Fer í hóp þeirra stærstu á öldinni

Magnaður fiskur. Bjarki Bóasson fékk hann í Kerlingaflúðir í gær. …
Magnaður fiskur. Bjarki Bóasson fékk hann í Kerlingaflúðir í gær. Mældur 94 sentímetrar og vigtaður rúm níu kíló. Fer í flokk stærstu laxa í Elliðaánum á öldinni. Ljósmynd/Árni Kristinn Skúlason

Lax sem vigtaði rúm níu kíló, eða rúm átján pund veiddist í Elliðaánum í gær. Hann mældist 94 sentímetrar en grunur leikur á að hann geti verið 96 sentímetrar. Bjarki Bóasson veiddi fiskinn og naut aðstoðar Árna Kristins Skúlasonar.

Líkast til er þetta fiskur í topp tíu yfir þá stærstu sem veiðst hafa í Elliðaánum á öldinni. Vissulega hafa veiðst stærri fiskar og uppstoppaður lax í veiðihúsinu í Elliðaánum er staðfesting á því en sá fiskur var tuttugu pund og veiddur árið 1992.

Þeir félagar Bjarki og Árni voru með háf sem hægt er að vigta fiska í og sló hann rétt yfir níu kílóin. Mælingin á laxinum var framkvæmd þegar hann lá í vatni og mældist hann 94 sentímetrar. Þegar skoðaðar eru myndir úr laxateljaranum í Elliðaánum þá má finna þar einn 96 sentímetra sem gekk nýverið. Ekki er ólíklegt að þetta sé sami fiskurinn. Mæling Bjarka og Árna stendur hins vegar og hann er skráður 94 sentímetrar. Sporðaköst hrífast af því þegar mæling er varkár. Hitt er algengara.

96 sentímetra laxinn sem skaust eins og tundurskeyti í gegnum …
96 sentímetra laxinn sem skaust eins og tundurskeyti í gegnum laxateljarann fyrir nokkrum dögum. Er þetta sá sami? Ljósmynd/RWD

Af stórfiskum í Elliðaám má nefna að stærsti laxinn í fyrra var 92 sentímetrar. Haustið 2021 veiddi Hörður Birgir Hafsteinsson 95 sentímetra lax í Árbæjarhyl. Sá lax veiddist 1. september og var leginn og hefur líkast til ekki náð níu kílóum. Ásgeir Heiðar veiddi stærsta laxinn sumarið 2015 og var hann 91 sentímeter, veiddur í Ullarfossi 27. júní. Haustið 2013 fékk Garðar Örn Úlfarsson 96 sentímetra fisk og var hann 7,56 kíló. Vigtaður við veiðihús.

Vel má vera að við séum að gleyma einhverjum löxum en afar líklegt er að þessi lax komist í fyrrnefndan hóp þeirra tíu stærstu á öldinni úr Elliðaánum.

Þessi lax mun í haust ná 96 - 97 sentímetrum. …
Þessi lax mun í haust ná 96 - 97 sentímetrum. Bjarki segist vera enn í smá sjokki. Ljósmynd/Árni Kristinn Skúlason

Bjarki setti í stórlaxinn í Kerlingaflúðir en þar hafa menn séð mikið af laxi síðustu daga. Eins og við greindum frá nýlega fór einn í gegnum teljarann sem mældist 105 sentímetrar. Hvort hann veiðist eða ekki verður spennandi að sjá. Í riðbúningi getur hann hæglega náð 107 til 108 sentímetrum.

Svona leit flugan út eftir átökin. Krókarnir aðeins farnir að …
Svona leit flugan út eftir átökin. Krókarnir aðeins farnir að gefa eftir og opnast. Þetta slapp til. Ljósmynd/Bjarki Bóasson

Bjarki fékk laxinn á rauða Frances hexakón og var krókurinn farinn að gefa eftir þegar þeir félagar náðu honum í háfinn, eins og sést á myndinni sem Bjarki tók af flugunni.

Sporðaköst áttu spjall við Bjarka í morgunsárið. „Ég er enn bara í smá sjokki. Gat ekki sofnað í gærkvöldi og endaði með að slökkva á netinu heima. Það pípti allt og söng af endalausum skilaboðum. Í morgun var ég í hátt í hálftíma að svara allskonar út af þessu,“ hló Bjarki.

Árni Kristinn með örmerkta laxinn. Veiðimenn þekkja þessa laxa á …
Árni Kristinn með örmerkta laxinn. Veiðimenn þekkja þessa laxa á að veiðiugginn er ekki til staðar. Hann er klipptur af seiðunum eftir merkingu. Slíka fiska er rétt að hirða og koma til veiðivarðar. Ljósmynd/Bjarki Bóasson

Árni Kristinn félagi hans fékk uggaklipptan lax sem hefur þá að geyma örmerki í trjónu. Slíkir fiskar eru drepnir til að endurheimta örmerkið sem gefur dýrmætar upplýsingar. Þá misstu þeir félagar eina fjóra og óhætt er að segja að þessi vakt eigi eftir að lifa með þeim félögum næstu árin. Sporðaköst óska Bjarka til hamingju með þennan glæsilega lax.

Það er virkilega ánægjulegt að sjá Elliðaárnar fóstra svona magnaða fiska. Byggðin og mannskepnan þrengir sífellt að þessari borgarperlu sem vart á sér hliðstæðu í heiminum. Að höfuðborg skuli eiga laxveiðiá af þessum gæðum er einstakt í veröldinni.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Víðidalsá Ragnheiður Þengilsdóttir 14. júlí 14.7.
106 cm Laxá í Aðaldal Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 8. júlí 8.7.
100 cm Blanda Patrick Devennie 20. júní 20.6.
100 cm Kjarrá Sigurður Smári Gylfason 19. júní 19.6.
Veiðiárið 2023:
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert