Stærstu laxar sem veiðst hafa á Íslandi

Stærsti lax sem veiddist á Íslandi sumarið 2020. Hann mældist …
Stærsti lax sem veiddist á Íslandi sumarið 2020. Hann mældist 108 sentímetrar og það var Ingólfur Davíð Sigurðsson sem veiddi hann í Vatnsdalsá. Þeir voru enn stærri hér áður fyrr. Ljósmynd/Aðsend

Í nýútkominni bók Steinars J. Lúðvíkssonar, Drottning norðursins, um Laxá í Aðaldal er merkilegur kafli um stærstu laxa sem veiðst hafa á Íslandi. Margar sögur eru á reiki um þessa allra stærstu fiska en hér hefur Steinar J. tekið saman þessar sögur og þær staðreyndir sem eru þekktar. Bókin Drottning norðursins er heildstætt verk um Laxá í Aðaldal. Hér að neðan er kafli úr bókinni þar sem Steinar J. Lúðvíksson hefur tekið saman umfjöllun um stærstu laxa á Íslandi.

Jakob V. Hafstein, með 36 punda hænginn sem hann veiddi …
Jakob V. Hafstein, með 36 punda hænginn sem hann veiddi í Höfðahyl í Laxá í Aðaldal, 10. júlí 1942. Þetta er stærsti lax veiddur á flugu á Íslandi.

Stærstu laxarnir

Tveir af þremur stærstu löxunum sem veiðst hafa á Íslandi komu ekki á veiðarfæri í ám heldur veiddust í þorskanet í sjó og eru kenndir við þá staði þar sem þeir veiddust og kallaðir Grímseyjarlaxinn og Eldeyjarlaxinn.

Það var hinn 8. apríl 1957 sem Grímseyjarlaxinn veiddist. Óli Bjarnason sjómaður í Grímsey var þá að vitja um þorskanet sem hann lagði skammt vestan eyjarinnar á um 16 metra dýpi og þegar hann dró þau kom gríðarstór lax upp. Sýnilega hafði mikið gengið á. Laxinn hafði fest hausinn í netinu og bókstaflega vöðlað því um sig. Hann var lifandi en mjög af honum dregið. Þegar Óli kom í land tilkynnti hann Veiðimálastofnun um fenginn og tók hún laxinn til rannsóknar sem leiddi í ljós að hann var tíu ára. Laxinn hafði verið gota haustið 1946. Eftir fjögur ár í ánni gekk seiðið til sjávar vorið 1951 og var þá 16 sentimetra langt. Tveimur árum síðar kom hann í ána sína til hrygningar. Þá var hann 120 sentimetrar. Var hann að koma til hrygningar í þriðja sinn er hann lenti í netinu við Grímsey.

Blóðgaður vigtaði laxinn 49 pund. Hann var 132 sentimetra langur og mesta ummál hans var 72 sentimetrar. Sporðblaðkan var 24 sentimetrar að ummáli og 28 sentimetra breið. Hausinn var nálega fjórðungur af lengd fisksins.

Þótt ekki sé hægt að slá því föstu var talið mjög líklegt að laxinn hefði átt heimkynni sín í Laxá í Aðaldal. Svo sem eðlilegt mátti teljast var hann stoppaður upp og er geymdur hjá Veiðimálastofnun. Nokkrum sinnum hefur hann verið hafður til sýnis, m.a. á Húsavík þar sem vanir veiðimenn í Laxá börðu hann augum og kom þá fram að sumir töldu sig hafa séð jafnvel enn stærri laxa í ánni.

Hinn stóra laxinn sem veiddist í þorskanet, Eldeyjarlaxinn, veiddi vélbáturinn Goði frá Keflavík 16. maí 1975 við Eldeyjarboða. Var hann sprelllifandi þegar netið var dregið og svo mikill kraftur í honum að honum tókst að losa sig úr netinu en einn bátsverja brá skjótt við og tókst að festa í hann goggi og ná upp í bátinn. Þessi lax var hængur, 42 pund, 116 sentimetra langur og mesta ummál hans var 63 sentimetrar.

Stílhrein kápa heldur utan um sögu Laxár. Í bókinni, sem …
Stílhrein kápa heldur utan um sögu Laxár. Í bókinni, sem er um leið áttatíu ára saga Laxárfélagsins er ekkert skilið eftir. Höfundur þekkir Laxá vel og verkið er óður til hennar að hluta. Ljósmynd/Bjartur&Veröld

Sögum fer af nokkrum risalöxum úr Laxá í Aðaldal. Þór Guðjónsson veiðimálastjóri skrifaði grein í Náttúrufræðinginn árið 1957 þar sem fjallað er um stóra laxa og getur þess að árið 1895 hafi veiðst 45 punda lax í ádrætti Nesbænda í Vitaðsgjafa og segir hann að þeir Sigurður Guðmundsson og Jakob Þorgrímsson hafi veitt fiskinn. Þór segir ennfremur að á jóladag árið 1929 hafi Sigurður Sigurðsson á Núpum fundið dauðan lax í Laxá og var hann 133 sentimetra langur. Taldi Sigurður að laxinn hefði verið um 36 pund og segir Þór það líklegt að hann hafi því verið tæp 50 pund er hann gekk í ána. Annan dauðan stórlax fann Jón H. Þorbergsson á Laxamýri á Kiðeyjarbroti á þorra árið 1941. Hræið var 33 pund og má því telja víst að nýgenginn hafi þessi lax verið um eða yfir 40 pund.

Þá getur Heimir Sigurðsson þess í viðtali í Veiðimanninum að enskur maður, Lanton að nafni, hafi veitt lax sem var um 39 pund í Grástraumi. Vera má að sá fiskur hafi verið tekinn á flugu en engar sannanir eru fyrir hendi og laxinn sem Jakob V. Hafstein veiddi í Höfðahyl 1942 því talinn stærsti flugulaxinn sem veiðst hefur hérlendis, 36,5 pund.

Laxá í Aðaldal var ekki eina áin á Íslandi sem hýsti stórlaxa. Á vatnasvæðum Hvítár í Borgarfirði og Ölfusár/Hvítár í Árnessýslu veiddust slíkir laxar. Í landi Flóðatanga í Borgarfirði veiddist í net stærsti lax sem sögum fer af hérlendis. Heimildum ber ekki saman um þyngd hans, sumar segja að hann hafi verið 70 pund, en aðrar nefna 64 eða 65 pund. Ekki er heldur vitað hvaða ár þessi stórfiskur veiddist en líklega hefur það verið um eða eftir miðja nítjándu öld.

Það þarf ekki alltaf miklar ár til að stórfiskar veiðist. Það sannaðist rækilega 24. júní 1992 er stærsti lax sem veiðst hefur á stöng hérlendis kom á land í Bakkaá í Bakkafirði. Hann reyndist vera 130 sentimetrar að lengd og vega 43 pund. Veiðimaðurinn sem landaði þessum risafiski var Marinó Jónsson og var hann ekki með merkileg veiðarfæri. Stöngina keypti hann á bensínstöð og fylgdu henni nokkrir spónar og glaptist laxinn á einn þeirra. Ekki fór miklum sögum af löndun fisksins en hún mun hafa gengið fljótt og vel fyrir sig. Lífssaga laxins var síðan lesin hjá Veiðimálastofnun og kom í ljós að hann var 11 ára og hafði tvívegis gengið í á og hrygnt og var á leið til sjávar þegar hann veiddist – var hoplax. Giskuðu menn á að hann hefði verið um eða yfir 50 pund er hann gekk síðast upp í ána.

Næststærsta lax sem veiðst hefur á stöng á Íslandi veiddi Kristinn Sveinsson á spón í Iðu í Hvítá í Árnessýslu 13. júní árið 1946. Það var 38,5 punda hrygna, 115 sentimetra löng. Snemma í september árið 1952 veiddi svo Víglundur Guðmundsson bifreiðarstjóri risalax á minnow í Brúará þar sem hún fellur í Hvítá. Reyndist sá lax vera 37,5 pund og 122 sentimetra langur.

Fyrstu tvo áratugina sem stangveiði var stunduð í Laxá í Aðaldal veiddust fleiri laxar sem voru yfir 30 pund en þeir sem ná 20 pundum hin síðari ár. Eðlileg er sú spurning hvort stórlaxarnir eins og þeir voru í „gamla daga“ heyri sögunni til eða hvort sá tími komi að þeirra verði vart að nýju og jafnframt er spurt hvernig á því standi að laxastofninn í Laxá í Aðaldal og fleiri ám fari stöðugt smækkandi. Sá kunni veiðigarpur Snorri Jónsson á Húsavík gaf einfalt svar við seinni spurningunni í grein sem hann skrifaði árið 1980. „Hann hefur ekki tíma til að verða stór.“ Snorri segir ennfremur að þegar stangaveiði var að hefjast þar nyrðra hefðu veiðimenn verið sárafáir og litið á þá sem hálfgerð viðundur. Slíkur veiðiskapur hafi síðan orðið almenningseign og munurinn nú og þá sé sá að meirihlutinn sem stundar veiðarnar séu fiskimenn en ekki veiðimenn. Stöngum hafi stöðugt verið fjölgað í Laxá. Tilburðir til að auka veiði með klaki og seiðasleppingum breyti engu um að áin sé ofveidd. „Friðum árnar, fækkum í þeim stangafjöldanum og stórlaxinn kemur aftur,“ segir Snorri.

Lýkur hér kaflanum en þetta er merk og góð samantekt á þessum allra stærstu löxum sem veiðst hafa hér á og við land. Þá er afar áhugavert að lesa tilvitnunina í Snorra Jónsson á Húsavík, hér að ofan, þegar menn velta fyrir sér hvernig standi á laxastofnar fari smækkandi. „Hann hefur ekki tíma til að verða stór.“

Hér að neðan er mynd af risavöxnum laxi sem veiddist í fyrra í Danmörku í ánni Skjern. Raunar veiddist laxinn í hliðaránni Omme sem telst til vatnasvæðis Skjern. Þannig að þessir allra stærstu er enn til og aldrei að vita hvenær sagan endurtekur sig.

Feðgarnir Jesper og Niels með stærsta lax sem veiðst hefur …
Feðgarnir Jesper og Niels með stærsta lax sem veiðst hefur á flugu í Danmörku. Þessi veiddist í fyrra og mældist laxinn 130 sentímetrar og þyngd 21 kíló. Þannig að þeir eru enn til þessir allra stærstu. Ljósmynd/Terkel Broe Christensen

Kaflinn hér að ofan er birtur með leyfi höfundar og útgefanda og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka