Miðfjarðará og Kjós núlluðu – Kjarrá 5

Birgir Örn Brynjólfsson með lax sem hann fékk í morgun …
Birgir Örn Brynjólfsson með lax sem hann fékk í morgun í Kjarrá á Gilsbakkaeyrum. Fimm komu á land þar á opnunarvakt. Ljósmynd/Ingólfur Ásgeirsson

Öðruvísi mér áður brá. Veiðimenn sem opnuðu Miðfjarðará og Laxá í Kjós lönduðu engum laxi í morgun. Sett var í nokkra laxa í báðum ám en enginn kom á land. Í Kjarrá lönduðu veiðimenn fimm löxum og misstu fjóra.

Í Kjarrá vissu menn að fyrsta vorgangan var komin upp eftir. Það stóð líka heima að þar setti meistari Tóti tönn í þann fyrsta nánast í fyrsta kasti í Réttarhyl. Reyndist vera 80 sentímetra hrygna. Þessi 87 ára höfðingi gaf þar með tóninn. Þá veiddust fjórir aðrir laxar og voru þeir allir áþekkir að stærð og sá sem Tóti fékk. Fjórir laxar misstust og heilt yfir voru menn sáttir með þessa fyrstu vakt. Veitt er á sjö stangir í Kjarrá og stendur opnun þar í þrjá og hálfan dag. Ingólfur Ásgeirsson leigutaki segir að það sé gert svo allar stangir nái öllum svæðum tvisvar. „Vatnið núna í Kjarrá er eins og gott júlí vatn, segja þeir sem best þekkja til.“

Erlendur veiðimaður þreytir lax í Kjarrá í morgun og undirbýr …
Erlendur veiðimaður þreytir lax í Kjarrá í morgun og undirbýr löndun. Ljósmynd/Ingólfur Ásgeirsson

Í Miðfjarðará gerðist það í fyrsta skipti frá því að Rafn Valur Alfreðsson tók við ánni, að opnunarholl kom í hús eftir fyrstu vakt og fisklausir. „Það er bara ekki mikið af fiski í henni, enn sem komið er. Menn sáu fiska á nokkrum stöðum og misstu fiska í Klettspolli í Austurá og annan í Kistunum í Vesturá. Þetta kom mér vissulega á óvart en við höfum upplifað erfiðar opnanir og gott veiðisumar og góðar opnanir og slakt veiðisumar. Séð allar útgáfur og það er lítið hægt að lesa í hvernig tímabilið verður, út frá þessu. Hann kemur,“ sagði Rafn Valur Alfreðsson í samtali við Sporðaköst. 

Sjálfur veiddi hann neðsta svæðið í morgun, sjálfa Miðfjarðará og sá ekki fisk.

Birgir Örn þreytir laxinn á Gilsbakkaeyrum. Sól og varla ský …
Birgir Örn þreytir laxinn á Gilsbakkaeyrum. Sól og varla ský á himni. Ljósmynd/Ingólfur Ásgeirsson

Í Laxá í Kjós hófst veiði einnig í morgun. Þar er vatnsleysi farið að setja mark sitt á Kjósina. En eins og í Miðfirðinum var engum laxi landað í morgun. „Það er töluvert síðan að við sáum fyrstu laxana og það er komið drjúgt af fiski. Vissulega setti fólk í laxa en þeir sluppu. Skilyrðin eru vægast sagt ömurleg. Stíf vestanátt ísköld upp ána og áin hefur ekki verið svona vatnslítil í þrjátíu ár, ef undanskilið er 2019. Við þurfum að bíða eftir að skilyrði batni. Hann er mættur og okkar tími mun koma,“ sagði Haraldur Eiríksson leigutaki í Kjós.

Veitt er á fjórar stangir í opnun í Kjósinni og ef að hægir með kvöldinu þá fáum við myndir bæði úr Kjós og Miðfirði.

Tóti með þann fyrsta í morgun úr Kjarrá. Það er …
Tóti með þann fyrsta í morgun úr Kjarrá. Það er svo við hæfi að Tóti tönn fékk fyrsta laxinn í Kjarrá 2025. Ljósmynd/Egill Guðjohnsen
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Miðfjarðará Eduardo 2. júlí 2.7.
100 cm Sandá í Þistilfirði Eiður Pétursson 24. júní 24.6.
Veiðiárið 2024:
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert