Sá stærsti úr Miðfjarðará í mörg ár

Carlos og Eduardo gera sig klára í að mæla þennan …
Carlos og Eduardo gera sig klára í að mæla þennan ítuvaxna og snemmgengna hæng í Austurá í Miðfirði. Ljósmynd/Carlos

Það er ekki langt síðan að við vorum frétt um magnaða meðalþyngd í Miðfjarðará. En í morgun veiddist sá stærsti í sumar sem við höfum heyrt af og þetta er jafnframt sá stærsti í mörg ár í Miðfirði.

Carlos leiðsögumaður var með tvo veiðimenn frá Spáni í efri hluta Austurár, sem er svæðið fyrir ofan Kambsfoss. Þar hafa nokkrir stórir gefið sig síðustu daga í annars frekar miklu harki. Veiðistaðurinn Kotálar var vettvangur ævintýrisins sem hinn 16 ára gamli Eduardo átti eftir að upplifa. Langá Fancy hitchtúba varð fyrir valinu og krókur númer sextán.

Carlos sagði í samtali við Sporðaköst að laxinn hefði tekið fljótlega og hann vissi strax að þetta var stór fiskur. „Þetta var risa ólga og Eduardo gerði þetta mjög vel. Beið og beið og svo var hann tekinn,“ sagði glaðlegur Carlos.

Eduardo heldur honum í háfnum, enda er það góð aðferð …
Eduardo heldur honum í háfnum, enda er það góð aðferð svo fiskurinn hljóti sem minnstan skaða af. Ljósmynd/Frændinn

Klukkustund og kílómetri

Það varð allt vitlaust. Laxinn tók hvert stökkið á fætur öðru og endaði svo með því að strika niður ána á miklum hraða. „Þessi barátta stóð í um klukkustund og við lönduðum honum kílómetra fyrir neðan veiðistaðinn,“ upplýsti Carlos.

Mikill hængur náðist á endanum í háfinn og þá fyrst sáu viðstaddir, Carlos, Eduardo og eldri frændi hans hversu stór lax var hér á ferðinni. Fiskurinn er langt frá því að vera nýr og gæti hæglega hafa gengið í ána í lok maí. Hann er farinn að taka lit krókurinn að taka á sig mynd í neðri skolti. 

Þetta er mikil sleggja. Mældur 103 sentímetrar og sá stærsti …
Þetta er mikil sleggja. Mældur 103 sentímetrar og sá stærsti í Miðfirði í þó nokkur ár. Þessi verður orðinn 105 sentímetrar í haust, ef hann veiðist aftur. Ljósmynd/Carlos

„Ég mældi hann fyrst í háfnum og sá þá að hann var yfir hundrað sentímetrar. Við vönduðum okkur við mælinguna og hann reyndist vera 103 sentímetrar. Magnaður fiskur. Eduardo var í vandræðum með að halda laxinum þannig að næðist góð mynd og þeir frændur skiptust á,“ sagði Carlos.

Þegar skoðaður er hundraðkallalistinn sem Sporðaköst halda úti má sjá að svona stór lax hefur ekki veiðst síðustu fimm ár í Miðfirði. Nauðsynlegt er að fara lengra aftur til að finna jafnoka þessa stóra hængs.

Mjög gott vatn er í Miðfirði og vonast menn eftir að göngur fari nú vaxandi og veiði aukist. Þetta hefur verið rólegt framan af.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Miðfjarðará Eduardo 2. júlí 2.7.
100 cm Sandá í Þistilfirði Eiður Pétursson 24. júní 24.6.
Veiðiárið 2024:
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert