Fjórtán laxar veiddust í opnunarhollinu í Miðfjarðará, sem lauk á hádegi. Meðallengd fiskanna var frekar mögnuð, eða 85 sentímetrar. Sá stærsti var 96 sentímetra fiskur sem veiddist í dag í Spenastreng. Rafn Valur Alfreðsson, leigutaki segist sáttur. „Við horfum oft til þess að opnanir á bilinu 15 til 20 laxar sé ágætisbyrjun. Þetta er ekki langt frá því. Fiskurinn er sérlega vel haldinn og það er góðs viti,“ sagði Rafn í samtali við Sporðaköst.
Það er búin að vera nokkur dramatík í veiðinni og í gær komu tveir fyrstu laxarnir úr Vesturá og báðum var landað með brotinni stöng. 90 sentímetra lax tók hitch hjá Valgarði Ragnarssyni og lauk þeirri viðureign með því að stöngin brotnaði, en fiskurinn náðist. Þetta var í Hlíðarfossi þar sem getur verið óhægt um vik.
Stefán Ákason segir farir sínar ekki sléttar eftir viðeign við 88 sentímetra lax í Kerafossi. Stefán setti í fiskinn sem ólmaðist í burtu og þurfti Stefán að hlaupa. Þrátt fyrir að vera léttur á sér og snar í snúningum þegar mikið liggur við hrasaði Stefán og stakkst á bólakaf í ána. Ekki vildi betur til en svo að stöngin tvíbrotnaði og Stefán snerist á ökkla. Laxinn náðist og mældist eins og fyrr segir 88 sentímetrar.
Opnunin í fyrra gaf heldur færri laxa. Þá veiddust 10 fiskar og úr varð gott sumar. Hvað þessi opnun ber í skauti sér er ógerningur um að spá. Best er að vitna í Guðna Guðbergsson fiskifræðing sem sagði geta verið klár með góða spá í september, þegar hann var spurður hvernig sumarið yrði.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
103 cm | Miðfjarðará | Eduardo | 2. júlí 2.7. |
100 cm | Sandá í Þistilfirði | Eiður Pétursson | 24. júní 24.6. |
Veiðiárið 2024: | |||
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |