Árnefnd Sandár í Þistilfirði opnaði ána formlega í gær. Einvalalið er í nefndinni og er óhætt að segja að Sandá hafi tekið vel á móti þeim. Sannkölluð Sandársleggja kom á land í Ólafshyl og er það stærsti lax sumarsins til þessa.
Þeir feðgar Eiður Pétursson og Guðmundur Ingi sonur hans byrjuðu uppi á þriðja og efsta svæði árinnar. Guðmundur Ingi landaði fljótlega tæplega 80 sentímetra hrygnu. Þá var komið að gamla að fá að veiða aðeins. Hann kastaði á Ólafshyl, Niffunni frá Reiðu öndinni. „Þetta er óskaplega falleg fluga. Svona Metallicu Sunray. Þetta féll líka vel í kramið og ég fékk hörku töku. Hann var rólegur til að byrja með og bara frekar nálægt landi. Svo kom að því að ég sagði Guðmundi Inga að fara að gera sig kláran með háfinn. Þá varð hann vitlaus,“ lýsir Eiður.
Þegar Guðmundur sá laxinn almennilega, um það leiti sem hann trylltist sagði hann þetta vera svakalegan fisk. Þeir feðgar máttu hafa sig alla við að halda í við laxinn sem strikaði nánast í einni lotu niður á næsta veiðistað, Pollinn. „Ég notaði gamalt Laxár trix á hann og fór hátt upp í hlíðina og stöngin var bogin til hins ýtrasta. Með þessu náði ég að vera með alveg þvert átak á hann,“ sagði Eiður.
Hann þekkir sjálfsagt flest trixin sem eru í boði í Aðaldalnum og þarf oftar en ekki að nota. Hann hefur verið leiðsögumaður í Laxá um árabil og er af þeirri veiðiglöðu ætt sem kennd er við Grafarbakka á Húsavík þar sem menn húffa og púffa þegar mikið liggur við og heilsa í fjarlægð með krepptan hnefa á lofti.
Þeir feðgar á endanum komu netinu undir stórlaxinn og hann small í háfinn. Þegar hér var komið sögu var búið að landa tveimur öðrum löxum. Fyrrnefndum laxi Guðmundar Inga og svo hafði Baldur F. Hermannsson landað 87 sentímetra fiski og var það fyrsti lax vertíðarinnar. Það var við hæfi að það gerðist annað árið í röð á þeim magnaða veiðistað Bjarnadalshyl. Raunar var þetta alger endursýning því Baldur fékk líka þann fyrsta í fyrra, einmitt á þessum stað og að sjálfsögðu á Frigga.
Þegar þeir feðgar Eiður og Guðmundur Ingi voru búnir að háfa fiskinn og róa hann sáu þeir hverslags dýr þetta var. Málbandið var tekið upp og stóð hann slétta hundrað sentímetra. Fyrsti hundraðkall sumarsins kominn á land. Sporðaköst eru einmitt búin að opna Hundraðkallalista 2025. Við herðum enn reglurnar svo að fiskar og menn komist á þennan lista. Við förum yfir þær reglur í sérstakri frétt.
Framunda hjá þeim feðgum er veiðisafarí. Næsta er það drottningin í Aðaldal og svo beint í Stóru–Laxá, efra svæðið. Svo er það leiðsögn og aftur leiðsögn í sumar.
„Þetta er frábær opnun í Sandá, finnst mér. Gaman að hún skili þremur stórlöxum á fyrstu vakt,“ sagði Eiður. Við ræddum við hann seint í gærkvöldi og þá var hann nýbúinn að borða ljúffenga löngu sem árnefndin grillaði. „Við erum orðnir svo gamlir að við viljum frekar fisk en kjöt á kvöldin.“
Sporðaköst óska Eiði til hamingju með þessa Sandársleggju. Nýrunninn og þeir verða ekki flottari.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
103 cm | Miðfjarðará | Eduardo | 2. júlí 2.7. |
100 cm | Sandá í Þistilfirði | Eiður Pétursson | 24. júní 24.6. |
Veiðiárið 2024: | |||
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |