Stærsti laxinn það sem af er sumri

Kristrún Ólöf Sigurðardóttir með sinn þriðja hundraðkall úr Laxá í …
Kristrún Ólöf Sigurðardóttir með sinn þriðja hundraðkall úr Laxá í Aðaldal. Þetta var mikið ævintýri og vel spilað hjá þeim báðum. Það er ekki sjálfgefið að landa þessum fiskum þó sett sé í þá. Ljósmynd/Árni Pétur Hilmarsson

Stærsti lax sumarsins, til þessa veiddist í morgun í Laxá í Aðaldal. Þar var að verki Kristrún Ólöf Sigurðardóttir með dyggri aðstoð Árna Péturs Hilmarsson leiðsögumanns. Árni Pétur er búinn að sjá nokkra tanka af þessari gerð í vor og sumar. Og svo kom að því.

„Það er búið að vera fjör í Laxánni síðustu daga. Ég var fyrir neðan fossa í gær og þá sá ég þrjá svona tanka stökkva niður á Kistuhyl. Allt fiskar vel yfir tuttugu pund og þetta var fiskar sem voru að ganga inn í ána. Það var fullt af fiski í Miðfosspollinum og það var líka mikið í Kistuhyl. Ég var með útlending sem náði einum þar. Ég var svo með Kristrúnu í morgun og ég sagði við hana að við yrðum að fara niður fyrir og veiða það svæði almennilega. Hún var til og við byrjuðum í Kistukvíslinni við Staurinn og hún byrjaði að veiða og ég fór upp á Sjónarhól og sá bara strax að þarna voru tíu fiskar í þessum litla polli. Þeir voru stöðugt að skoða fluguna, ógna henni og helst var það lítill Valbeinn sem gaf viðbrögð. Það vantaði herslumuninn á að þeir tækju en við á endanum færðum okkur niður í Sjávarholu og þessi belgur tekur með þessum líka látum,“ segir Árni Pétur þegar lýsir atburðarásinni. Það er barnsleg gleði í röddinni og adrenalínið er ekki alveg farið úr blóðinu. 

Svona tankur er að mati Árna Péturs ekki undir 26 …
Svona tankur er að mati Árna Péturs ekki undir 26 pundum. Þeir eru nokkrir slíkir á ferðinni í Aðaldalnum núna. Ljósmynd/Árni Pétur Hilmarsson

Kristrún stóð sig hundrað prósent segir Árni Pétur. „Við vorum að fara að segja þetta gott og fara í hádegismat. Þetta var eiginlega síðasta kastið, eins og oft vill vera,“ upplýsir Kristrún í samtali við Sporðaköst. „Þetta var ósköp róleg taka. Ég sagði við Árna Pétur að þessi væri líklega bara ágætur. Hann svaraði já ég held að hann sé ansi fínn. Eftir smá stund þá stökk hann fyrir okkur mörgum sinnum og við sáum að þetta var meira en vænn. Þetta var algjör drjóli,“ hlær Kristrún. Hún segist hafa orðið gríðarlega spennt og jafnvel öskrað smá þegar hún áttaði sig á hvað var raunverulega á hinum endanum.

Nú æstust leikar. Eins og stórlaxar eiga til í Sjávarholu vilja þeir rjúka niður úr. „Hann ætlaði niður austur ræsið þrisvar sinnum. Þá er þetta búið. Leikurinn bara tapaður. En við náðum í þrígang að snúa hann af leið. Hann djöflaðist og stökk og andskotaðist þarna um allt. Ég hafði skilið háfinn eftir upp við Staur og setti nýtt Aðaldaldsmet í hundrað metra hlaupi að sækja hann. Þegar ég kom til baka var hún búin að vera með laxinn í rúmar tíu mínútur.“

Kristrún tekur við. „Við vorum með leikplan að ég myndi halda þéttingsfast við hann en þó ekki svo mikið að ég myndi gera hann vitlausan. Ég ætlaði að halda honum rétt við bakkann og Árni Pétur ætlaði að læðast að honum.“

Árni Pétur; „Það eru grjót þarna við eyjuna sem maður veiðir úr og ég laumaði mér niður í grjótin og hafði gott skjól þar. Svo fékk ég bara færi á honum og lét vaða og þetta var eins og að háfa utanborðsmótor á fullu gasi. Hún var ekki búin að vera með hann nema í rúmar tíu mínútur og hann átti fullt eftir. Hann var alveg brjálaður.“ Hér hlæjum við báðir. Þetta er svo dásamleg saga.

Valbeinn, hálf tomma var flugan sem sá stóri vildi. Kristrún …
Valbeinn, hálf tomma var flugan sem sá stóri vildi. Kristrún er hér að fara að kasta henni aftur, síðdegis. Ljósmynd/Árni Pétur Hilmarsson

Árna Pétri verður tíðrætt um að þykktina. Hann segist sannfærður um að þessi fiskur hafi verið 26 til 28 pund. „Þegar ég var búinn að mæla hann aftur. Þá varð ég að prófa að halda á honum. Þetta var svo magnað eintak.“

Þetta er þriðji hundraðkallinn sem Kristrún veiðir í Aðaldal. Júlí á sléttu ártali er hennar tími. 2020 fékk hún 102 sentímetra fisk 25. júlí. Tveimur árum síðar landaði hún 100 sentímetra fiski 24. júlí og svo er það 8. júlí 2024. Fullkomin þrenna. Það er ekki að ástæðulausu að viðnefnið „Big Fish Kris“ er að festast við hana.

Árni Pétur bara varð að handleika hann. Þessi verður nálægt …
Árni Pétur bara varð að handleika hann. Þessi verður nálægt 110 í haust þegar hann er kominn að fullu í riðbúninginn. Ljósmynd/Kristrún Ó. Sigurðardóttir

Fiskar af þessari stærð í Laxá í Aðaldal eru yfirleitt búnir að vera þrjú ár í sjó, að sögn Árna Péturs. Hann segir að miklar rigningar og norðanáttir hafi gert það að verkum að fiskur hafi staldrað stutt við og dreift sér vel um ána. „Það var til dæmis í gærkvöldi að menn reistu sex fiska í Hólmatagli og þar af var einn svona tankur. Ég var sjálfur á Hólmavaðsstíflu í gærkvöldi og við sáum fimm fiska stökkva þar þannig að það er langt síðan að ég hef séð svona mikið af fiski í Laxá. Ef við verðum heppin í sumar og sleppum við litinn þá gætum við verið að horfa á mjög gott sumar.“

Roger, var svarið þegar beðið var um selfí af þeim …
Roger, var svarið þegar beðið var um selfí af þeim saman. Brosið mun endast í marga daga. Ljósmynd/Árni Pétur Hilmarsson

Rétt áður en við kveðjumst þá kallar Kristrún þetta var geggjað. „Púlsinn hjá mér fór í hundrað og fimmtíu slög.“ Við kveðjum þau hlæjandi og brosið mun duga dögum saman. Smelltu einni selfí af ykkur á næsta veiðistað.

„Roger.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Víðidalsá Ragnheiður Þengilsdóttir 14. júlí 14.7.
106 cm Laxá í Aðaldal Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 8. júlí 8.7.
100 cm Blanda Patrick Devennie 20. júní 20.6.
100 cm Kjarrá Sigurður Smári Gylfason 19. júní 19.6.
Veiðiárið 2023:
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert