Besta opnun í Þverá frá 2016

Meistaradeildin. Aðalsteinn Pétursson með allt í keng og Andrés Eyjólfsson …
Meistaradeildin. Aðalsteinn Pétursson með allt í keng og Andrés Eyjólfsson klár með háfinn. Þeir lönduðu þremur í Klapparfljótinu í morgun. Ljósmynd/Ingólfur Ásgeirsson

Formlegri opnun í Þverá í Borgarfirði lauk í hádeginu. Veitt var á átta stangir í tvo og hálfan dag og skilaði það 26 löxum á land. „Þetta er besta opnun frá því árið 2016,“ upplýsti Ingólfur Ásgeirsson leigutaki Þverár í samtali við Sporðaköst.

Og aftur er Aðalsteinn með allt í keng. Opnuninni lauk …
Og aftur er Aðalsteinn með allt í keng. Opnuninni lauk á hádegi og skilaði 26 löxum. Sú besta síðan 2015. Ljósmynd/Ingólfur Ásgeirsson

Sjö laxar veiddust í morgun og er það mat Ingólfs að laxinn sé í hraðri göngu enda skilyrði eins góð og þau geta orðið. „Hann er lagstur í Kirkjustreng og á nokkra aðra hefðbundna staði en annars er hann í göngu.“ Nefndi Ingólfur sem dæmi að hann hefði sjálfur skotist í Arnarstreng sem er á svæði sjö og fengið þar 70 sentímetra smálax. Dæmigerður göngustaður. Klapparfljótið gerði vel við Ingólf og gömlu meistarana Aðalstein Pétursson og Andrés Eyjólfsson en þeir lönduðu þremur þar í morgun. Allt fiskar ríflega 80 sentímetrar. Samanlagður starfsaldur þeirra Alla og Andrésar við Þverá telur fjölmarga áratugi.

Andrés með lax úr Kirkjustreng og leigutakinn, Ingólfur Ásgeirsson var …
Andrés með lax úr Kirkjustreng og leigutakinn, Ingólfur Ásgeirsson var á háfnum að þessu sinni. Ljósmynd/Alli P.

Opnunin í Þverá 2016 var einstök. 53 laxar veiddust og svo kom að Kjarrá. Þá fór veiðin í tæplega hundrað laxa. Ingólfur leigutaki er að fara þar í opnun á sunnudag. Hann veit sem er að við þessar aðstæður þá er töluvert af fiski þegar komið uppeftir. Hann þorir ekki, eða vill ekki spá fyrir um opnun þar efra. Telur slíkt ekki skynsamlegt. Það er sjálfsagt rétt en Kjarrár sérfræðingar horfa stórum augum uppeftir, sérstaklega eftir þessa opnun núna í Þverá. „Við tökum glaðir við öllu því sem bíður okkar þar upp frá,“ sagði Ingólfur.

Styrmir Elí Ingólfsson fékk þennan í Ármótakvörn í morgun. Samtals …
Styrmir Elí Ingólfsson fékk þennan í Ármótakvörn í morgun. Samtals veiddust sjö í morgun. Ljósmynd/E.K.

Sumarið í fyrra gaf mjög góða veiði í Þverá/Kjarrá og var 2.239 löxum landað og er það besta árið frá 2018 þegar veiddust 2.472 laxar. Svo kom þurrkasumarið mikla 2019 og það hafi gríðarlega mikil áhrif þar til í fyrra. Góðar göngur af smálaxi í Þverá/Kjarrá gefa góð fyrirheit um stórlax þar í sumar. Fyrirboða þess má væntanlega sjá í opnuninni í Þverá. Svo er náttúran engum háð og oft ófyrirsjáanleg.

Athugasemd

Upphaflega fréttin sagði besta opnun frá 2015. Hið rétta er að stóra opnunin í Þverá/Kjarrá var 2016. Hefur þetta verið leiðrétt.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Miðfjarðará Eduardo 2. júlí 2.7.
100 cm Sandá í Þistilfirði Eiður Pétursson 24. júní 24.6.
Veiðiárið 2024:
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert