Haffjarðará er að fara ágætlega af stað. Fimm til sex laxar hafa verið að veiðast á dag frá opnun. Á sama tíma er rólegt yfir Laxá í Dölum og opnunarhollið er með einn lax.
Óttar Yngvason var staddur í ánni sinni, Haffjarðará þegar Sporðaköst náðu tali af honum. „Já. Ég sit hérna á árbakkanum og þetta er að fara svipað af stað og í fyrra sýnist mér. Fyrsta hollið veiddi á fjórar stangir og svo fórum við í sex. Það eru að koma á land að meðaltali fimm til sex laxar á dag. Aðeins misskipt milli veiðimanna en þar ræður kannski fyrst og fremst ástundun og hvort menn eru í stuði þann daginn,“ sagði Óttar i samtali við Sporðaköst.
Hann segir lax hafa veiðst um alla á og hlutfallið milli stórlaxa og smálaxa sé 60/40, stórlaxinum í vil. Einn hundrað sentímetra lax er kominn á land en veiðimaðurinn var einn á ferð og ekki til myndir af honum. Veiddist sá lax í Hellisfljóti og tók rauða Frances.
„Á hádegi í dag voru komnir 29 laxar og að sjálfsögðu öllum sleppt nema hvað við tókum einn í sushi,“ sagði Óttar.
Haffjarðará virðist alltaf standa fyrir sínu. Sveiflur þar í veiði milli ára hafa verið minni en víða má sjá. Athygli vekur að í Haffjarðará er engin fiskirækt stunduð. Áin er sjálfbær að öllu leiti.
Hinu megin við Snæfellsnesið en í sama landshluta er opnunarholl að störfum í Laxá í Dölum. Ævar Sveinsson byrjaði í Kristnapolli í gærmorgun og í fyrsta rennsli setti hann í 80 sentímetra lax og landaði honum átakalítið. Erum við að lenda í veislu? hefur Ævar sjálfsagt spurt sig, enda á dagskrá hjá öllum veiðimönnum landsins að tveggja ára laxinn yrði fjölmennur í byrjun sumars. Forrétturinn hans Ævars var fínn en þar við sat. Í gær var þetta eini laxinn. Við fengum fregnir nú áðan og enn sem komið er þá er þetta eini laxinn úr opnunarhollinu. Það getur verið fljótt að breytast og nú er vaxandi straumur sem nær hámarki á föstudag og þá hækkar í Sjávarlóninu og kannski að bíði einhverjir fiskar fyrir utan. En ef og kannski er eitthvað sem er erfitt að stóla á.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
103 cm | Miðfjarðará | Eduardo | 2. júlí 2.7. |
100 cm | Sandá í Þistilfirði | Eiður Pétursson | 24. júní 24.6. |
Veiðiárið 2024: | |||
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |