Öllum vistmönnum boðið í Hlíðarvatn

Ein glæsileg bleikja í Kaldósnum komin í háfinn hjá Jonna …
Ein glæsileg bleikja í Kaldósnum komin í háfinn hjá Jonna leiðsögumanni. Ljósmynd/Sporðaköst

„Ég stunda Hlíðarvatnið mikið og þá keyrir maður alltaf framhjá Krýsuvíkurskólanum og ég þekki það frábæra starf sem þar er unnið. Svo var það í vetur að ég fékk þá hugmynd að búa til veiðidag fyrir alla vistmenn. Það var töluverður undirbúningur sem fór í þetta og ég náði að koma þessu saman og það voru allir til,“ upplýsir Ívar Bragason fluguveiðimaður. Hann var aðalhvatamaður að veiðidegi sem haldinn var í vikunni í Hlíðarvatni fyrir alla vistmenn sem dvelja á meðferðarheimilinu Krýsuvík.

Mæting var klukkan átta við Krýsuvík. Veðrið var tuttugu gráður og nánast logn. Ríflega tuttugu manns voru mætt á tröppunum og það var eftirvænting í loftinu. Í þessum hópi voru allar útgáfur. Sumir þekktu vel til fluguveiði. Aðrir höfðu aldrei sveiflað flugustöng. Leiðsögumenn voru mættir, Jóhann Birgisson og Helgi Guðbrandsson, sem báðir hafa stundað leiðsögn áratugum saman. Eiga síðustu ár lögheimili í Miðfjarðará yfir veiðitímabilið. Ívar var sjálfur í leiðsögn og einnig Páll Gísli Jónsson sem starfar á Krýsuvík og er mikill fluguveiðimaður. Sporðaköst slógust með í hópinn.

Úr varð eftirminnilegur dagur fyrir alla. Spánarblíða og margir voru …
Úr varð eftirminnilegur dagur fyrir alla. Spánarblíða og margir voru að kynnast fluguveiði í fyrsta skipti. Ljósmynd/Ívar Bragason

Liðinu var skipt í nokkra bíla og haldið á fyrirfram ákveðna staði. Botnavíkin, Guðrúnarvík og Kaldós var fyrsta stopp.

„Þetta lyftir andanum“

Elías Guðmundsson framkvæmdastjóri í Krýsuvík sagði í samtali við Sporðaköst að svona uppákomur væru afskaplega dýrmætar. „Þetta lyftir andanum. Það er líka mjög gaman þegar mætir hópur af fólki og er að sýna þeim áhuga og á þeirra forsendum. Það var eftirvænting og þetta er mikið uppbrot. Fólk er hjá okkur í hálft ár eða lengur þannig að það er alltaf gaman að fá svona mikla tilbreytingu,“ sagði Elías í samtali við Sporðaköst.

Veiði byrjaði rólega. Klakið sem hafði verið í gangi í óvenjulega sumarhitanum í maí var búið í bili og bleikjan var hreinlega ekki í tökustuði um morguninn. Nokkrar í fullorðinsflokki sáust svamla með ströndinni og það glæðir áhugann enn frekar. Takan var dræm og lítið að gerast. Það var blásið til hádegisverðar og grillaður þjóðarrétturinn pylsa í brauði og kartöflusalat með. Útigrillaðar pylsur á sólskinsdegi verða seint toppaðar. En það var bara hálfleikur.

Ævintýrasmiðurinn, Ívar Bragason tekur sjálfu í mikilli birtu. Með honum …
Ævintýrasmiðurinn, Ívar Bragason tekur sjálfu í mikilli birtu. Með honum eru Helgi Guðbrandsson og Jóhann Birgisson, leiðsögumenn og Sporðaköst fengu að fljóta með. Ljósmynd/Ívar Bragason

„Til okkar kemur mest fólk sem hefur reynt aðrar meðferðir og ekki gengið. Styrkurinn okkar er að við erum langtíma meðferð eða sex mánuðir. Við reynum að mæta okkar fólki á þeirra forsendum og meta í hverju tilviki á hvaða stað þau eru og taka þau þaðan áfram,“ segir Elías. 

Rúmlega hundrað á biðlista

Biðlistinn hefur verið að lengjast og það þrátt fyrir rýmum hafi verið fjölgað. Nú geta tæplega þrjátíu manns verið í húsinu og er það aukning úr sautján manns fyrir nokkru. Elías segir að biðlistinn í dag sé rúmlega hundrað manns og hann stækki. „Í fyrra sóttu um að koma til okkar 226 einstaklingar. Af þeim komust bara 36 inn. Við höfum tekið inn 24 á þessu ári, af þeim sem sóttu um í fyrra.“

Eftir pylsurnar ljúffengu báru leiðsögumenn saman bækur sínar og í ljós kom að Kaldósinn hafði verið líklegastur. Þar höfðu verið nokkrar grannar tökur og ein bleikja misst. Var ákveðið að leggja áherslu á það svæði og reyna til þrautar.

Gáfu stangir, vöðlur og veiðileyfi

Allir vistmenn sem tóku þátt fengu vöðlur og veiðigræjur. Þar hafði Ívar Bragason verið ötull og leitað til veiðiverslana og veiðiréttarhafa við vatnið. Árblik í Þorlákshöfn, Stangaveiðifélag Hafnarfjarðar og Selfoss gáfu veiðileyfi fyrir daginn, samtals níu stangir. „Þetta dæmi hefði aldrei gengið upp nema vegna styrktaraðila sem tóku okkur mjög vel. Veiðiportið, Veiðifélagið, Vesturröst, Veiðibúllan og Veiðiflugur gáfu búnað. Allt frá vöðlum, stöngum og hjólum og yfir í flugur. Svo gáfu leiðsögumennirnir sína vinnu og þetta var bara fallegt samfélagslegt verkefni,“ upplýsti Ívar Bragason. Hann og Jóhann og Helgi höfðu viku fyrir veiðidaginn haldið fund með vistmönnum og kynnt fyrir þeim Hlíðarvatnið. Það var svo sannarlega búið að kveikja áhugann.

Hvað tók hún, var spurt. Jonni rétti fram fluguna. Þessa.
Hvað tók hún, var spurt. Jonni rétti fram fluguna. Þessa. Ljósmynd/Sporðaköst

Kaldósinn gaf fljótlega fisk. Tveggja punda bleikja féll fyrir litlum kúluhaus, sennilega númer átján. Svartur. Það lifnaði yfir mannskapnum. Enda var fljótlega sett í aðra og það var væn bleikja. Hún slapp en tökurnar urðu fleiri og nokkrar svona ekta eintök eins og veiðimenn eru að leita að í Hlíðarvatni komu á land.

Frábær árangur næst í Krýsuvík

Krýsuvíkursamtökin mæla árangur og fylgja eftir sínum skjólstæðingum og hafa gert það í tuttugu ár. Nýjar tölur komu í mars mánuði og sagði Elías að þær hefðu leitt í ljós að eins árs edrúmennska var 77% og tveggja ára edrúmennska 67%. Það er frábær árangur og sýnir hversu öflugt starf er unnið í Krýsuvík. Þar starfa áfengisráðgjafar, áfallaráðgjafar, framkvæmdastjóri, læknar, matreiðslumenn, staðarhaldari og kennarar. „Hópurinn sem var hjá okkur á árunum 2021 til 2024 er það fólk sem við höfum verið að fylgja eftir núna. Mér finnst það líka mjög gott að í þeim hópi var um helmingur með grunnskólapróf sem mestu menntun. Þriðjungur hópsins bætti við sig menntun á tímanum og tóku stúdentspróf eða aðra menntun. Þá hefur fjölgað mjög þeim sem eru komin út á vinnumarkað. Þetta eru allt tölur sem skipta samfélagið miklu máli,“ sagði Elías.

Jonni og Helgi fylgjast með lærisveinum sínum og virðast nokkuð …
Jonni og Helgi fylgjast með lærisveinum sínum og virðast nokkuð sáttir. Í baksýn er svo Páll Gísli Jónsson. Ljósmynd/Sporðaköst

Það fréttist af fallegri bleikju sem veiddist á Réttarnefi og önnur sem misstist í Hlíðarey. Kaldósinn gaf nokkrar í viðbót og það dugði til að ná því undirliggjandi markmiði að geta boðið öllum upp á forrétt þegar heim var komið. Bleikjan var grafin og allir sem vildu fengu smakk. 

Ánægjan skein úr sólbökuðum andlitum þegar kveðjustund rann upp síðdegis. Heyra mátti bollaleggingar vistmanna um kastæfingar og jafnvel eitthvað miklu meira. Þessi dagur lukkaðist hundrað prósent. En oft þarf eldhuga og ákafamenn sem láta ekkert stoppa sig eins og Ívar Bragason til að búa til ævintýri sem snerta svo marga þegar upp er staðið.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert