Úrskurðarnefnd um ós Stóru-Laxár hefur kveðið upp úrskurð í ósamati sem unnið hefur verið að. Þetta er í fyrsta skipti sem slíkt mat er gert á svæðinu. Ós Stóru–Laxár hefur þar með verið afmarkaður og færist nú töluvert neðar en verið hefur fram til þessa. Framhald málsins er þó tæpast endanlegt og viðbúið að frekari málaferli og deilur verði uppi.
Stóru–Laxármenn veiddu nýja ósinn í gær og segjast ætla að vera með eina til tvær stangir þar í sumar. Iðumenn vísa til þess að úrskurðurinn taki til óssins en ekki veiðiréttar og benda á þá fornu reglu að landeigandi eigi veiðirétt fyrir sínu landi.
Úrskurðurinn er samtals þrettán blaðsíður og tekur til málsins alls. Tilurðar þess og þeirra álitaefna sem upp komu á leiðinni, svo sem eins og með hæfi málsaðila og fleira í þeim dúr. Reifuð eru sjónarmið málsaðila. Stjórn Stóru–Laxár segir þannig eftirfarandi í þeirri samantekt sem lögð var fyrir nefndina. „Aðstæður í Stóru-Laxá og Hvítá eru að mati Stóru-Laxárdeildar aðrar en raktar eru í úrskurði um ós Flókadalsár. Þar sé staðan sú að árnar blandast ekki fyrr en fyrir neðan brú og eigi því úrskurðurinn ekki við um ós Stóru-Laxár gagnvart Hvítá. Byggt er á því að þegar ferskvatnsá renni í jökulsá haldi ferskvatnið sínu eigin litrófi, hitastigi og eðliseiginleikum lengi eftir að vatnsföllin hafa runnið saman. Jökulvatn hafi aðra efnasamsetningu, lit og hitastig sem valdi því að það blandist ekki ferskvatninu við snertingu. Með vísan til þess verði að telja að lögmæt og lögfræðilega rétt afmörkun á ós slíkra vatnsfalla taki mið af lengd og umfangi blöndunar í reynd – ekki eingöngu fyrstu snertingu.“
Í framhaldi af þessu setur Stjórn Stóru-Laxá fram sína kröfu í málinu. „Af öllu framansögðu verði því að telja að ós Stóru-Laxár gagnvart Hvítá sé neðan við brú að Laugarási, þar sem straumar ánna hafi að fullu sameinast bæði í lagalegum og náttúrulegum skilningi. Stóru Laxárdeildin gerir því þá kröfu að ós Stóru-Laxár sé skilgreindur þar.“
En það er einmitt úrskurðurinn um ós Flókadalsár sem Iðumenn horfa til og telja rétt að taki einnig til óss Stóru–Laxár. Svo er það krafa Stóru–Laxárdeildar, en hún hljóðar svo. „Af öllu framansögðu verði því að telja að ós Stóru-Laxár gagnvart Hvítá sé neðan við brú að Laugarási, þar sem straumar ánna hafi að fullu sameinast bæði í lagalegum og náttúrulegum skilningi. Stóru–Laxárdeildin gerir því þá kröfu að ós Stóru-Laxár sé skilgreindur þar.
Iðujarðir færa rök fyrir því að ós Stóru–Laxár sé einfaldlega þar sem hann hefur alltaf verið og engin ágreiningur hafi verið um málið fyrr en nýr leigutaki kemur að Stóru–Laxá. „Að mati Iðujarða eru engin rök færð fyrir því að ós Stóru-Laxár sé annars staðar en þar sem hingað til hefur verið lagt til grundvallar, þ.m.t. við gerð arðskrár og gerð veiðistaðalýsinga við Stóru-Laxá. Þeirri skoðun matsbeiðanda er hafnað, að það sé liturinn á vatninu sem afmarkar ósinn. Heldur sé það svo að það sé sá staður þar sem straumar þverár sameinast straum höfuðárinnar. Vísað er til þess að mörg dæmi séu til þar sem þannig hagi til að vatn þverár nær með landi höfuðár en telst samt ekki sem hluti þverárinnar. Augljósasta dæmið séu Straumarnir í Borgarfirði. Þar renni vatn úr Norðurá langt niður á Ferjubakkaeyrar og sameinast þá fyrst Hvítá. Þegar svo háttar til eins og staðan sé við Iðu, séu skilin á Stóru-Laxá og Hvítá mjög breytileg og fari það eftir vatnsmagni í hvorri á fyrir sig á hverjum tíma. Við mikla bráðnun í jöklum geti Hvítárvatnið náð allt upp í núverandi ós Stóru-Laxár. Vatnaskilin geti því aldrei verið grundvöllur óss, hvað þá efnagreining á vatni eins og komi fram í skýrslu VSÓ ráðgjafar. Ós geti þar fyrir utan ekki verið breytilegur frá einum tíma til annars eftir því hve mikið vatn er í hvorri á fyrir sig. Við ákvörðun á ós geti því aldrei verið miðað við annað en strauma ánna. Ósinn hljóti alltaf að vera á sama stað óháð vatnsmagni í Stóru-Laxá.“
Aðrir sem hagsmuna eiga að gæta í málinu eru Veiðifélag Árnesinga og Auðsholtsjarðirnar. Þeir síðarnefndu mótmæla því að ósamörk til langs tíma verði færð til. Þá benda þeir einnig á að taka þurfi tillit til Litlu–Laxár, komi til breyting á ós Stóru–Laxár. Svo segir í úrskurði matsnefndarinnar, þar sem vitnað er til samantektar Auðsholtsjarða. „Vísað er til þess að áður en núverandi leigutaki hafi komið að Stóru-Laxá hafi verið sátt um ósamörkin en nú sé á svæðinu efnt til mikils ófriðar undir yfirskini laxaverndunar auðmanna. Lax hafi verið veiddur í net í Hvítá svo lengi sem elstu menn muna. Þau hlunnindi hafi verið nýtt til að metta munna en ekki til þess að leika sér að bráðinni. Rakið er að þó ósamörkum Stóru-Laxár verði breytt þá hafi slíkt ekki nein áhrif á netaveiðihlunnindi Auðsholtsjarða, sem ekki standi til að leggja af.
Guðmundur Ágústsson lögmaður Iðumanna segir úrskurðinn ákveðin vonbrigði og þá sérstaklega í ljósi þess að hann telur niðurstöðu matsnefndarinnar andstæða því sem áður hefur tíðkast í sambærilegum málum. „Þetta kom mér verulega á óvart miðað við þá lögfræði sem hefur tíðkast í málum af þessum toga. Mér finnst eðlilegast að það verði látið á þetta reyna fyrir dómstólum. Úrskurður nefndarinnar er endanlegur á stjórnsýslustigi en málinu er hægt að skjóta til dómstóla. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það, en ég teldi það eðlilegt,“ sagði Guðmundur Ágústsson lögmaður landeigenda Iðujarða.
Guðmundur benti líka á það að þessi úrskurður færi ekki Finni Harðarsyni, leigutaka Stóru Laxár eða stjórn Stóru Laxárdeildar yfirráð yfir Iðunni. „Þetta er einvörðungu úrskurður um hvar ósinn liggur. Sem slíkur veitir úrskurðurinn ekki heimild til veiða á þessu svæði og það er ekki þannig að Finnur Harðarson geti veitt sínum viðskiptavinum leyfi til að veiða á svæðinu. Það er grundvallarréttur í veiðirétti að eigandi lands hefur veiðirétt fyrir sínu landi. Vilji Stóru Laxárdeildin gera tilkall til veiðisvæðisins þá verður að semja um slíkt. Það hefur í raun ekkert breyst með þessum úrskurði þegar horft er til veiðinnar.“
Guðmundur segir að þeir sem hafi rétt til að veiða geti mætt og veitt. Úrskurðurinn taki ekki til þess þáttar. „Eins og staðan er núna þá er hún í raun óbreytt. Margir velta fyrir sér hvor aðili hafi unnið þetta mál. Ég bendi bara á að það er stjórn Stóru Laxár sem gert er að greiða málskostnað.“
Guðmundur telur þennan úrskurð ganga gegn því sem fram til þessa hefur verið viðurkennt þegar kemur að mati á því hvar ós liggur. Hann horfir til fordæmis sem er úrskurður um Flókadalsá og Reykjadalsá. Þar er horft til þess að þar sem straumur mætir og tekur annan straum, þar séu ármót. Úrskurð matsnefndarinnar segir hann vera á aðra leið og geti það sett ýmislegt í uppnám. Hann horfir til ármótasvæða í Hvítá í Borgarfirði. Straumar, Skuggi og Svarthöfði. Þetta eru staðir þar sem laxveiðiár falla út í jökulána Hvítá. „Hvernig ætla menn að finna út ármót eða ós þar sem tvær bergvatnsár mætast. Mér finnst þetta skrítin lögfræði og ekki í samræmi við þær túlkanir sem verið hafa fram til þessa. Nefndin er að breyta aldagamalli túlkun á skilgreiningunni ós og mér finnst það ekki ganga upp.“
Finnur Harðarson, leigutaki Stóru–Laxár og aðalhvatamaður að nýju ósamati er sáttur við úrskurðinn og hvetur til þess að fólk virði hann. „Þetta er Salómonsdómur og vonandi taka honum allir af auðmýkt og reisn. Um 70% veiði Iðu fer fram á því svæði sem var úrskurðað okkur í vil. Núna verða 1-2 stangir frá okkur daglega þarna og hef ég þá trú að umgengni verði betri, laxinum í vil. Nú vil ég hvetja veiðimenn og landeigendur á Iðu að virða úrskurðinn, við munum gera það. Nú strax í framhaldinu munum við fara fram à að 250 metrum niður frá ósamörkum og 100 metrum upp frá ósamörkum verði veiði bönnuð eins og lög kveða á um,“ sagði Finnur Harðarson í skriflegu svari til Sporðakasta.
Úrskurðinn kváðu upp Atli Már Ingólfsson, formaður, auk nefndarmannanna Ragnhildar Helgu Jónsdóttur, umhverfisfræðings og Guðjóns Ármannssonar, lögmanns.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
103 cm | Miðfjarðará | Eduardo | 2. júlí 2.7. |
100 cm | Sandá í Þistilfirði | Eiður Pétursson | 24. júní 24.6. |
Veiðiárið 2024: | |||
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |