Hnúðlax veiðst í sex ám í sumar

Hnúðlax úr Sléttuá. Þessi veiddist á stöng í fyrra. Síðan …
Hnúðlax úr Sléttuá. Þessi veiddist á stöng í fyrra. Síðan var dregið á hylinn og þá náðust aðrir fimm. Hefur orðið vart við hnúðlax í sex ám hér á landi í sumar. Ljósmynd/Marinó H. Svavarsson

Hnúðlax hefur veiðst í sex ám í sumar, eftir því sem næst verður komist. Þær eru Langá, Víðidalsá, Húseyjarkvísl, Leirvogsá, Miðá í Dölum og Langadalsá í Djúpinu. Vel kann að vera að hnúðlaxinn hafi veiðst víðar en þetta eru þær upplýsingar sem sjá má á angling iQ rafrænu veiðibókinni.

Í þeim ám sem nefndar eru hér að ofan er um að ræða stakan fisk, nema í Miðá í Dölum. Þar eru tveir hnúðlaxar skráðir sama dag í Rafmagnsstreng.

Hnúðlaxar veiðast fyrst og fremst á oddatöluárum, því að stofninn sem hefur verið að ná uggafestu hér á landi hefur tveggja ára lífsferil. Árin sem ber upp á slétta tölu hafa verið hnúðlaxafrí. Vissulega er til annar stofn hnúðlaxa, ættaður frá Rússlandi sem gengur í ferskvatn á þeim árum sem ber upp á slétta tölu.

Dregið á í ánni Komag sem er nyrst í Noregi. …
Dregið á í ánni Komag sem er nyrst í Noregi. Hún er þekkt sem gjöful laxveiðiá en hnúðlax hefur gengið í hana í miklu magni síðustu oddatöluár. Ljósmynd/Ríkisstjóri í Tromsfylki og Finnmörku

Norðmenn, sérstaklega í nyrðri hluta landsins hafa verið að drukkna í hnúðlaxi síðustu oddatöluár þegar hann mætir í sívaxandi magni. Dæmi eru um að tugþúsundir hnúðlaxa gangi í nyrstu laxveiðiárnar og þær sem næstar eru landamærunum við Rússland. Hefur síðustu ár þurft að loka nokkrum ám í Finnmörku vegna þess að þær hafa verið óveiðanlegar sökum gríðarlegs magns af hnúðlaxi.

Stofninn sem gengur í árnar á þeim árum sem ber upp á slétta tölu hefur verið að stækka og er það eitthvað sem norskir veiðimenn og landeigendur óttast.

Hnúðlaxinn hefur hrygnt í fjölmörgum ám á Íslandi síðustu oddatöluár og má búast við vaxandi göngum af þessum nýja landnema. Næsta ár, 2025 gæti orðið vart við áframhaldandi aukningu af hnúðlaxi í íslenskum ám og raunar um alla Evrópu. Sumarið 2023 fundust hnúðlaxar allt suður til Spánar og í fjölmörgum ám á Bretlandseyjum, ásamt Íslandi og fleiri löndum.

Þeir fiskar sem veiðst hafa í sumar í íslenskum ám eru greinilega flækingar og hvergi hefur frést af torfum eða miklu magni. En vissulega er þetta áhyggjuefni fyrir marga. Sporðaköstum þætti áhugavert að fá fréttir af hnúðlöxum hafi þeir veiðst í sumar. Eitt af því sem vekur athygli er að allir þessir hnúðlaxar sem vitnað er til hér að ofan eru veiddir í ám í vesturhluta landsins. Oft hefur mest orðið vart við hnúðlax í NA-hluta landsins.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka