„Búið að traðka á einkalífi manns“

Svona var aðkoman í morgun. Hjólatjakki hafði verið hent í …
Svona var aðkoman í morgun. Hjólatjakki hafði verið hent í gegnum glugga á versluninni. Þetta var önnur nóttin í röð sem innbrotsþjófar reyndu að komast inn í Veiðihornið. Ljósmynd/Ólafur Vigfússon

Aðra nóttina í röð voru unnin skemmdarverk og gerð tilraun til innbrots í verslunina Veiðihornið í Síðumúla. Snemma í morgun brutust tveir menn inn í búðina með því að henda hjólatjakki í gegnum rúðu á aðaldyrum og komust þannig inn.

Ólafur Vigfússon og María Anna Clausen, sem eiga og reka Veiðihornið fengu símtal frá Securitas um klukkan fimm í morgun þegar viðvörunarkerfi höfðu farið í gang og ljóst var að innbrot var í gangi. Eins og fyrr segir var þetta önnur nóttin í röð sem þetta gerist. Aðfaranótt mánudags reyndu tveir menn að brjótast inn í verslunina en höfðu ekki erindi sem erfiði. Búðin er rammgerð enda meðal annars seld þar skotvopn og skotfæri.

Fyrri nóttina var reynt að spenna upp hurð bakatil í húsnæðinu og reynt að brjóta rúður. Það gekk ekki fyrir þjófana að komast inn og flúðu þeir af vettvangi.

Aðkoman í gær. Þá komust þjófarnir ekki inn en skemmdir …
Aðkoman í gær. Þá komust þjófarnir ekki inn en skemmdir voru miklar. Bæði á gluggum og hurðum þar sem kúbein og önnur verkfæri voru notuð til að reyna að brjótast inn. Ljósmynd/Ólafur Vigfússon

„Ég var þreyttur eftir gærdaginn og fór óvenju snemma að sofa og var vaknaður klukkan fjögur. Eitthvað var að trufla mig og ég átti allt eins von á að fá símtal frá Securitas og því miður gerðist það um klukkan fimm. 

Þetta er svo ömurleg tilfinning. Það er eins og einhver hafi farið inn á heimili þitt og sest við eldhúsborðið og sofið í rúminu þínu. Það er eins og búið sé að traðka á einkalífi þínu þegar svona gerist,“ sagði Óli í samtali við Sporðaköst snemma í morgun.

Þau hjónin voru annan daginn í röð að byrja morguninn á því að sópa upp glerbrot og tína saman vörur sem höfðu dreifst víða um búðina.

Það er ótrúlega einbeittur brotavilji að ráðast til atlögu við sömu verslun tvær nætur í röð. Óli segir að þau eigi myndefni af mönnunum tveimur sem lögregla hefur fengið í hendurnar. „Við erum líka með myndir frá fyrirtækjum í kring þannig að allt ferlið er myndað í bak og fyrir. Þetta er eitthvað sem er ekki bara að gerast hér hjá okkur. Þetta virðist vera í gangi víða og er náttúrulega ömurlegt fyrir alla sem verða fyrir barðinu á þessu.“

Ekki er hægt að sjá að miklu hafi verið stolið og fjármunir eru ekki það sem svona brotamenn eru á höttunum eftir enda nánast öll viðskipti rafræn og framkvæmd með kortum. Óla sýnist við fyrstu yfirferð að þeir hafi stolið vasahnífum og einhverju smálegu. „Hávaðinn af þjófavarnarkerfinu er það skerandi að fólk helst ekki lengi við en stærsta tjónið fyrir okkur eru skemmdir og sú andlega vanlíðan sem fylgir þessu. Við verðum með hlera fyrir einhverjum gluggum næstu daga á meðan að við lögum skemmdirnar.“

Þessi ömurlegheit munu ekki hafa áhrif á opnunartíma Veiðihornsins og segir Óli að vertíðin sé að byrja og þau verði klár.

Sporðaköst óskuðu eftir myndefni innan úr búðinni af innbrotsþjófunum. En Óli taldi slíkt ekki heimilt vegna persónuverndarlaga.

Það eitt og sér er undarlegt. Hvaða persónur er verið að vernda? Þjófana og skemmdarvargana? Væri nú ekki ráð fyrir Alþingi að breyta þessum lögum þannig að vernd við glæpamenn sé ekki í boði löggjafans.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Víðidalsá Ragnheiður Þengilsdóttir 14. júlí 14.7.
106 cm Laxá í Aðaldal Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 8. júlí 8.7.
100 cm Blanda Patrick Devennie 20. júní 20.6.
100 cm Kjarrá Sigurður Smári Gylfason 19. júní 19.6.
Veiðiárið 2023:
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert