Lélegasta byrjun sem menn hafa séð

Súlurit fyrir fjórar þekktar laxveiðiár í Noregi. Dökkbláu súlurnar lengst …
Súlurit fyrir fjórar þekktar laxveiðiár í Noregi. Dökkbláu súlurnar lengst til vinstri tákna fjölda veiddra laxa í þessum ám. Hinar súlurnar eru svo sami tími í fyrra og tvö ár þar áður. Appelsínugulu súlurnar sýna stöðuna í fyrra sem var lélegasta árið til þessa. Súlurit/Laksefiske í elv

Laxveiðin í Noregi er ekki svipur hjá sjón í upphafi veiðitímans. Síðasta ár var það lélegasta frá því að skráningar á veiði hófust. Byrjunin nú er langt undir því sem var á sama tíma í fyrra. Með þessari frétt fylgir súlurit yfir veiði í fjórum topp laxveiðiám í Noregi og byrjunin í ár þar borin saman við síðustu þrjú ár. Allar eru þær í Þrændalögum.

Ef við lítum fyrst á ána Gaula sem er mjög þekkt laxveiðiá og við höfum fjallað nýlega um þá er staðan þessi. Í lok síðustu viku höfðu veiðst þar 163 laxar. Á sama tíma í fyrra var búið að landa 451 laxi í Gaula og það var lélegasta ár fram til þessa. Hún er ekki hálfdrættingur á við það sem hún gaf í hörmungarárinu 2023. Sumarið 2022 hafði Gaula skilað ríflega átta hundruð löxum. Árið 2021 voru þeir ríflega fimm hundruð.

Annað stórt nafn í laxveiðinni í Noregi er Orkla. Staðan þar er ekki betri. 103 laxar höfðu veiðst í henni um helgina. Til samanburðar voru þeir 324 í fyrra, 695 árið 2022 og 389 sumarið 2021.

Namsen sem er þriðja stóra nafnið í þessum samanburði. Á þessum tíma 2021 hafði hún gefið 870 laxa. Hún gerði betur 2022 og var þá komin yfir níu hundruð veidda laxa. Í fyrr var fallið mjög mikið og stóð hún þá í ríflega fjögur hundruð löxum. Í sumar eru þeir ekki nema 216.

Sú fjórða er Stjödalselva. 49 í ár. 127 í fyrra. 226 sumarið 2022 og 149 árið 2021.

Þetta eru gríðarleg vonbrigði fyrir landeigendur og veiðimenn. Áhyggjurnar, eins og gefur að skilja eru miklar því þetta svæði byggir á mikilli þjónustu við laxveiðimenn yfir sumartímann. Eins við sögðum frá í síðustu viku eru um þúsund stangir í Gaula.

Þessi byrjun er svo slök að menn setur hljóða. Auðvitað er þetta bara upphaf veiðitímans en fallið er svo mikið að ljóst er að árið verður lélegt. Eins og fyrr segir var síðasta veiðitímabil það lélegasta í Noregi frá því að skráningar hófust. Ýmislegt bendir til þess að það leiðindamet verði slegið í sumar. Hins vegar er rétt að hafa í huga eins og óperuunnendur segja gjarnan – þetta er ekki búið fyrr en að feita konan syngur.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Víðidalsá Ragnheiður Þengilsdóttir 14. júlí 14.7.
106 cm Laxá í Aðaldal Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 8. júlí 8.7.
100 cm Blanda Patrick Devennie 20. júní 20.6.
100 cm Kjarrá Sigurður Smári Gylfason 19. júní 19.6.
Veiðiárið 2023:
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert