Stressaðir pabbar með unga veiðimenn

Heiðar Orri Ingvarsson, níu ára með lúsuga hrygnu sem hann …
Heiðar Orri Ingvarsson, níu ára með lúsuga hrygnu sem hann veiddi á grænan Göndul í Elliðaánum í morgun. Hann landaði tveimur löxum og það eru fyrstu flugulaxarnir sem hann veiðir alveg upp á sitt einsdæmi. Ljósmynd/Ingvar Stefánsson

Börn og unglingar eiga sviðið í Elliðaánum í dag. Stangaveiðifélag Reykjavíkur efnir til svokallaðra barnadaga tvisvar í sumar og komast hvorn dag 32 börn og unglingar til veiða. Eftirspurnin er mikil og langir biðlistar eru vegna þátttöku. Svo langir eru biðlistarnir að eðlilegt væri fyrir SVFR að fjölga dögunum. Síðari dagurinn verður eftir miðjan ágúst.

Arney Fríða Rivera sjö ára mætti með eitt markmið og …
Arney Fríða Rivera sjö ára mætti með eitt markmið og það er að ná í Maríulaxinn. Vonandi gengur það hjá henni. Ljósmynd/Mikael Marinó

Sextán ungmenni mættu galvösk í morgun með forráðamönnum og var skipt niður á svæði í borgarperlunni. Eins og gerist í veiðinni gekk þetta upp og niður en allir skemmtu sér í „frábæru“ veðri. Mikael Marinó Rivera er umsjónarmaður með barnadögum SVFR og hann sagði veðrið frábært, með áherslu á að það hentaði ekki endilega fyrir veiðiskap. En vissulega sumarblíða.

Eftir því var tekið að pabbarnir voru mun stressaðri en ungu veiðimennirnir, sérstaklega ef þeir síðarnefndu settu í fisk. Allir jöfnuðu sig svo að lokum og náðu niður blóðþrýstingi.

Feðgarnir að aflokinni góðri vakt. Heiðar Orri landaði tveimur og …
Feðgarnir að aflokinni góðri vakt. Heiðar Orri landaði tveimur og sá gamli, Ingvar Stefánsson var á háfnum, stressaður. Ljósmynd/Ingvar Stefánsson

Einn af þeim sem var búinn að æfa sig vel fyrir þennan veiðidag er Heiðar Orri Ingvarsson, níu ára. Hann hefur veitt í fjölmörg ár og pabbi hans, Ingvar Stefánsson man ekki hvað hann var gamall þegar hann fór fyrst í veiði. „Nú er hann orðinn svo frekur að koma með,“ hlær Ingvar. En hlutverkin snerust við í morgun. Pabbi var til aðstoðar og Heiðar Orri var á stönginni. Þetta byrjaði líka með stæl. Hann hefur oft fengið stöngina eftir að hann bítur á og sjálfur veitt lax á maðk en þegar hér var komið sögu í lífi hans, níu ára, gerði hann allt sjálfur. Hann setti í fallegan lax á litla Colburn special í veiðistaðnum Heyvaði, sem er einn af efstu veiðistöðunum. Án efa voru þeir feðgar báðir stressaðir en líkur á að pabbinn hafi átt erfiðara með sig. Laxinn mældist 67 sentímetrar og sleppt aftur eins og lög gera ráð fyrir. En ævintýrinu var ekki lokið. Nokkru síðar komu þeir á veiðistaðinn Hraunið og þar var tekin fram flugan Göndull, í grænni útgáfu. Lúsug hrygna tók fluguna sem var númer fjórtán. Aftur var pabbi á háfnum og Heiðar Orri sleppti henni fagmannlega eftir myndatöku.

Heiðar Orri hefur veitt frá því að hann gat labbað. …
Heiðar Orri hefur veitt frá því að hann gat labbað. Sjá má að hann rígheldur um stöngina enda segir pabbi hans glottandi að hann sé orðinn frekur á að koma með - alltaf. Ljósmynd/Ingvar Stefánsson

Eftir hádegi var svo skipt um veiðimenn og aðrir sextán tóku upp þráðinn. Sigurður Tómasson veiðivörður við árnar sagði alla hafa verið hæst ánægða með daginn og allt gengið vel þrátt fyrir mikið líf í dalnum, en þar eru hestamenn að etja kappi með klára sína. Svo er verið að brúa og staðið í ýmis konar stórræðum. Samt gekk allt vel.

Skilyrði til veiða voru líkast til erfiðari eftir hádegi. Sólin að hita vatnið og skjannabirta sem gerir laxinn varari um sig. Það kom þó ekki í veg fyrir að hún Rósa Margrét Árnadóttir fékk flottan lax á Hrauninu og þar var ósvikin gleði eftir að honum var sleppt.

Rósa Margrét Árnadóttir með laxinn sinn sem hún fékk á …
Rósa Margrét Árnadóttir með laxinn sinn sem hún fékk á Hrauninu. Sleppt eftir myndatöku og gleðin tær. Ljósmynd/Árni Guðmundsson

Töluverður meðafli kom einnig á land, urriðar og sjóbirtingar og glöddu þeir ekki minna enda á þessum aldri er fiskur alltaf fiskur.

Staðan í Elliðaánum er góð að sögn Sigurður sem annast veiðivörslu. Svipað magn er gengið í gegnum teljarann og í fyrra sem ágætt ár. Spurður um stærðir sagði hann slatta af yfir áttatíu sentímetra fiskum hafa sést og tveir sem nálgast meterinn. Aðspurður hvar þeir væru hló hann og kom sér hjá að svara. Stórir sjóbirtingar hafa líka sést einn ríflega áttatíu sentímetra nagli veiddist á Breiðunni um daginn.

Veiðitölurnar nú eru töluvert hærri en í fyrra. Þann 5. júlí voru komnir 99 laxar úr Elliðaánum 2023 en í dag í hádeginu var búið að skrá 145 laxa. 97% þeirra hafði verið sleppt og meðallengd er 62 sentímetrar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Víðidalsá Ragnheiður Þengilsdóttir 14. júlí 14.7.
106 cm Laxá í Aðaldal Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 8. júlí 8.7.
100 cm Blanda Patrick Devennie 20. júní 20.6.
100 cm Kjarrá Sigurður Smári Gylfason 19. júní 19.6.
Veiðiárið 2023:
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert