Staðfest hefur verið meira flakk laxa á milli veiðiáa en almennt hefur verið talið. Hér er um ræða rannsóknir í ám Six Rivers Iceland sem leigir og rekur laxveiðiár á Norðausturhorninu.
Merktir voru 404 laxar með slöngumerkjum. Hver á var með sinn lit á slöngumerkjum. Þessi merki gáfu sérlega áhugaverða niðurstöðu. Ef við skoðum fyrst endurveiðina þá voru merktir 178 laxar í Selá í Vopnafirði. 42 þeirra eða 25% endurveiddust og fjórum var landað þrisvar. Í Hofsá voru merktir 137 laxar og 30 eða 24% endurveiddust. Tveimur var svo landað í þriðja skiptið. Í Hafralónsá voru 42 fiskar merktir með slöngumerkjum og 8 þeirra, eða 18% veiddust aftur. Einum úr þessum hópi var svo landað í þriðja skipti.
En þá kannski að því sem kom mest á óvart og það var flakkið á milli áa. Rétt er að ítreka að sérstakur litur slöngumerkja var notaður fyrir hverja á. Þannig að ekki fór á milli mála þegar fiskur veiddist með slöngumerki í hvaða á hann hafði verið merktur. Þannig veiddust þrír laxar sem voru merktir í Selá í öðrum ám. Tveir þeirra veiddust í Hofsá, þar sem ekki er langt á milli ósa þeirra áa. En svo var einn sem skipti um skoðun og gekk niður úr Selá í sjó á nýjan leik og synti norður fyrir Langanes og upp í Hafralónsá.
Einn lax sem merktur var í Hofsá veiddist á nýjan leik í Hafralónsá. Sá hafði líka farið fyrir Langanesið. En Hafralónsá var greinilega ekki það himnaríki sem sumir fiskar héldu því einn lax slöngumerktur í Hafralónsá veiddist í Hofsá.
Stefán Hrafnsson, leiðsögumaður, ásamt þeim Sveini „Denna“ Björnssyni og hinum danska vísindamanni, Rasmus Lauridsen sem jafnframt er rannsóknastjóri Six Rivers Iceland, hafa haft veg og vanda að þeim rannsóknum sem SRI hefur stundað með merkingum.
Stefán Hrafnsson kynnti þessar niðurstöður á opnum landeigendafundi sem haldinn var í Vopnafirði í lok marsmánaðar. Þegar horft er til flakksins þá endurveiddust 89 af 404 slöngumerktum löxum á svæði SRI. Átta þeirra, eða 9% veiddust í öðrum ám en þeir voru merktir í. Sagði Stefán i sinni kynningu að ef horft væri til þess að um þrjú þúsund laxar gengju upp í ár félagsins þá jafngilti það því að 270 laxar flökkuðu milli áa á svæðinu. Þá bætti Stefán við að það hefðu líka verið fiskar með radíómerki sem þeir stóðu að þessum búferlaflutningum. Bæta á í við þessar rannsóknir í sumar til að sjá betur hversu algengt þetta flakk milli áa er.
Þetta er afskaplega fróðlegt og ekki síst í ljósi þess að mikið er rætt um ratvísi laxins. Stundum er jafnvel talað um þefskyn laxins. Ef við skoðun betur myndina sem sýnir hvernig laxar flökkuðu milli áa þá er ljóst að upptök þessara áa er allt á mjög afmörkuðu svæði. Kannski bara nokkur hundruð metrar sem skilur á milli hvort bráðinn snjór úr sama fjalli ratar í þessa eða hina ána. Svo kunna að vera aðrar ástæður fyrir þessu flakki. En það kemur sjálfsagt mörgum á óvart að lax sem hefur aðlagast fersku vatni skuli ganga aftur í saltan sjó og synda um langan veg fyrir Langanes.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |