Bólgin Jökla gaf sex á opnunarvakt

Antonio frá Spáni með lax úr Jöklu í morgun. Biðin …
Antonio frá Spáni með lax úr Jöklu í morgun. Biðin er á enda hjá Þresti Elliðasyni og fyrstu gestir í Jöklu eru komnir á blað. Þumall upp þegar búið var að landa þeim fyrsta. Ljósmynd/Strengir

Nokkrar spennandi opnanir laxveiðiáa standa nú yfir. Jökla opnaði í morgun og veiði hófst í Laxá á Ásum í gærmorgun. Fréttir úr báðum þessum ám hafa verið á einn veg. Töluvert af laxi að ganga og langt síðan að þeir fyrstu sáust.

90 sentímetrar. Ekki amalegur fyrsti lax í túrnum hjá Charles …
90 sentímetrar. Ekki amalegur fyrsti lax í túrnum hjá Charles Gonzales. Veiðistaður er Hvalbakur. Ljósmynd/Þröstur Elliðason

Jökla opnaði svo í morgun. Þar sáust laxar óvenju snemma og margir horfa austur, hvernig þar muni ganga eftir frábært ár í fyrra. Veiðimenn frá Spáni eru fyrstu gestir Þrastar Elliðasonar í Jöklu þetta árið. Þeir eru að veiða á fimm stangir og þetta eru vanir Jöklumenn. Fyrsti laxinn kom reyndar úr einni af hliðarám Jöklu, Laxá. Enriq frá Spáni var varla byrjaður að athafna sig þegar hann setti 88 sentímetra gullfallegan nýrenning. Efri Brúarbreiða er veiðistaðurinn.

Fyrsti laxinn í morgun kom úr hliðaránni Laxá. Þetta er …
Fyrsti laxinn í morgun kom úr hliðaránni Laxá. Þetta er í Efri Brúarstreng. Hér er draumur Enriqes búinn að rætast, að veiða lax á Íslandi. 88 sentímetrar. Ljósmynd/Þröstur Elliðason

Jökla sjálf gaf svo lax þegar leið á morguninn, eftir nokkuð spennandi aðdraganda þar sem hitch túbur skautuðu yfir brotið í Hólaflúð við mikinn áhuga þess silfraða. Hann var ekki að taka strax en ógnaði og ólgaði undir. Svo kom náttúrulega að því að hann tók. Jökla er mikil á og ver sína fiska vel. Sá fyrsti fór af en á veiðistaðnum Hvalbak þar kom sá fyrsti á land. Þröstur Elliðason var að fylgjast með og aðstoða Spánverjana. Það var hann Antonio sem setti í stórlax og landaði. 85 sentímetrar. Antonio fékk svo annan nú undir hádegi á Hauksstaðabroti 72 sentímetra fisk og sá var lúsugur, eða nýkominn úr sjó. Það er alltaf spennandi að sjá hann með lús. Sá lúsugi tók Valbein, þá sterku vorflugu.

Sett var í þrjá laxa til viðbótar í Hvalbak og var tveimur landað. 69 og 72 sentímetrar. Annar lúsugur, þannig að það er fiskur að ganga í Jöklu enda styttist í stórstreymi sem er á fimmtudag.

Svo kom þessi. Lúsugur á Haukstaðabroti. Aftur var það Antonio …
Svo kom þessi. Lúsugur á Haukstaðabroti. Aftur var það Antonio og honum til aðstoðar Húnbogi Sólon Gunnþórsson. Ljósmynd/Þröstur Elliðason

Charles Gonzales landaði svo þeim stærsta í morgun, eða til þessa og var það 90 sentímetra lax sem veiddist í Hvalbaki. Sá tók Black and Yellow túbu.

Þröstur var sáttur við morguninn. „Það er skítaverður á okkur. Búið að rigna núna í bráðum sólarhring og hitinn í morgun var fimm gráður. Hvalbakur er einmitt góður veiðistaður þegar mikið er í henni. Áin er aðeins grænleit og bólgin og þegar sjatnar í henni þá detta inn fleiri staðir. Annars er þessi Spánverja grúbba róleg og þeir byrjuðu ekki fyrr en klukkan níu í morgun. Ekkert stress í gangi,“ hló Þröstur.

Önnur á sem Þröstur Elliðason er með á leigu, Hrútafjarðará fór ekki eins vel af stað. Þar sást ekki lax í ánni í opnun. Hinn þrautreyndi Árni Baldursson opnaði Hrútu að þessu sinni og það eina sem kætti hans geð, veiðilega séð voru vænar sjóbleikjur sem nóg var af í Dumbafljóti neðst í Hrútafjarðará.

Enginn lax kom á land í Laxá á Ásum á opnunardegi, sem var í gær. Sett var í fjóra laxa en þeir náðust ekki. Sturla Birgisson, rekstraraðili Laxár sagði í samtali við Sporðaköst þetta hefði komið honum á óvart. „Við bara fundum ekki þessa fiska sem hafa verið að ganga og við áttum von á að myndu koma strax inn í veiðina,“ sagði matreiðslumeistarinn í samtali við Sporðaköst. Veitt er á fjórar stangir í Ásunum og væntanlega lifnar þar yfir hlutunum á næstunni.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Miðfjarðará Eduardo 2. júlí 2.7.
100 cm Sandá í Þistilfirði Eiður Pétursson 24. júní 24.6.
Veiðiárið 2024:
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert