„Tungufljótið er meistaradeildin“

Jón Þór Júlíusson framkvæmdastjóri Hreggnasa ehf, heldur vart vatni yfir …
Jón Þór Júlíusson framkvæmdastjóri Hreggnasa ehf, heldur vart vatni yfir því að vera kominn með Tungufljót á leigu. Hann segist hafa getað selt september og október á næsta ári tvisvar, jafnvel þrisvar sinnum. Ljósmynd/Hreggnasi

Tímamótasamningur í stangveiði var undirritaður í síðustu viku. Hreggnasi ehf hefur tekið Tungufljótið í Vestur–Skaftafellssýslu á leigu til fimm ára og það fyrir metfjárhæð þegar horft er til þess að ekki er um laxveiðiá að ræða heldur sjóbirtingsá. Jón Þór Júlíusson er framkvæmdastjóri Hreggnasa og Sporðaköst settust niður með Jóni og ræddum þennan nýja gjörning.

Nokkuð er síðan að samningurinn var handsalaður en sökum anna formanns Tungufljótsdeildar Veiðifélags Kúðafljóts var hann ekki undirritaður fyrr en í síðustu viku. Formaðurinn er á fullu að bjarga því sem bjargað verður í niðurtúr Sjálfstæðisflokksins eftir síðasta ríkisstjórnarsamstarf og á kafi í kosningabaráttu. Formaður er Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra.

Ungur maður og í besta búningi þess tíma. Neonprene vöðlurnar …
Ungur maður og í besta búningi þess tíma. Neonprene vöðlurnar voru einkennisfatnaður á árum áður. Jón Þór segir svæðið og möguleikar þess í heimsklassa. Ljósmynd/Jón Þór Júlíusson

„Við sömdum til fimm ára en náðum ekki að klára þær vangaveltur sem uppi voru um lengri samning, til allt að tíu ára og tæki þá mið af uppbyggingu á húsnæði við Tungufljótið fyrir veiðimenn. Við klárum þá umræðu síðar, en byrjum á þessum nótum,“ upplýsti Jón Þór í samtali við Sporðaköst.

Raspurinn erfiður á vetrargrillinu

Einhverjar breytingar sem þið horfið til?

„Þarna var nú stigið mikið og gott skref árið 2013, þegar farið var út í það innleiða veiða og sleppa á sjóbirtingi. Það er hornsteinninn í þessu og verður það áfram. Þetta er alltof dýrmætur fiskur til að vera að drepa hann. Það eru engar stórvægilegar breytingar fyrirhugaðar. Það eru plön til umræðu varðandi veiðihúsið en það kemur betur í ljós síðar. Það verður hins vegar settur bökunarofn í húsið, eftir fjölmargar ábendingar. Við vissum reyndar af því að þetta þyrfti að laga. Það verður að vera góður bökunarofn í húsi þar sem byrjað er að veiða 1. apríl og veitt er til 20. október. Það verður að vera hægt að koma því raspaða sem mönnum dettur í hug inn í ofn og leyfa því að krauma þar á meðan að þeir klára vaktina.“

Þannig að kótelettan snýr aftur í Skaftártunguna?

„Já. Það má segja það,“ hlær Jón Þór. „Raspurinn er mjög erfiður á vetrargrillinu. Þú þekkir það. Það vill kvikna í þessu. Það er fullreynt.“

Þetta er umtalsverð hækkun á leiguverði. Er hægt að selja þessi leyfi þannig að þetta sér áhugaverður bisness?

Jón Þór dæsir. „Ég veit ekki hvort að það er hægt að selja nokkur veiðileyfi í dag þannig að það sé áhugaverður bisness. En það er alveg rosalega gaman að veiða sjóbirting í Tungufljóti og þetta er algerlega á heimsmælikvarða. Veiðisvæðið, aðgengið og stærðin á fiskunum þarna er í algerum sérklassa. Þú þarft að fara langt út fyrir landsteinana, jafnvel til Argentínu og jafnvel það dugar ekki til, til að finna aðra eins meðalþyngd. Mér er alveg sama hvað menn reyna að bæta við meðalþyngd eða ljúga til sentímetrum í laxveiðiánum okkur. Ég held að engin laxveiðiá eigi roð í meðalþyngdina á fiskum í Tungufljóti. Við vitum það að pund fyrir pund þá er sjóbirtingurinn okkar þyngri en jafnvel stórlaxarnir okkar. Við munum halda nafni þessa frábæra svæðis á lofti og hækka fánastöngina og rífa enn frekar í flaggið og gera allt sem í okkar valdi stendur til að betrumbæta svæðið og aðstöðuna.“

Veiðitímabilið í Tungufljóti hefst 1. apríl. Þá er allra veðra …
Veiðitímabilið í Tungufljóti hefst 1. apríl. Þá er allra veðra von og vorið oft ekki búið að ná yfirhöndinni. Svona var staðan við opnun í fyrra. Smá dönsk hafmeyju stemming yfir þessari mynd þar sem Sigurður Marcus Guðmundsson tyllir sér á ísjaka í fljótinu. Ljósmynd/SMG

Ekki jafnað sig eftir útboðið 2020

Jón Þór segist hafa hugmyndir sem hann telur of snemmt að vera að ræða á þessu stigi en hann segist vera með alls konar pælingar sem hann vill bera undir fiskifræðinga áður en að hann ber þær á borð. „Það er hellingur sem mig langar að gera og ég er mjög spenntur fyrir þessu. Ég hef veitt þetta svæði mikið sjálfur og þekki það því vel. Ég er alveg ofboðslega glaður að vera kominn með þetta undir okkar umsjón.“

Þú ert ekki að ýkja veit ég. Þú ert nánast ástfanginn af þessu svæði og varðst mjög svekktur  þegar þið fenguð ekki samninginn fyrir fimm árum. Þá munaði sáralitlu á ykkur og Fish Partner sem hefur haft ána á leigu síðustu fimm ár.

„Ég hef verið súr í nokkra klukkutíma yfir einhverjum útboðum sem við höfum tekið þátt í og ekki fengið. En ég hef aldrei jafnað mig almennilega á útboðinu í janúar 2020 í Tungufljótið. Ég játa það bara hér með. Þegar verður skálað fyrir þessum samningi þá verður farið í efri hilluna í vínskápnum. Það er alveg ljóst.“

Helgi Páll Helgason tekst á við sjóbirting í Syðri-Hólma, einum …
Helgi Páll Helgason tekst á við sjóbirting í Syðri-Hólma, einum gjöfulasta veiðistað í Tungufljótinu. Ljósmynd/Gunnar Ingvi Þórisson

Útboðið sem Jón Þór vitnar til hér að ofan fór á þann veg að Hreggnasi var rétt fyrir neðan Fish Partner í upphæð sem boðin var. Þar munaði líkast til verði á einum bökunarofni. En nú snerist dæmið við. Hreggnasi var rétt fyrir ofan Fish Partner og hreppti hnossið sem Jón Þór hefur grátið í rétt tæp fimm ár.

Meistaradeildin í sjóbirtingi

Hvað er það sem gerir þig svona ástfanginn af Tungufljótinu?

„Ég held að það sé bara þegar þú færð fyrsta sjóbirtinginn yfir níutíu sentímetra eða jafnvel aðeins minni. Þá áttarðu þig á hvers konar draumastaður þetta er. Að sjá þessa hlunka og slást við þessa fiska er eitthvað annað. Við komum að Laxá í Kjós á sínum tíma og sáum þessa frábæru sjóbirtinga þar og upp í Borgarfirði í Grímsá til dæmis. Þar hefur sjóbirtingurinn verið að sækja í sig veðrið og þetta eru ótrúlega flottir fiskar. Sextíu til sjötíu sentímetra fiskar í „lange baner.“ En Tungufljótið er meistaradeildin í sjóbirtingi. Þetta eru einhverjar allt aðrar skepnur. Menn ferðast í dag gríðarlegar vegalengdir til að veiða stóra birtinga. Ef þú ert Breti og villt fara í stóran sjóbirting þá hafa þeir verið að ferðast niður til Argentínu og borga tíu til fimmtán þúsund dollara fyrir vikuna. Þá er flugið ekki tekið með í reikninginn og þetta er ekkert smá ferðalag. Ég á marga vini og viðskiptavini í norðurhluta Englands. Nú geta þeir skellt sér á flugvöllinn í Manchester og komið sér til Íslands á tveimur til þremur klukkutímum, og verið komnir í fljótið á sex sjö klukkutímum.“

Áttu von á að breskir veiðimenn muni hafa mikinn áhuga á Tungufljótinu?

„Ég veit um stóra kúnna í mínum viðskiptavinahópi sem eru spenntari fyrir þessu en ég, jafnvel. Það þarf mikið til. Fyrri rekstraraðilar hafa unnið brautryðjendastarf í markaðssetningu á sjóbirtingi og haft þessi svæði á sínum höndum. Ég gef Fish Partner kredit fyrir það. Ég held að síðari ár höfum við séð meiri ásókn í silungsveiði á Íslandi og þar með hækkað í verði. Sjóbirtingurinn er líka bara allt önnur skepna en laxinn. Veiðitímabilið er líka annað en í laxinum og það er eins langt og lög leyfa á Íslandi. Það er vissulega tímabil þar sem minna er um að vera en það er þó slangur af laxi í fljótinu og staðbundnum fiski. Við munum líka róa á þau mið.“

Þeir eru svo þykkir og miklir sjóbirtingarnir sem Tungufljótið hefur …
Þeir eru svo þykkir og miklir sjóbirtingarnir sem Tungufljótið hefur að geyma. Jón Þór viðurkennir að verðið á veiðileyfum mun hækka enda hefur leiguverðið náð nýjum hæðum. Ljósmynd/Jón Þór Júlíusson

Netaveiðar í ferskvatni tímaskekkja

En þarf ekki að taka til þarna í umgjörð? Til dæmis netaveiðar í Kúðafljóti sem Tungufljót rennur í. Þarf ekki að breyta einhverju þar?

„Jú. Ég mun leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að laga það. Það hefur hins vegar lagast aðeins af sjálfu sér og ég finn vilja á svæðinu til að ræða þessa hluti í fullri alvöru. Ég fullyrði að það hefur dregið úr netaveiðinni. Þar kemur meðal annars til að kunnátta þeirra sem drógu þarna á til draga björg í bú. Margir af þeim er horfnir yfir móðuna miklu, en vissulega er þetta enn til staðar. En ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að koma þessu einfaldlega í burtu. Enda eru netaveiðar í ferskvatni á Íslandi bara tímaskekkja og gildir einu hvort það er sjóbirtingur eða lax. Við getum ekki verið að kyssa birtinginn bless uppi í fljóti bara til þess að þeir séu drepnir í netum að vori eða hausti niður í Kúðafljóti. Það er ekki á stefnuskránni.“

Þú þarft að hækka verðskrána. Það segir sig sjálft.

„Jú, jú. Það er þannig. Þó svo að við tölum um langt veiðitímabil þá í grunninn er „præm seasonið“ apríl og fram í maí í vorveiðinni og svo er besti tíminn september og október. Fyrstu viðbrögð sem ég er fékk nánast áður en við sögðum frá þessu opinberlega er að ég hefði líklegast getað selt haustið tvisvar eða jafnvel þrisvar sinnum. Það er áður en ég fór að kynna að við værum komin með Tungufljótið á leigu. Hvað varðar verðlagningu, eins og hún er orðin víða þá verður Tungufljót í sjálfsmennsku í fínni aðstöðu sem verður löguð enn frekar, þá eru þessi leyfi fín kaup. Ég get bara fullyrt það og þau gæði sem veiðin þarna er toppar þetta svo alveg.“

Veiði í Tungufljóti hefur verið misjöfn síðustu ár. Í ár eru skráðir tæplega fimm hundruð birtingar í fljótinu inni á rafrænu veiðibókinni Angling iQ og þar af voru fjórir sem náðu 90 sentímetrum eða meira. Ef hins vegar er litið til ársins 2023 þá veiddust ríflega sjö hundruð birtingar og sautján náðu 90 sentímetrum eða meira. Bæði árin var meðafli í laxi í kringum fimmtíu.

Sporðaköst óska Hreggnasamönnum til hamingju með nýja samninginn og þá sérstaklega framkvæmdastjóranum sem eins og sjá mér hér að ofan er að fá langþráðan draum uppfylltan.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert