„Sögðu að þetta væri jólagjöfin í ár“

Tómas Helgi Kristjánsson heldur úti síðunni veidislod.is og þar má …
Tómas Helgi Kristjánsson heldur úti síðunni veidislod.is og þar má finna verk eftir hann þar sem hann teiknar upp veiðisvæði af mikilli nákvæmni. Ljósmynd/Tómas Helgi Kristjánsson

Veiðidellan getur tekið á sig ýmsar myndir og stundum í eiginlegri merkingu. Tómas Helgi Kristjánsson hefur veitt frá barnsaldri og hefur nú farið í að hanna og prenta listaverk af veiðisvæðum á Íslandi. Verkin eru öðruvísi. Svart hvít og áin eða vatnakerfið tekið úr samhengi við náttúruna og prentað á hágæða pappír í fallegum ramma. Hugmyndin er skemmtileg og hefur vakið verðskuldaða athygli.

Tómas Helgi byrjaði mjög ungur að veiða og naut þeirra forréttinda sem barn að komast með föður sínum, Kristjáni Þór Árnasyni í veiði vítt og breitt. „Ég fór með pabba og fjölskyldunni og fyrst var það Laugarvatn, Þingvallavatn og fleiri spennandi staðir. Svo fórum við líka í Blöndu, Stóru Laxá, Rangárnar og í raun mjög víða,“ sagði Tómas Helgi í samtali við Sporðaköst aðspurður um áhuga á veiðiskap.

Hér má sjá Laxá í Kjós. Verk eftir Tómas Helga. …
Hér má sjá Laxá í Kjós. Verk eftir Tómas Helga. Listaverk sem án efa heilla fleiri en veiðifélaga hans. Ljósmynd/Tómas Helgi

Hugmyndin að þessum verkum kviknaði hjá Tómasi þegar hann í fyrsta skipti var kominn í vaktavinnu. Þá var frítími inn á milli og honum fannst hann þurfa að vera að gera eitthvað þess á milli sem hann var á vöktum. „Ég ákvað að prófa að teikna upp eina af mínum uppáhaldsám, sem er Eldvatn í Meðallandi. Mér fannst þetta koma svo vel út að ég byrjaði á að sýna veiðifélögunum og spurði þá út í þetta. Þeir brugðust allir við með sama hætti. Fannst þetta frábært og tilkynntu mér að þetta væri jólagjöfin í ár. Allir spurðu mig hvort ég gæti gert fleiri ár og þetta vatt hratt upp á sig og hingað er ég kominn,“ upplýsir hann.

Hlutirnir hafa gerst hratt hjá honum. Nú er komin upp vefsíða með verkum sem Tómas Helgi er að bjóða upp á. Heimilisfangið, ef svo má segja er veidislod.is og þar er hægt að skoða hinar ýmsu ár og veiðisvæði sem þegar eru komin í framleiðslu. Einnig er hægt að fylgjast með honum á Instagram @veidislod.

Tómas Helgi er reynslumikill veiðimaður og hefur stundað leiðsögn með veiðimönnum bæði í laxveiði og silungi. „Ég fékk þessa veiðibakteríu mjög snemma. Þegar ég varð sautján ára og fékk bílprófið þá fór ég strax að taka að mér leiðsögn. Ég var svo í veiðileiðsögn nánast öll sumur þar til ég var orðinn 25 ára. Þá breytti ég aðeins um og ákvað á að leggja meiri áherslu á mína eigin veiði. Í dag reyni ég að fara eins oft og ég get að veiða. En maður væri alltaf til í að hafa tíma til að komast meira að veiða,“ segir hann. 

Laxá í Mývatnssveit komin upp á vegg.
Laxá í Mývatnssveit komin upp á vegg. Ljósmynd/Tómas Helgi

„Ég er að nota bæði loftmyndir og kortagögn frá Náttúrufræðistofnun. Ég hafði samband við þau og kannaði hvort ég mætti nota þessi gögn til þess að skapa list. Þau tóku mjög vel í það og voru bara spennt að ég væri að gera þetta. Ég tölvuteikna svo upp úr þessum gögnum.“

Verkin eru í ýmsum stærðum og hefur Tómas Helgi fengið ýmis konar fyrirspurnir og pantanir. Bæði hvað varðar svæði eða ár og einnig misjafnar stærðir. „Verkin eru í boði í nokkrum stærðum. Allt frá A4 eða 21 x 30 og 30 x 30. En ég hef verið að selja verk alveg upp í 100 x 140. Það var sérpöntun en stærstu verkin á síðunni eru 50 x 70,“ upplýsir Tómas Helgi. Hann segist vera í góðu sambandi við Innrammarann sem prenti og gangi frá verkunum.

Með glæsilegan sjóbirting úr Eldvatninu sem er ein af hans …
Með glæsilegan sjóbirting úr Eldvatninu sem er ein af hans uppáhalds ám. Fyrsta verkið hans var einmitt Eldvatnið. Ljósmynd/Tómas Helgi

„Margir óska eftir verkum af ánum sem eru í næsta nágrenni við sumarbústaðinn eða heimilið. Svo hef ég líka fengið nokkrar beiðnir um ár sem ég hef aldrei heyrt um. Slíkar beiðnir kalla oft á töluverða rannsóknarvinnu og mögulega samstarf við þá sem panta. Ég var mikið í þessu fyrst en hef minna komist í slíka hluti. Nú er bara orðið meira að gera í þessu en ég bjóst við,“ segir hann og brosir.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Hrútafjarðará Jón Tómas Rúnarsson 23. september 23.9.
102 cm Ytri Rangá Skjöldur Pálmason 21. september 21.9.
100 cm Miðá í Dölum Eyrún Ýr Guðmundsdóttir 21. september 21.9.
100 cm Grímsá Jón Jónsson 18. september 18.9.
101 cm Miðsvæðið Laxá í Aðaldal Helgi Jóhannesson 17. september 17.9.
105 cm Hofsá Sveinn Blöndal 15. september 15.9.
106 cm Laxá í Aðaldal Sigvaldi A. Lárusson 14. september 14.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert