Ratcliffe fjölskyldan hefur síðustu daga opnað laxveiðiár Six Rivers Iceland á Norðausturhorninu. Six Rivers er félag Jim Ratcliffe sem á hlut í og leigir, Selá, Hofsá, Hafralónsá Miðfjarðará og Vesturdalsá.
Fyrst var Selá opnuð og í gær landaði Jim Ratcliffe tveimur löxum, öðrum í Bjarnarhyl og hinum úr Fossi. Síðustu daga hafa gengið sjö til átta laxar á dag í gegnum teljarann í Selá og segir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Six rivers að það sé fáheyrt að svo margir laxar hafi gengið í gegnum teljarann á þessum tíma, svo snemma sumars.
Hafralónsá var opnuð í morgun og þar var fjórum löxum landað. Tveimur í Gústa og öðrum tveimur í Stapa. Einn af þessum fjórum var smálax, hængur og telst það til tíðinda að smálax veiðist svo snemma í Hafralónsá.
Næsta verkefni var Miðfjarðará og náðist þar lax í Réttarhyl. Hofsá var veidd í gær á neðri svæðum en þar fékkst ekki lax og stóð til að fara aftur þangað á seinni vaktinni. Raunar gerðist það einmitt í þessum skrifuðu orðum. Sam Ratcliffe landaði hnausþykkum tveggja ára laxi úr Netahyl.
„Það er kominn fiskur í allar árnar og árferðið er gott. Allt orðið iðagrænt og komin slikja á botninn enda veður verið einstaklega gott. Við erum í sjálfu sér ekkert að lesa í þá stöðu sem við sjáum í ánum og teljurum. Þetta er punktstaða og lítið hægt að álykta um sumarið í heild sinni út frá því. Vissulega eru þetta góðar vísbendingar en ekkert meira,“ sagði Gísli Ásgeirsson í samtali við Sporðaköst.
Óhætt er að segja að veiðiálagið í þessum opnunum er ekki mikið. Jim Ratcliffe dvelur á svæðinu og opnar árnar með fjölskyldu og vinum. Eftir að hann hefur lokið sér af tekur við hefðbundnari veiði. Kvótasetningar í ánum, eins og í Hofsá og Selá gera það að verkum að erfitt er að bera saman veiðina nú í sumar, við fyrri ár. Einungis er heimilt að veiða fjóra laxa í Selá og eftir það er veiði hætt á þeirri vaktinni. Öllum fiski er sleppt.
Félagið Six Rivers er óhagnaðardrifið félag sem hefur það að markmiði að vernda Atlantshafslaxinn. Stórlega hefur verið dregið úr veiðiálagi í ám félagsins og mikið rannsóknarstarf fer þar fram.
Eigandi Six Rivers Iceland er Jim Ratcliffe sem er einn auðugasti maður Bretlandseyja. Hann á stórveldið Ineos og ekki mál gleyma hlut hans í hinu fornfræga knattspyrnufélagi Manchester United. Gengi þess síðast nefnda hefur ekki verið upp á marga fiska en með kaupum á hlutabréfum í félaginu tekst Jim Ratcliffe á hendur svipuð áskorun og með Atlantshafslaxinn. Hefja félagið í hæstu hæðir á nýjan leik. Á báðum vígstöðvum er verk að vinna og miðað við fyrstu göngur í Vopnafjörðinn virðist Jim vera að gera betur þegar kemur að laxinum en með Manchester United.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
103 cm | Miðfjarðará | Eduardo | 2. júlí 2.7. |
100 cm | Sandá í Þistilfirði | Eiður Pétursson | 24. júní 24.6. |
Veiðiárið 2024: | |||
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |