Besti mælikvarði á veiði er hversu margir laxar veiðast á stöng á dag. Þar með er það líka besti mælikvarðinn á gæði vörunnar ef eingöngu er horft til fjölda fiska. Aðeins ein á á Íslandi komst yfir hlutfallið tveir laxar á stöng á dag. Það er Selá í Vopnafirði sem státar af hlutfallinu 2,08 laxar. Í öðru sæti er svo hin Vopnafjarðaráin, Hofsá með 1,62 laxa á dag allt veiðitímabilið. Báðar þessar ár eru þó með sínu minni veiði en í fyrra. Í listanum hér að neðan má sjá þessar tölur og innan sviga er svo hlutfallið eins og það var í fyrra.
Aðeins fjórar ár á listanum eru með betra hlutfall en þær buðu upp á í fyrra. Tvær þeirra eru líka nágrannar, eins og Hofsá og Selá. Þessar tvær ár eru Haffjarðará sem er með þriðja hæsta hlutfallið 1,52 laxar á stöng á dag. Í fyrra var þetta hlutfall örlítið lægra eða 1,48 laxar á dag. Nágrannaáin sem getur líka státað af betri veiði er Hítará. Var með í sumar 0,89 laxar á stöng á dag á móti 0,80 í fyrra. Fnjóská var líka mun betri en í fyrra. Fór úr 0,27 í fyrra í 0,51 í ár. Sú fjórða er svo Laugardalsá. Hún fór úr 0,46 í fyrra í 0,54 í sumar.
Þessar tölur sem taflan er sett saman úr byggja alfarið á upplýsingum frá Landssambandi veiðifélaga sem heldur úti heimasíðunni angling.is. Vissulega eru gloppur í þessu. Sumar ár byrja með færri stangir, eins og bæði Laxá í Dölum og Miðfjarðará, svo einhverjar séu nefndar. Mjög margar af ánum hér að neðan eru í raun með lengra veiðitímabil en 90 dagar sem Sporðaköst nota í sinni reikniformúlu. Ástæðan fyrir því að við notum eftir sem áður þann dagafjölda er að það gefur rétta samanburðinn. Við notuðum þá tölu við útreikninga fyrri ár.
Á listanum þetta sumarið eru aðeins fjórtán ár sem gefa hlutfall sem er hærra en einn. Það þýðir að líkur á að veiðimaður, eða hver stöng (oft eru jú tveir sem deila stöng) hafi fengið lax á degi hverjum. Svo gerist það ef ein stöng veiðir vel þá minnka líkur hjá öðrum, ef við einblínum bara á tölfræðina.
Víða má sjá mikla breytingu frá því í fyrra. Laxá á Ásum var til að mynda í fyrra með hlutfallið 2,8 en í ár er það meira en helmingi lakara. Fór niður í 1,3. Samtals er um að ræða 38 ár þar sem þetta hlutfall hefur verið tekið saman.
Þessi listi hér að neðan er býsna ólíkur listanum þegar eingöngu er horft til heildarveiði, eða fjölda laxa. Þó er það þannig að allar aflahæstu árnar eru á þessum lista. Hafa hins vegar oft sætaskipti við ár með færri færri laxa og jafnvel miklu færri stangir. Gott dæmi um það Er Leirvogsá sem státar af hlutfallinu 1,38 og er nánast á pari við Miðfjarðará sem er með 1,40.
Húnavatnssýslurnar áttu erfitt uppdráttar í sumar og sést það glögglega þegar þetta hlutfall er skoðað. Bæði Vatnsdalur og Víðidalur eru í kringum 0,5 laxa á dagstöngina. Við létum það vera að setja Blöndu inn á þennan lista enda lítil veiði þar í sumar. Yfirfall stóran hluta veiðitíma og einungis bókaðir 54 laxar í Blöndu í sumar en þar er veitt á átta stangir.
Að sama skapi er rétt að taka fram að þessir útreikningar taka einvörðungu til fjölda laxa og taka ekki á nokkurn hátt til þeirrar aðstöðu sem ólík veiðisvæði bjóða upp á. Hér er eingöngu horft til þess sem mætti kalla gæði veiðinnar. Einhverjir kunna að benda á að hlutfall tvíveiddra laxa geti verið misjafnt milli svæða. Það er réttmæt athugasemd. Þannig var einungis 15% veiddra laxa sleppt í Gljúfurá í Borgarfirði á meðan að 99% var sleppt í Selá. Það segir sig sjálft að drepinn lax veiðist ekki aftur. Að sama skapi getur hátt hlutfall endurveiði skekkt mynd af stærð göngunnar í viðkomandi á.
Hér að neðan er listinn. Fyrri dálkurinn segir til um heildarfjölda veiddra laxa á nýliðnu sumri. Innan sviga er fjöldi laxa á hverja stöng yfir sumarið. Seinni dálkurinn ræður svo röðinni. Hlutfallið fjöldi laxa á stöng á dag og innan sviga þar fyrir aftan sama hlutfall í fyrra.
Veiðisvæði Heildarveiði/per stöng Á stöng á dag
Selá í Vopnafirði (6) 1.124 (187) 2,08 (2,50)
Hofsá í Vopnafirði (6) 876 (146) 1,62 (2,01)
Haffjarðará (6) 824 (137) 1,52 (1,48)
Laxá í Dölum (6) 809 (135) 1,50 (2,50)
Þverá/Kjarrá (14) 1.852 (132) 1,47 (1,73)
Svalbarðsá (3) 394 (131) 1,46 (1,58)
Miðfjarðará (10) 1.266 (126) 1,40 (2,58)
Leirvogsá (2) 249 (124) 1,38 (1,55)
Elliðaár (6) 724 (121) 1.34 (1,73)
Laxá á Ásum (4) 471 (118) 1,31 (2,8)
Jökla (8) 933 (116) 1,29 (1,61)
Miðfjarðará í Bakkaf. (2) 231 (115) 1,28 (1,69)
Ormarsá (4) 431 (108) 1,20 (--)
Grímsá (8) 843 (105) 1,17 (1,62)
Laxá í Leirársveit (7) 598 (85) 0,94 (1,39)
Laxá í Kjós (8) 645 (81) 0,90 (1,26)
Hítará (6) 480 (80) 0,89 (0,80)
Straumfjarðará (4) 314 (79) 0,87 (1,01)
Norðurá (15) 1.150 (77) 0,85 (1,25)
Sandá (4) 304 (76) 0,84 (1,06)
Flókadalsá (3) 210 (70) 0,78 (1,53)
Hafralónsá (4) 281 (70) 0,78 (0,79)
Úlfarsá (Korpa) (2) 132 (66) 0,73 (1,38)
Hrútafjarðará (3) 197 (66) 0,73 (1,74)
Langá (12) 717 (60) 0,66 (1,13)
Gljúfurá (2) 117 (59) 0,65 (1,06)
Haukadalsá (5) 289 (58) 0,64 (0,95)
Andakílsá (2) 105 (53) 0,58 (2,62)
Mýrarkvísl (4) 200 (50) 0,55 (1,12)
Laugardalsá (3) 145 (48) 0,54 (0,46)
Laxá í Aðaldal (12) 583 (49) 0,54 (0,68)
Vatnsdalsá (6) 287 (48) 0,53 (1,26)
Fnjóská (8) 366 (46) 0,51 (0,27)
Víðidalsá (8) 357 (45) 0,50 (1,09)
Svartá í Hún. (3) 98 (33) 0,37 (0,41)
Skjálfandafljót (7) 229 (33) 0,36 (0,60)
Miðá í Dölum (3) 84 (28) 0,31 (0,72)
Flekkudalsá (3) 55 (18) 0,20 (0,55)
Á listanum eru flestar ár sem gefa upp tölur á angling.is. Þær ár sem ekki gefa upp tölur þar eru þar af leiðandi ekki á þessum lista. Ekki voru tekin inn ósasvæðin í Borgarfirði. Straumar, Brennan og Skuggi.
| Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
|---|---|---|---|
| 100 cm | Hrútafjarðará | Jón Tómas Rúnarsson | 23. september 23.9. |
| 102 cm | Ytri Rangá | Skjöldur Pálmason | 21. september 21.9. |
| 100 cm | Miðá í Dölum | Eyrún Ýr Guðmundsdóttir | 21. september 21.9. |
| 100 cm | Grímsá | Jón Jónsson | 18. september 18.9. |
| 101 cm | Miðsvæðið Laxá í Aðaldal | Helgi Jóhannesson | 17. september 17.9. |
| 105 cm | Hofsá | Sveinn Blöndal | 15. september 15.9. |
| 106 cm | Laxá í Aðaldal | Sigvaldi A. Lárusson | 14. september 14.9. |