Laxá í Dölum átti hressilegan endasprett í veiðinni. Fjórðungur sumarveiðinnar veiddist síðustu vikuna. Vikan sem lauk 1. október gaf hvorki meira né minna en 194 laxa og komst Laxá þar með yfir átta hundruð laxa. Það er vel þekkt að Laxá gefi oft góða eða jafnvel magnaða veiði í september og spila haustrigningar þar aðalhlutverkið.
Þessi síðasta vika var ekki bara sú besta heldur sú langbesta. September var sá mánuður sem gaf bestu veiðina. Þannig var Laxá í 303 löxum 27. ágúst. Lokatalan er hins vegar 809 laxar, staðfestir Skjöldur Skjaldarson leiðsögumaður í samtali við Sporðaköst. Það er ótrúlegur endasprettur og mánuður upp á fimm hundruð laxa. Síðasta hollið var með 106 laxa á þremur dögum á sex stangir.
Veiðimenn sem veiddu Laxá í september hafa sagt að meira hafi verið af laxi í henni en þeir áttu von á miðað við veiðitölurnar. Laxá var vatnslítil lengi sumars og fékk hún ekki þá úrkomu sem margar ár í nágrenninu nutu. Það er ljóst að engin á hérlendis gaf fleiri laxa en Laxá í Dölum, í september ef horft til náttúrulegu ánna. Vissulega voru bæði Miðfjörður og Þverá/Kjarrá nálægt því en Laxá hafði vinninginn.
„Þetta var geggjaður september. Eftir rólegan fyrri hluta sumars var magnað að sjá hversu mikil veiðin var þegar fór virkilega að rigna,“ sagði Skjöldur í samtali við Sporðaköst. Hann segir að menn hafi glímt við endalaust tökuleysi eins og margir hafi bent á í sumar á Vesturlandi. Hnúðlaxinn hafi væntanlega spilað sitt hlutverk en óhemja var af honum í Laxá í sumar. Skjöldur segir það undarlegt að hnúðlax virðist þrífast í svo miklu magni í Laxá í Dölum og Haukadalsá en minna í öðrum ám. „Hann hafði áhrif. Stöðugt að djöflast í laxinum okkar og er á mikilli ferð. Við sáum hnúðlaxinn brjóta öll lögmál sem hann á að lúta. Við sáum hann meira að segja uppi í Sólheimafossi.“
Það jákvæða var þessi mikla veiði í september og segir Skjöldur að hlutfall á stórlaxi hafi verið ótrúlega hátt. „Það var ótrúlegt að engum hundraðkalli skyldi vera landað en þeir voru fjölmargir níutíu plús og þá ekki síst á síðustu dögunum.“
Það voru fleiri ár sem áttu þokkalegan endasprett. Grímsá gaf þannig 85 laxa síðustu vikuna og var það hennar næstbesta vika í sumar. Endaði Grímsá í 843 löxum og þar af gaf september 350 laxa.
Laxá í Leirársveit gaf 51 lax síðustu vikuna og endaði í tæplega 600 löxum. Vantaði bara tvo til að fylla síðasta hundraðið.
| Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
|---|---|---|---|
| 100 cm | Hrútafjarðará | Jón Tómas Rúnarsson | 23. september 23.9. |
| 102 cm | Ytri Rangá | Skjöldur Pálmason | 21. september 21.9. |
| 100 cm | Miðá í Dölum | Eyrún Ýr Guðmundsdóttir | 21. september 21.9. |
| 100 cm | Grímsá | Jón Jónsson | 18. september 18.9. |
| 101 cm | Miðsvæðið Laxá í Aðaldal | Helgi Jóhannesson | 17. september 17.9. |
| 105 cm | Hofsá | Sveinn Blöndal | 15. september 15.9. |
| 106 cm | Laxá í Aðaldal | Sigvaldi A. Lárusson | 14. september 14.9. |