustu tíu dagana er veitt á sex stangir. Í Breiðdalsá verður eingöngu veitt á flugu og öllum laxi sleppt. „Markmiðið er ekki að hún verði veiða og sleppa á til framtíðar. En á meðan að á uppbyggingu stendur viljum við byrja svona. Við viljum byrja svona. Ef göngur verða góðar í sumar þá kemur til greina að endurskoða hvort leyft verður að taka eitthvað af fiski. Veiðin mun alfarið byggja á sleppingum og því verður ekki alger sleppiskylda. Það þarf bara að koma í ljós í sumar hvernig þetta gengur.“ Jóhann Davíð segir þó að síðustu daga veiðitímans verði heimillt að veiða líka á spún og sé það gert til að tryggja betri árangur í klakveiðinni.

Hefur þú veitt í Breiðdalsá?

„Nei, en mun gera það í sumar. Mér segja menn sem hafa veitt hana að hún sé í hópi fallegustu laxveiðiáa á landinu og ég tek þá bara trúanlega.

Við stefnum að því að auka sleppingar í framtíðinni. Markmiðið er að koma henni í það horf sem hún var í þegar best lét. Þetta byggist hins vegar alfarið upp á fjölda seiða sem sleppt er og heimtum sem við fáum.“ 

Albert Jensson hefur verið ráðinn sem umsjónarmaður árinnar en hann er þaulvanur í veiðileiðsögn og þekkir svæðið vel. 

Fróðlegt verður að sjá hvernig endurreisn Breiðdalsár gengur og margir munu fylgjast með hvernig þetta fyrsta sumar mun ganga. 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert