Eyjafjarðará að breytast í sjóbirtingsá

Magnaður sjóbirtingur. Ingvar Hauksson veiddi þennan á ómerktum veiðistað í …
Magnaður sjóbirtingur. Ingvar Hauksson veiddi þennan á ómerktum veiðistað í Eyjafjarðará þann 8. ágúst. Magnað ævintýri þegar þessi fullkomni fiskur tók þurrflugu númer 14. Ljósmynd/Ingvar Hauksson

„Það hafa verið plúsar og mínusar. Það verður að viðurkennast að bleikjuveiðin hefur ekki verið neitt sérstök í sumar en á móti er aukningin í sjóbirtingi mjög mikil,“ upplýsti Jón Gunnar Benjamínsson í samtali við Sporðaköst, spurður hvernig Eyjafjarðaráin hefði verið í sumar.

Þó svo að bleikjuveiðin hafi ekki verið eins og var hér á árum áður þá er hún vissulega enn til staðar og erfitt að finna svæði sem gefur stærri bleikjur en efstu svæðin í Eyjafjarðará. Þannig veiddust nokkrar í yfirstærð þar í sumar. Jón Gunnar segist vita um fjórar í sjötíu flokknum og sú stærsta var 74 sentímetrar. Bleikja sem nær sjötíu er verðlauna fiskur. Þá veiðist líka alltaf töluvert magn af bleikju sem fer yfir sextíu sentímetrana og þar með búin að ná stærð smálaxa. Sjálfur setti Jón Gunnar í flotta bleikju, sannkallaða kusu fyrr í mánuðinum og landaði henni. Sú tók Pheasant tail púpu og mældist 66 sentímetrar. Glæsilegur fiskur eins og myndin af Jóni Gunnari ber með sér.

Jón Gunnar Benjamínsson veit um fjórar bleikjur í sumar sem …
Jón Gunnar Benjamínsson veit um fjórar bleikjur í sumar sem náðu 70 sentímetrum. Sú stærsta mældist 74. Hér er hann sjálfur með frábært eintak. Þessi mældist 66 sentímetrar og tók Pheasant Tail púpu. Ljósmynd/Jón Gunnar

Fullkominn birtingur

En þegar kemur að birtingnum þá hefur vöxtur hans verið hreinlega magnaður síðustu ár. Segja má að sjóbirtingurinn sem Ingvar Hauksson veiddi í sumar og slagaði í tuttugu pundin sé táknmynd þess hversu sjóbirtingsstofninn hefur verið að vaxa og dafna í ánni. Ingvar fékk þennan fisk á neðsta svæði árinnar, svæði núll og það sem meira er hann tók litla þurrflugu. Ingvar deildi þessari upplifun sinni á Instagram. Þar sagði hann. „Ég er enn hissa á því að svona stór fiskur leggi það á sig að lyfta sér upp í yfirborðið og sækja litla þurrflugu númer fjórtán,“ skrifaði Ingvar.

Hann lýsir aðdragandum sem var ekki einfaldur. „Ég sá fisk vaka undir tré alveg við bakkann hinu megin á ómerktum veiðistað. Hann var búinn að koma upp þrisvar sinnum og taka flugu. Ég átti engra kosta völ nema að fara niður fyrir hann og kasta á hann andstreymis. Samt náði ég ekki því reki sem ég vildi. Nálægðin við fiskinn var svo mikil. Ég var ekki nema tæpa þrjá metra frá honum og varð nánast að liggja þegar ég kastaði á hann. Í eitt skiptið sem flugan fór framhjá honum sneri hann skyndilega og tók fluguna í áttina að mér. Við horfðumst í augu þegar hann kom upp og tók litla Caddis emergerinn. Þegar ég sá stærðina á hausnum rann upp fyrir mér að þetta yrði ekki auðveld barátta.“

Það koma líka á daginn. Ingvar var með nettar græjur og fimm punda taum. Fluga númer fjórtán og sannkallaður dreki á hinum endanum. Ósáttur.

Caddis Emerger sem Ingvar hnýtti sjálfur. Það eru ekki alltaf …
Caddis Emerger sem Ingvar hnýtti sjálfur. Það eru ekki alltaf stærstu flugurnar sem veiða stóru fiskana. Oft er því öfugt farið. Ljósmynd/Ingvar Hauksson

45 mínútum og einum sundspretti síðar landaði Ingvar þessum fullkomna fiski. Um áttatíu sentímetrar á lengd og „svo þykkur að ég hef aldrei séð annað eins.“ Hann leyfir sér að giska á að þessi fiskur hafi verið hátt í tuttugu pund. Þyngdin er ekki aðalatriðið, en eins og myndirnar bera með sér er þessi fiskur ótrúlega flottur. Einhvern veginn fullkominn. Ingvar veiddi hann 8. ágúst í sumar og á flugu sem hann hnýtti sjálfur.

Fjölmargir fleiri veglegir sjóbirtingar hafa veiðst í haust eins og undanfarin ár. Besta sjóbirtingsveiðin er neðarlega í Eyjafjarðaránni en nú þegar haustið er á næsta leiti er hann farinn að fikra sig ofar.

Ingvar sendi okkur þessa mynd úr væsnum hjá sér. Nánast …
Ingvar sendi okkur þessa mynd úr væsnum hjá sér. Nánast eins fluga og stóri birtingurinn tók. Hann segir þær einfaldar í hnýtingu. Ljósmynd/Ingvar Hauksson

Það hefur vakið athygli viðmælenda Sporðakasta hversu þykkir og vel haldnir birtingarnir eru bæði í Eyjafjarðará og ekki síður í Húseyjarkvíslinni í Skagafirði. Sérstaklega er þetta eftirtektarvert í vorveiðinni þegar menn geta átt von á slápum, eða horuðum birtingum sem eru að undirbúa ferð til sjávar til að byggja sig upp aftur. Oftar en ekki eru myndir af vorfiskum úr þessum ám þannig að erfitt er að sjá að fiskurinn sé vorfiskur en ekki nýgenginn haust fiskur.

Hvort að uppgangur sjóbirtingsins á sama tíma og bleikjan er á undanhaldi, sé sveifla eða tímabundið ástand á eftir að koma í ljós. Bleikja er á undanhaldi víðast hvar á landinu og gildir þá einu hvort um er að ræða fjallavötn eða árósa við ströndina. Sama staða er uppi í nyrsta hluta Noregs. Sjóbirtingur er mjög víða að sækja í sig veðrið og mikil aukning er á honum í nær öllum landshlutum.

Ingvar Hauksson er búsettur erlendis en heldur úti Instragram síðu um veiði. Fyrir áhugasama er hér slóðin á síðuna hans. kalluna.nature.ikh.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Richard Jewell 9. ágúst 9.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert