„Dramatísk aðgerð að banna veiði“

Vitjað um net í Ölfusá. Gagnrýni hefur komið fram á …
Vitjað um net í Ölfusá. Gagnrýni hefur komið fram á að netaveiði sé heimiluð, þegar laxinn á undir högg að sækja. Dramatísk aðgerð, að stöðva veiði segir Fiskistofa en fylgjast með. mbl.is/Golli

Gagnrýni hefur komið fram á að netaveiðar á laxi séu leyfðar í ám á Suðurlandi. Þessi gagnrýni hefur komið frá veiðimönnum og leigutökum. Hefur þessi gagnrýni verið sett fram undir þeim formerkjum að lax sé í útrýmingarhættu og því sé netaveiði eitthvað sem samrýmist á engan hátt þeirri stöðu. Nú síðast stigu fram þeir Haraldur Eiríksson, leigutaki Laxár í Kjós og Árni Baldursson, landeigandi við Sog og veiðimaður og gagnrýndu harðlega að þessar veiðar væru ekki stöðvaðar. Sporðaköst báru þessa gagnrýni undir Guðna M. Eiríksson sviðsstjóra lax- og silungsveiðisviðs Fiskistofu.

„Ef að við fengjum ráðgjöf um það frá Hafrannsóknastofnun að stofnar hefðu ekki veiðiþol þá höfum við valdheimildir til þess að banna veiði yfir höfuð, að vissum skilyrðum uppfylltum. Bæði stangveiði og aðra veiði ef tilefni er talið til,“ staðfesti Guðni M. Eiríksson sviðstjóri.

 Þarf að koma til ráðgjöf og ábending frá Hafrannsóknastofnun?

„Ef veiðifélag myndi óska eftir því að við myndum setja á bann þá myndum við horfa til þess. Eins ef einstaka veiðiréttaeigendur óska eftir slíku þá myndum við óska eftir ráðgjöf frá Hafró um það,“ upplýsir Guðni.

Aðspurður hvort að það sé ekki tímaskekkja að stunduð sé netaveiði á laxi í ferskvatni á tímum þar sem lax á undir högg að sækja, segir Guðni að ef horft er til Þjórsár þá kunni netaveiði þar að falla undir sjálfbæra nýtingu á þeim stofni. Hann bendir á að stofn Þjórsár sé mjög sterkur og þoli veiði. Áin sé lítt fallin til stangveiði og því geti netaveiði flokkast sem sjálfbær nýting við þær aðstæður.

Guðni M. Eiríksson, sviðstjóri lax- og silungsveiðisviðs Fiskistofu.
Guðni M. Eiríksson, sviðstjóri lax- og silungsveiðisviðs Fiskistofu. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir aftur á móti að við aðstæður þar sem netaveiði geti haft skaðleg áhrif og að sú veiðiaðferð sé ekki sjálfbær nýting þá geti komið til skoðunar að banna veiðar.

„Það er dramatísk aðgerð að grípa inn í og banna veiði og íþyngjandi inngrip inní starfsemi veiðifélaga. Ef við færum að banna netaveiði og stangveiði inni á vatnasvæðum veiðifélaga væri það mjög dramatískt og hefur sjaldan komið til álita.“

En þið hafið aldrei gert það.

„Slíkt hefur ekki komið til álita síðustu tíu til fimmtán ár. Það kom til álita þegar aurflóðið varð í Andakílsá. Þá hafði Fiskistofa til skoðunar að leggja á bann. Síðan reyndi ekki á það þar sem veiðifélagið samdi við þann aðila sem var með svæðið og það var ekkert veitt í nokkur ár á eftir. Þannig að það kom ekki til þess að við þyrftum að beita þessari valdheimild.“

Þið hafið fengið á ykkur gagnrýni, sem tengist þessari netaveiði. Hún hefur komið  frá leigutökum og veiðimönnum. Þurfið þið að hysja upp um ykkur?

„Við erum að skoða þessi mál. Við höfum verið í samskiptum við veiðifélagið og þessa aðila sem segja að við þurfum að hysja upp um okkur. Við erum að meta stöðuna um það hvað hægt er að gera og hvort þörf er á aðgerðum.“

Séð yfir Urriðafoss í Þjórsá. Þetta mikla fljót geymir einn …
Séð yfir Urriðafoss í Þjórsá. Þetta mikla fljót geymir einn stærsta laxastofn Íslands og þótt víðar væri leitað. Þar er stunduð netaveiði. Ljósmynd/Harpa Hlín Þórðardóttir

Eru þið að meta það hvort á að grípa til aðgerða?

„Ég er ekki með í deiglunni bann við netaveiði sérstaklega. En við höfum þessar valdheimildir ef ljóst er að fiskistofnar á þessu vatnasvæði hafi ekki veiðiþol, þá getum við gripið til þeirra aðgerða. Það er líka ljóst að veiði með veiðistöng getur haft skaðleg áhrif á stofna. Sú staða getur komið upp að þeim mörkum sé náð að það þurfi að banna veiði jafnvel yfir höfuð, jafnvel þó að sú regla sé sett að öllum veiddum laxi skuli sleppt. Það er dálítið nýr veruleiki og við höfum ekki staðið frammi fyrir svoleiðis áður. Ég held þó að það sé nú ekki komið að því.“

Það er þá ekkert sem bendir til þess að þið farið í dramatískar aðgerðir á Hvítár Ölfusársvæðinu?

„Við vitum að einkaaðilar hafa verið að grípa inn í og greiða fyrir að net séu ekki notuð. Það hefur líka áhrif til minnkunar á veiði,“ sagði Guðni M. Eiríksson í samtali við Sporðaköst. Hann staðfesti að Fiskistofa er í samtali við Veiðifélag Árnesinga en ekki liggur fyrir hvort gripið verði til aðgerða á þessum tímapunkti.

Í þessu samhengi bendir Fiskistofa á að það er hlutverk veiðifélaga að stuðla að  sjálfbærri nýtingu á laxfiskastofnum á vatnasvæðum þeirra. Þegar fiskigengd minnkar, eins og nú virðist blasa við víða, er veiðifélögum rétt að grípa til þeirra ráða sem að gagni mega koma til að minnka álag á stofna. Það er þó breytileiki milli vatnakerfa hvernig göngur fara af stað og of snemmt að segja til um sumarið 2025 núna þegar júlí er rétt að byrja og stærstur hluti veiðitímans framundan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Miðfjarðará Eduardo 2. júlí 2.7.
100 cm Sandá í Þistilfirði Eiður Pétursson 24. júní 24.6.
Veiðiárið 2024:
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert