„Ekki má sleppa veiddum fiski“

Unadalsá rennur um Unadal og á ós á Hofsósi. Áin …
Unadalsá rennur um Unadal og á ós á Hofsósi. Áin er í útboði og nýr leigutaki tekur væntanlega við í sumar. Ljósmynd/Angling

„Ekki má sleppa veiddum fiski.“ Svona hljóðar eitt af þeim atriðum sem sett er fram í útboðslýsingu á veiðirétti í Unadalsá (Hofsá) í Skagafirði. Hjörleifur Jóhannesson formaður veiðifélagsins staðfestir þetta og segist ekki líta á veiða og sleppa sem veiðiskap. 

Unadalsá er fyrst og fremst bleikjuá og er nú auglýst eftir tilboðum í veiðirétt til fimm ára. Frá og með 2025 og út sumarið 2029. 

Fram kemur í útboðslýsingu að leyfðar eru þrjár stangir og einungis er heimilt að veiða á flugu með flugustöng nema sérstaklega sé samið um annað.

En að ekki megi sleppa veiddum fiski er nýmæli, í það minnsta eins langt aftur og Sporðaköst muna. „Okkur finnst þetta veiða og sleppa bara argasta snobb og þetta skilar engu. Það eru til tölur sem sýna það að þetta skilar engu til dæmis til fjölgunar á fiski,“ sagði Hjörleifur í samtali við Sporðaköst.

Aðspurður hvaða viðurlög liggi við því ef veiðimaður yrði staðinn að því að sleppa fiski, hlær Hjörleifur. „Hann yrði ekki laminn. Þarna fyrir norðan trúum við því að menn séu heiðarlegir og að orð standi. Ég bý nú á höfuðborgarsvæðinu og hef séð að því miður er það hverfandi eiginleiki að menn séu menn orða sinna. En við tökum ennþá séns á því þarna fyrir norðan að menn séu verðugir orða sinna.“

Hjörleifur segir að Unadalsá sé eingöngu bleikjuá og að hún gangi í ána í mestu magni síðsumars. Þar hafi aldrei veiðst lax svo hann viti til. Einhvern tíma hafi verið gerð tilraun með að sleppa laxaseiðum en áin sé of köld fyrir laxinn. Veiði á hverju ári sé ekki mikil. Nokkrir tugir af sjóbleikju. „Við erum bara í samkeppni við minkinn um bleikjuna.“

En þetta er einsdæmi sem skilyrði í útboði á veiðiá.

„Okkur þarna í sveitinni finnst veiða og sleppa afskaplega hallærisleg aðferð við að skemmta sér. Menn gætu alveg eins haft gaman af því að sparka í hesta,“ segir Hjörleifur.

Ekki var einhugur í stjórn veiðifélagsins um útboðsskilmála. Segir Hjörleifur að fulltrúa sveitarfélagsins sem á stóran hlut í ánni, hafi fundist þetta afleitt þegar samþykkt var að taka inn þetta skilyrði. Hjörleifur segir að fulltrúi sveitarfélagsins hafi lýst því yfir að þetta myndi rýra gildi árinnar. „Ég sagði honum að mér væri alveg sama. Mér væri sama þó að kæmu færri karlar í dýrum vaðstígvélum og stæðu í ánni. Ég vil miklu frekar að komi þá færri og reyki fiskinn eða éti bara beint. Við erum bara risaeðlur eins og þú segir.“

Hjörleifur rifjar upp þegar hann ungur maður veiddi Blöndu kolmórauða með þríkrækjum með föður sínum. „Það þótti tittur ef hann var undir fimmtán pundum. Það var aldrei rætt að sleppa fiski enda var maður orðinn kokfullur af reyktum laxi þegar líða fór að vori.“

Frestur til að skila inn tilboðum er til 7. maí og verða þau opnuð á skrifstofu Landssambands veiðifélaga klukkan 15 þann dag. Hjörleifur segist vita til þess að menn séu að sjóða saman tilboð, menn upp á gamla móðinn sem „veiði og éti.“

Unadalsá rennur um Unadal og í gegnum Hofsós og á ós skammt sunnan við höfnina á Hofsósi.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert