Uppskriftin að veiðiveislu er ekki flókin en eitt og annað þarf að fara saman. Þá ekki síst á þessum tíma árs í sjóbirtingi. Uppskriftin er: Gott vatn. Flinkir veiðimenn og nokkurt magn af fiski. Þessi kokteill var rétt blandaður þegar Aron Sigurþórsson og félagar mættu í Tungufljótið í Vestur Skaftafellssýslu síðastliðinn sunnudag. Fljótið var búið að vera bólgið og mjög mikið um nokkurt skeið. Þegar þeir félagar mættu í Skaftártunguna var aðeins litur í henni en mjög flott vatn og leit virkilega vel út, sagði Aron í samtali við Sporðaköst.
Það kom líka á daginn að þeir félagar gerðu hörku veiði. Lönduðu þeir fimmtíu fiskum og hlutfall af stórfiski var hreint út sagt ótrúlegt. Af þessum fimmtíu voru tuttugu um eða yfir áttatíu sentímetrar og þar af einn sem mældist 91 sentímetri og er einn af þeim stærstu sem veiðst hafa í Tungufljótinu í ár.
Aron sagði að meira hefði verið af fiski á efri hlutanum en vissulega hefðu þeir líka fengið fiska á neðra svæðinu. „Veiðin hjá okkur var mest í Búrhyl og Breiðufor. Þar var auðveldast að ná þeim,“ bætti hann við.
Sjóbirtingur sem hefur náð áttatíu sentímetrum að lengd er gamall fiskur og hefur oft gengið til sjávar og vitjað Tungufljótsins á ný. Ýmsar kenningar voru ræddar í hópnum en Guðmundur Jóhannsson kom með þá nýjustu. Hann lýsti því yfir að þessir stóru sjóbirtingar væru ástæðan fyrir því að loðnan væri horfinn. Félagarnir kímdu.
Flestir fiskarnir tóku púpu hjá þeim félögum en nokkrir komu á hefðbundnar straumflugur. Þar á meðal var 91 sentímetra fiskurinn. Hann tók Black Ghost Sunburst cone í Breiðafor. Einar Hermannsson veiddi þann stórvaxna hæng. Þetta var tíundi fiskurinn sem veiðist í Tungufljóti í ár sem mælist níutíu plús sentímetrar. Þá lönduðu þeir líka tveimur 89 sentímetra fiskum. Öðrum í Breiðfor og hinum í Búrhyl.
Heili veiðidagurinn hjá hópnum var mánudagurinn og þann dag bókuðu þeir 26 fiska og er það gjöfulasti veiðidagur ársins til þessa í Tungufljóti. Þrír laxar voru í aflanum og einn urriði og ein bleikja. Birtingarnir voru 21.
Veiðin í Tungufljóti í ár er ríflega tuttugu prósent meiri en á sama tíma í fyrra í birtingnum. 458 fiskar hafa verið bókaðir en voru 374 á sama tíma í fyrra. Þá hefur veiðst mun meira af laxi eða 55 á móti 34 á sama tíma í fyrra. Aftur á móti er mun minni veiði af urriða og bleikju. En þar er um að ræða fáa fiska þannig að hver fiskur vegur þungt.
Veitt er til 20. október í Tungufljóti. Þegar komið er fram á þennan tíma er stærsti áhrifavaldurinn veðrið. Góðir dagar munu gefa góða veiði en gular veðurviðvaranir eins og gilda í dag eru ekki að hjálpa.
| Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
|---|---|---|---|
| 100 cm | Hrútafjarðará | Jón Tómas Rúnarsson | 23. september 23.9. |
| 102 cm | Ytri Rangá | Skjöldur Pálmason | 21. september 21.9. |
| 100 cm | Miðá í Dölum | Eyrún Ýr Guðmundsdóttir | 21. september 21.9. |
| 100 cm | Grímsá | Jón Jónsson | 18. september 18.9. |
| 101 cm | Miðsvæðið Laxá í Aðaldal | Helgi Jóhannesson | 17. september 17.9. |
| 105 cm | Hofsá | Sveinn Blöndal | 15. september 15.9. |
| 106 cm | Laxá í Aðaldal | Sigvaldi A. Lárusson | 14. september 14.9. |