„Hér eru allir í sjokki. Sjokki“

Svona mætti Árni Baldursson til Noregs. Snúinn á báðum öklum …
Svona mætti Árni Baldursson til Noregs. Snúinn á báðum öklum eftir slys í fjallgöngu. Hann segir skelfilega stöðu uppi í einni bestu laxveiðiá Noregs og fólk sé í sjokki. Ljósmynd/Árni Baldursson

Grafalvarleg og sorgleg staða er komin upp í einni bestu og þekktustu laxveiðiá Noregs. Áin Gaula er þekkt á heimsvísu þegar kemur að laxveiði. Veiðin þessa fyrstu daga veiðitímans er aðeins brot af því sem eðlilegt getur talist og á sama tíma er von á miklu magni af stórum eldislöxum sem sluppu úr kvíum. Eldislaxinn er talinn sýktur af tveimur alvarlegum sjúkdómum og vitað er að flestir laxarnir eru frjóir þannig að þeir munu leita upp í ferskvatn til að hlíða kalli náttúrunnar.

Árni Baldursson atvinnuveiðimaður er staddur á einu af fjölmörgu veiðisvæðum Gaula. Hann er ógöngufær eftir slys í fjallgöngu hér heima en til stóð að hann myndi veiða fyrstu vikurnar. Verandi haltur á báðum fótum og lítt fær um gang hefur Árni í stað þess að veiða verið að ræða við landeigendur og leigutaka í Gaula.

Fáir íslenskir veiðimenn þekkja Noreg betur en Árni Baldursson. Hefur …
Fáir íslenskir veiðimenn þekkja Noreg betur en Árni Baldursson. Hefur veitt í Gaula í fjölmörg ár og var með svæði þar á leigu. Veiðin núna er einungis brot af því sem áður var. Ljósmynd/Árni Baldursson

„Í fyrra þann fjórða júní voru komnir þrjú hundruð laxar á land í Gaulu. Þetta er náttúrulega risavaxið vatnasvæði með upp undir þúsundir stangir þegar allt er talið, hliðarár og öll áin. Það var lélegasta byrjun í sögu Gaulu. Í gær voru komnir sextíu laxar á land. Fimm sinnum minna en í lélegasta árinu sem var í fyrra.“

„Fólk er bara lamað hérna“

Árni segist vera í sjokki yfir þessari stöðu. Á sama tíma sluppu þúsundir eldislaxa úr kvíum í Þrándheimsfirði. Árni segir að ekki sé til staðfest tala um fjölda en hún sé ekki undir fjórtán þúsund og svartsýnustu menn telja að fjöldinn geti verið allt að fimmtíu þúsund.

„Þetta voru allt frjóir stórlaxar í kringum átta kíló. Ekki nóg með það. Þeir eru með tvær tegundir af illvígum sjúkdómum sem geta auðveldlega smitast yfir í villta laxinn. Allur þessi fiskur er að stefna upp í árnar hér og fólk hefur gríðarlegar áhyggjur. Fólk er bara lamað hérna.“

Hann segir að í skerjagarðinum séu gildrur sem séu notaðar til að taka stikkprufur og fá einhverja hugmynd um göngu laxins. „Það mætti til okkar landeigandi í gær og hann var svartur af reiði. Hann var að lesa upp fyrir okkur tölur yfir það sem kom í gildruna. Þar fundust þrjátíu náttúrulegir laxar og þeir sigtuðu frá 160 eldislaxa.

Það er allt í panik hérna. Þeir voru að leggja átján kílómetra af netum í fjörðinn til að reyna að ná í eitthvað af þessum eldislaxi. En netin taka náttúrulega líka villta laxinn. Það ríkir hér alger upplausn og fólk er reitt og hefur gríðarlegar áhyggjur. Fólk er bara í sjokki. Sjokki. Þetta er stærsta og þekktasta laxveiðiá Noregs. Þetta er þyngra en tárum taki.

Svo smitast þetta ástand yfir í veiðimenn og það er allur máttur úr þeim. Það er nánast enginn að veiða hérna og menn eru bara búnir á því einhvern veginn eftir þessar fréttir.“

Svartasta sviðsmyndin

Hafi menn teiknað upp mögulegar sviðsmyndir sem upp gætu komið í tengslum við slysasleppingar er þetta án efa svartasta mynd sem hægt er að ímynda sér. Kynþroska fiskur í þúsunda vís. Verdens Gang, norski fréttamiðillinn segir að meðalþyngd þessara fiska hafi verið 7,3 kíló. Þeir eru smitaðir af tveimur alvarlegum sjúkdómum og sérstaklega óttast menn um seiði í ánum því smitist þessir sjúkdómar í þau geta seiðin drepist. Þetta gerist á sama tíma og villti laxinn er við ströndina á leið í ferskvatn. Er hægt að bæta einhverju við þetta sem gerði málið alvarlegra?

„Þetta er svo sorglegt. Risavaxið umhverfisslys og þau koma bara eitt á fætur öðru. Þetta er því miður stórt. Þessi fiskur mun vaða hér upp um allar ár og afleiðingar geta orðið skelfilegar.

Þetta er það sem koma skal heima. Við viljum ekki hlusta eða læra og ekki gera neitt. Þetta er bara það sem á að koma. Þetta sama og er hérna. Þetta er í besta falli sorglegt.“

Árni áætlar að um þúsund veiðimenn séu á svæðinu og sama hvern hann hefur hitt þá segir hann að menn séu í sjokki.

Aðstæður er nánast ómögulegar. Til að verjast því að sýktur fiskur gangi í árnar hafa þessi miklu net verið lögð í fjörðinn sem tekur ekki bara á móti Gaula heldur líka Orklu, Verdal, Stjördal og fleiri þekktum laxveiðiám. Það sem margfaldar vandamálið eru sjúkdómarnir sem þessir eldislaxar bera. Gangi þeir í árnar og smiti yngri árganga getur tjónið orðið svo mikið og til svo langs tíma að fáir þora að leggja mælistiku á það. Hins vegar taka netin náttúrulega fiskinn líka og lax sem lendir í neti er nánast undantekningalaust dauður.

Eins ótrúlegt og það hljómar að á svæðinu séu þúsund stangir þá segir Árni að þeir hafi reiknað þetta út í fyrra. „Bara á svæðinu sem ég er á eru 24 stangir. Ef ég keyri hérna nokkra kílómetra þá er ég kominn í hundrað stangir. Já þetta eru um þúsund stangir á öllu vatnasviðinu. Þær gáfu sex laxa í gær.“

Fáir veiðimenn sleppa laxinum

Við þessar aðstæður er lítið um veiða og sleppa í Gaula. Aðeins 16,9% af þeim löxum sem veiðst hafa hefur verið sleppt. Þetta er tölfræði sem Winsnes Fly Fishing Lodge, Gaula birti í gær. Þessu fyrstu daga veiðitímans hafa veiðimenn drepið ríflega áttatíu prósent af veiddum löxum. Það er aldrei mikilvægara en á tímum eins og þeim sem nú steðja að Gaula og fleiri af þekktustu laxveiðiám Noregs að tryggja að hrygningarstofninn sé sterkur til að draga úr eða öllu heldur hægja á erfðamengun. Hins vegar, enn og aftur. Sjúkdómarnir sem þessir laxar bera með sér breyta stöðunni og gera þarf allt til að varna þeim uppgöngu í árnar. Þetta er nánast ómöguleg staða.

Á sama tíma hafa þeir sem stjórna veiðum í ánni Skjern í Danmörku gripið til þess ráðs að fella niður kvóta og taka eingöngu upp veiða og sleppa. Vorgangan í ána hefur verið mjög lítil og er metin einungis brot af því sem var fyrir tveimur árum. Margir hafa horft til Skjern sem dæmi um þar sem vel hefur tekist að endurheimta laxastofn sem var nánast horfinn. Fyrirkomulagið þar hefur verið með þeim hætti á þrisvar á sumri hefur verið opnað fyrir kvóta af laxi sem veiðimenn mega drepa. Þegar þeim kvótum hefur verið náð er eingöngu veiða og sleppa. Nú hafa þessir kvóta verið felldir úr gildi.

Nuno Alexandre Bentim Servo með einn af þeim nítján löxum …
Nuno Alexandre Bentim Servo með einn af þeim nítján löxum sem veiddust í gær í Norðurá. Frábær opnunardagur þrátt fyrir rok og kulda. Ljósmynd/Rafn Valur Alfreðsson

Staða Íslands mun betri – ennþá

Staða Íslands þegar kemur að laxinum er enn margfallt betri en í löndunum í kringum okkur. Nítján laxa opnunardagur í Norðurá er talandi dæmi um það. 22 laxar veiddust fyrstu tvo dagana í Urriðafossi. Þó svo að veiðin hér á landi hafi verið undir meðallagi síðustu fimm ár þá virðist þetta sumar vera að byrja vel. Auðvitað er of snemmt að draga miklar ályktanir en byrjanir í löndunum í kringum okkur eru ekki góðar svo ekki sé fastar að orði kveðið. Ísland virðist vera í fremstu röð þegar kemur að villtum laxi – ennþá.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Víðidalsá Ragnheiður Þengilsdóttir 14. júlí 14.7.
106 cm Laxá í Aðaldal Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 8. júlí 8.7.
100 cm Blanda Patrick Devennie 20. júní 20.6.
100 cm Kjarrá Sigurður Smári Gylfason 19. júní 19.6.
Veiðiárið 2023:
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert