Einn sá stærsti sem veiðst hefur í sumar

Magnaður stórlax. Skolturinn er eins vígalegur og þeir verða. Þetta …
Magnaður stórlax. Skolturinn er eins vígalegur og þeir verða. Þetta er einn af stærstu löxum sumarsins í Hvítá við Iðu. Ljósmynd/ÁÞB

Einn af stærstu löxum sumarsins í Hvítá við Iðu veiddist í gær. Ársæll Þór Bjarnason var mættur til veiða við frekar leiðinleg skilyrði. Mikill litur var og slýrek. Samt var fiskur á svæðinu og þegar við komum að sögunni var hann búinn að landa fimm og sleppa þeim öllum. Hann var við það að hætta og hringdi í mág sinn og sagði honum að koma austur og taka við af sér.

„Þetta var í alvöru síðasta kastið. Fiskurinn tók strax og ég fann um leið að þetta var stór fiskur. Ég hafði sett í einn risa í sumar einmitt á Iðunni en það var frekar neðarlega og ég átti aldrei séns í hann. Hann fór undir brúna og þar með var því lokið. Eftir að hafa tekist á við þennan þá var hann farinn að nálgast brúna ískyggilega en í þetta skiptið slapp það til,“ sagði Ársæll í samtali við Sporðaköst.

Fiskurinn jafnar sig eftir átökin. Hann tók Rauðan Frances enda …
Fiskurinn jafnar sig eftir átökin. Hann tók Rauðan Frances enda flugan hans Alla á Iðunni. Þessi mældist 102,5 sentímetrar. Ljósmynd/ÁÞB

Hann hefur um langt árabil veitt á Iðu með tengdaföður sínum, sem lést í fyrra. Vel fór á með þeim tengdafeðgum og eftir andlátið hét Ársæll sér því að stunda Iðuna betur. Tengdafaðir hans Sveinn Ingibergsson, kenndur við blikksmiðjuna Gretti var einn úr eigendahópi veiðisvæðisins. „Við vorum flottir saman. Hann var alltaf með fluguna Skrögg og ég með Rauða Frances. Það var hægt að ganga að þvi vísu að hann var með Skrögginn undir og hann veiddi vel á hann. Ég átti svo Francesinn og allt var í föstum skorðum,“ hlær Alli.

Fiskurinn sem hann landaði með aðstoð manns sem var við veiðar svæðinu var enginn smá hængur. Mældur 102,5 sentímetrar. „Þetta var snúin viðureign. Slýið safnaðist í svo miklu magni á línuna og þá verður þetta annar leikur. Slýið var svo mikið að hann stökk aldrei. Mér var eiginlega hætt að lítast á þetta en náði svo á endanum að renna honum inn í háfinn hjá veiðimanninum sem kom og aðstoðaði mig.“

Það er karakter í þessum fiski. Illúðlegur og pirraður. Leigutaki …
Það er karakter í þessum fiski. Illúðlegur og pirraður. Leigutaki Stóru Laxár kannaðist við þennan og þakkaði Alla fyrir að sleppa honum og senda hann áleiðis heim til sín. Ljósmynd/ÁÞB

Þessum laxi var sleppt og Finnur Harðarson sem leigir Stóru Laxá frétti af þessu. Þakkaði hann Ársæli fyrir að senda þennan stórlax heim til sín. Ársæll sleppti öllum sex löxunum sem hann veiddi í gær. „Já. Ég sleppti þeim öllum og það hefði verið minnsta mál að skutla þessum laxi upp í Bergsnös til Finns ef hann hefði beðið um það,“ sagði hann sposkur.

Eins og myndin ber með sér er þetta afskaplega vígalegur hængur. Krókurinn er stór og mikill og fiskurinn er gríðarlega stór. Það sést strax að þessi er í yfirstærð.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka