Svakalegur höfðingi mættur í Elliðaárnar

Merkileg heimsókn í höfuðborgina var staðfest í morgun. Laxateljarinn í Elliðaánum er þeirri tækni gæddur að hann myndar og mælir fiska sem um hann fara. Klukkan 9:50 í morgun kom einn fullvaxinn. Hængur sem mældist 105 sentímetrar. Þetta er einn af þeim allra stærstu sem staðfestir hafa verið í borgarperlunni um langt skeið. Þessi hængur þegar hann verður búinn að slíta sjávarsparifötunum og kominn í riðbúning í haust gæti hæglega mælst 107 sentímetrar eða þar um bil eftir að hausinn stækkar og krókurinn tekur á sig mynd.

Í myndbandinu sem fylgir fréttinni má sjá þennan vígalega höfðingja sem veiðimenn munu væntanlega leita að á næstu dögum. Hér er ósk frá Sporðaköstum: Ef einhver verður svo heppinn að setja í þennan fisk og nær að landa honum þá væri ótrúlega gaman að sá hinn sami tæki hreistursýni af þessum fiski. Að öllum líkindum er þetta fiskur sem hefur dvalið þrjá vetur í sjó. Almennt eru laxar í sjó í eitt eða tvö ár. Smálaxinn sem er nú að ganga víða af krafti gekk út sem seiði í fyrra. Stórlaxinn, sem líka er kallaður tveggja ára lax hefur dvalið tvö ár í sjó. Þeir fiskar eru að veiðast sem áttatíu plús fiskar og upp úr. Raunar eru líka fiskar sem ná ekki alveg áttatíu sentímetra markinu. Þessi stórvaxni hængur gæti hafa dvalið þrjú ár í sjó og kemur því svona heljarmikill til baka.

Það mun auka á spennuna hjá veiðimönnum sem eiga leyfi í Elliðaánum, að vita af svona verðlaunafiski. Það er að sama skapi skemmtilegt að borgarperlan skuli geta framleitt og fóstrað svona fiska.

Mjög góðar göngur eru nú í Elliðaárnar og veiðin með ágætum. Samtals var búið að veiða 159 laxa á hádegi í dag. Átta komu fyrir hádegi og gærdagurinn gaf ellefu fiska.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Víðidalsá Ragnheiður Þengilsdóttir 14. júlí 14.7.
106 cm Laxá í Aðaldal Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 8. júlí 8.7.
100 cm Blanda Patrick Devennie 20. júní 20.6.
100 cm Kjarrá Sigurður Smári Gylfason 19. júní 19.6.
Veiðiárið 2023:
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert