Stórstreymið að standa undir væntingum

Spænskur veiðimaður með fullkomið eintak af laxi. Þessi veiddist í …
Spænskur veiðimaður með fullkomið eintak af laxi. Þessi veiddist í Vesturá í Miðfirði en það eru góðar fréttir að Vesturáin er að ná vopnum sínum eftir nokkur erfið ár í kjölfar þurrkanna sem urðu 2019. Miðfjarðará gaf 29 laxa í gær. Besti dagur sumarsins. Ljósmynd/Miðfjarðará

Það var stórstreymt fyrir tveimur dögum. Einn af mikilvægu stóru straumunum þetta sumarið. Almennt telja veiðimenn að laxagöngur aukist með stórstreymi og nái hámarki sínu rétt í kjölfarið. Þetta virðist vera að ganga eftir. Víða mátti sjá góða veiði í gær og nokkrar ár áttu sína bestu daga til þessa.

Miðfjarðará skilaði 29 löxum í gær. Stangirnar sem veiddu neðsta hluta árinnar lentu í veislu. Settu í sautján laxa fyrir hádegi en lönduðu tíu löxum. Það er stuð og stanslaust fjör alla vaktina. Þá eru ótaldir þeir sem ólguðu undir, eltu og ógnuðu flugunni. Af þessum 29 löxum voru fjórir til fimm sem geta örugglega flokkast sem tveggja ára fiskar hitt var allt smálax og það vel haldinn. Bestu fréttirnar úr Miðfirðinum eru þó án efa þær að mun meira sést af laxi í Vesturánni en undanfarin ár, en hún hefur átt undir högg að sækja eftir hamfaraþurrkana 2019.

Og talandi um hamfarir. Þannig talar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur um að hamfara sumarrigning sé í kortunum. Það eru í veiðilegu samhengi góðar fréttir. Nýtt og ferskt vatn, jafnvel flóð mun leiða af sér hörku veiði þegar sjatnar á nýjan leik. Þannig hafa menn horft til Norðurár sem geymir mun meira af fiski núna samanborið við síðustu ár. Takan er hins vegar dræm miðað við allan þennan fisk. En það eru einmitt hlutir sem menn hafa rætt um í Borgarfirði síðustu ár. Dræm taka. Besta meðalið á það er mikil vatnshækkun og þá verður laxinn tökuglaðari þegar sjatnar á nýjan leik.

Hann er á í Skálapollum í Vesturá. Miðfjarðaráin hefur gefið …
Hann er á í Skálapollum í Vesturá. Miðfjarðaráin hefur gefið töluvert betri veiði en í fyrra og virðist eiga mikið inni. Víða berast nú fréttir frá veiðimönnum að smálaxinn sé að skila sér í kjölfar stórstreymisins. Ljósmynd/Miðfjarðará

Þverá í Borgarfirði átti sinn besta dag í gær. 28 laxar veiddir og aðeins þrír af þeim náðu 70 sentímetrum þannig að smálaxinn er að mæta þar af krafti í kjölfar stórstreymis. Það er rétt að hafa í huga að gott smálaxaár gefur fyrirheit um stórlaxa sumarið á eftir.

Jökla átti einnig frábæran dag í gær. 24 laxar voru bókaðir þar. Hlutfall af stórlaxi var hins vegar mun hærra en í ánum á Vesturlandi. Ríflega helmingur Jöklu veiðinnar í gær var tveggja ára lax. Veiðitölurnar eru sambærilegar við það sem var í fyrra en hún er að detta í hundrað laxa.

Vatnsdalsá hefur einnig átt ágætu gengi að fagna og veiðimenn sem þar hafa verið síðustu daga segja að langt sé síðan að svo mikið af laxi hafi sést í ánni á þessum tíma. Sömu sögu má segja af fleiri ám. Veiðin í Elliðaánum er virkilega góð og mjög sterkar göngur hafa verið þar síðustu daga. Laxá í Aðaldal er einnig í góðu standi og fleiri ár mætti nefna.

Eins og staðan er núna er útlit fyrir að spáin sem Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur setti fram sé að rætast. Hann sagði í vetur að innistæða væri fyrir betra smálaxaári í sumar, en undanfarin ár. Eins og rækilega hefur komið fram á Sporðaköstum var sú spá byggð á hitatölum á fæðuslóð þeirra seiða sem gengu út í fyrra. Hitastig sjávar mældist gráðu hærra en árin á undan og sú gráða er þyngdar sinnar virði í gulli þegar kemur að vaxtarhraða og lífslíkum unglaxa. Þetta hitastig sjávar á fæðuslóðinni er mælikvarði sem hefur virkað undanfarin ár og gefur til kynna hvernig smálaxinum reiðir af.

Það er ekkert öruggt í þessum veiðiheimi en staðan nú er betri en í fyrra og undanfarin ár. Hvernig það skilar sér í veiðitölum á eftir að koma í ljós en víða í Borgarfirðinum er veiðin meiri en í fyrra og í sumum ám mun meiri.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Víðidalsá Ragnheiður Þengilsdóttir 14. júlí 14.7.
106 cm Laxá í Aðaldal Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 8. júlí 8.7.
100 cm Blanda Patrick Devennie 20. júní 20.6.
100 cm Kjarrá Sigurður Smári Gylfason 19. júní 19.6.
Veiðiárið 2023:
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert